Samtökin Hróshópurinn og Raddir fólksins munu heiðra Jóhannes Stefánsson fyrir uppljóstranir hans í Samherjamálinu næstkomandi laugardag.

Ólafur Sigurðsson, einn forsvarsmanna Hróshópsins, segir fyrirhugaða athöfn hafa vakið mikla athygli fyrir utan landsteinana, þá sérstaklega í Namibíu. Sýnt verður frá viðburðinum á Facebook.

„Við vorum búnir að ræða þetta í nokkurn tíma en að sjálfsögðu þá vakti mál Samherja þetta upp,“ segir Ólafur í samtali við Fréttablaðið.

„Með uppljóstrun sinni náði Jóhannes að varpa ljósi á gangverk spillingar. Samherjamálið sýnir fram á mikilvægi þess að fá auðlindirnar í ríkiskassann og undirstrikar þörfina á nýrri stjórnarskrá.“

Hörður Torfason hlaut viðurkenningu Hróshópsins árið 2011.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Bæði Hróshópurinn og Raddir fólksins voru fyrirferðamikil samtök í kjölfar hruns. Raddir fólksins stóðu fyrir laugardagsmótmælunum í kjölfar hruns bankakerfisins og setningu neyðarlaga árið 2008.

Hróshópurinn veitti sína fyrstu viðurkenningu árið 2011. Þá voru fjölmargir einstaklingar heiðraðir fyrir framlög þeirra í þágu betra samfélags.

Tilgangur með starfi Hróshópsins er „að heiðra sjálfboðastarf og vekja athygli á þeirri samfélagslegu meðvitund sem hefur komið fram í starfi margs konar grasrótarhópa sem hafa sprottið upp í kjölfar bankahrunsins.“

Raddir fólksins stóðu fyrir tuttuguogeinum laugardagsmótmælafundum.
Fréttablaðið/Daníel Rúnarsson