Í kvöld fara fram minningartónleikar um Ingvar Lundberg, hljóðhönnuð og tónlistarmann, sem lést síðastliðið sumar aðeins 56 ára gamall. Tónleikarnir fara fram í Bæjarbíói og þar koma fram Cell7, SúEllen, Dúkkulísur, Guðmundur R, Jón Ólafsson, Kvöldverður á Nesi og Langi Seli og skuggarnir.
Ingvar starfaði sem tónlistarmaður frá unglingsaldri og var þekktastur fyrir hljómborðsleik í sveitinni SúEllen. Hljómsveitin var stofnuð árið 1983 og var snemma farin að koma fram á dansleikjum. SúEllen var frá Norðfirði og kom mest fram fyrir austan. Árið 1985 var hún meðal keppenda í hljómsveitakeppni í Atlavík, þar varð hún í 2. sæti en í 3. sæti varð Special treatment, sem varð svo þekkt sem Greifarnir.
Ingvar var einnig mikilsmetinn hljóðhönnuður, sérhæfður í kvikmyndum. Hann var margverðlaunaður fyrir verk sín og stuttu eftir andlátið hlaut Ingvar Edduverðlaun fyrir hljóðhönnun í kvikmyndinni Dýrið.
Á tónleikunum í kvöld ætla vinir Ingvars að heiðra minningu hans og mun allur ágóði renna í minningarsjóð um Ingvar.