Heiðmörk stækkar í sumar um 74 hektara. Í tilkynningu kemur fram að Skógræktarfélag Reykjavíkur og Garðabær hafi síðasta fimmtudabg gert þjónustusamning um áframhaldandi samstarf, sem einnig felur í sér stækkun friðlandsins.
Svæðið sem nú bætist við Heiðmörk er í landi Garðabæjar og liggur milli Heiðmerkur og friðlýsts svæðis Búrfells.
Í tilkynningunni kemur fram að svæðið sé í nágrenni Kolhóls sem að miklu leyti ógróið og stefnir Skógræktarfélag Reykjavíkur að því að vinna að bæði uppgræðslu og skógrækt þar. Svæðið er sagt illa farið. Það hafi verið friðað fyrir beit í nokkra áratugi en hafi illa náð að gróa saman.
Starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur fara um svæðið á næstunni til að meta hvernig best er að haga uppgræðslunni. Talsverðir möguleikar felast í uppgræðslu og skógrækt á svæðinu og uppbyggingu útivistarsvæða.
Mikil umferð í Heiðmörk og við Búrfell
Friðlandið í Heiðmörk hefur verið sérstaklega mikið notað til útivistar undanfarið eitt og hálft ár, vegna heimsfaraldurs COVID og samkomutakmarkana og kemur fram í tilkynningunni að miðað við gönguteljara hafi um fjögur eða fimm þúsund manns farið um Búrfellsgjá mánaðarlega í mars, apríl og maí.

