Unnur Guðjónsdóttir fagnar áttræðisafmæli sínu næstkomandi mánudag og af því tilefni hyggst hún heiðra minningu afa síns, Gunnars Marels Jónssonar skipasmiðs. Síðast þegar Unnur fagnaði stórafmæli, fyrir fimm árum, heiðraði hún minningu föður síns og segir hún mikilvægt að fólk haldi minningu fjölskyldu sinnar á lofti.

„Þó að ég sé orðin áttatíu ára þá er ég samt barn föður míns og barnabarn afa míns og mér finnst mikilvægt að heiðra minningu þeirra. Ég sakna þessa fólks mikið og þetta er mín leið til að heiðra það,“ segir Unnur.

Afi Unnar var skipasmiður og smíðaði hann meðal annars vélbátinn Helga VE-333 í Vestmannaeyjum. Smíði bátsins hófst í mars árið 1936 og tók um fjögur ár. Helgi VE hélt fullbúinn til síldveiða í júlí árið 1939. Í tilefni afmælisins ætlar Unnur að færa Sjóminjasafninu í Reykjavík tréskurðarmynd af bátnum.

„Afi minn var merkilegur maður og smíðaði meðal annars þennan vélbát sem þá var stærsti bátur sem smíðaður hafði verið á Íslandi en hann hafði þó aldrei lært skipasmíði,“ segir Unnur en Gunnar Marel hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1940 fyrir störf sín.

Helgi VE-333, sem var 119 rúmlestir að stærð, fórst skammt austan við Faxasker árið 1950 og með honum fórust tíu manns. „Báturinn á sér merkilega sögu, bæði vegna þess að hann var sá stærsti á þessum tíma en líka vegna þess að hann ferst á þennan hátt,“ segir Unnur.

Hún ætlar að halda afmælisveislu í Kínasafninu og á heimili sínu á Njálsgötu á afmælisdaginn sjálfan. Þar mun hún færa safnstjóra Sjó­minjasafnsins myndina útskornu af Helga VE. „Myndin er gerð af tréskurðarmeistara sem hét Jón Bondó og var líka Vestmannaeyingur. Hún var gerð fyrir rúmum tuttugu árum síðan og ég keypti hana af honum vegna þess hve stórt atriði í skipasmíðum afa míns þessi bátur var. Hún mun sóma sér vel á safninu.“

Unnur hefur sjálf sinnt ýmsum verkum og lærði til að mynda dans í Stokkhólmi og var ballettmeistari Þjóðleikhússins. Þá stofnaði hún einnig Kínaklúbb Unnar árið 1992 með það að markmiði að fræða fólk um Kína. Hún segist þakklát fyrir það hve gæfuríka ævi hún hefur átt og tekur hækkandi aldri fagnandi.