Heiðlóan er sigur­vegari kosninga um titilinn Fugl ársins 2021. Í til­kynningu frá fé­laginu Fugla­vernd, sem stendur að baki kosningunni, kemur fram að hún hafi sigrað með glæsi­brag í kosningunni í ár þar sem hún fékk bæði flest at­kvæði sem 1. val kjós­enda og var einnig með flest at­kvæði saman­lagt sem 1.-5. val.

Him­briminn veitti henni harða keppni. Alls bárust sam­kvæmt til­kynningunni 2.054 at­kvæði og stóð valið um 20 fugla. Velja mátti fimm fugla og raða þeim í sæti 1 til 5.

Sameiningartákn þjóðarinnar

Heið­lóan stóð ekki ein í sinni kosninga­bar­áttu en sér­stök tals­kona hennar í keppninni var Guð­rún Jóns­dóttir. Hún lagði dag við nótt við að lyfta heið­lóunni á flug í keppninni, fór í út­varps­við­töl, opnaði kosninga­skrif­stofu, var með kosninga­kaffi á pallinum og lét út­búa sér­stakan hringi­tón í síma með lóu­söng. Hún stofnaði einnig fés­bókar­síðu fyrir heið­lóuna sem þegar er komin með um 600 fylgj­endur.

,,Lóan er hið eina sanna sam­einingar­tákn þjóðarinnar” sagði Guð­rún Jóns­dóttir tals­kona lóunnar og var á því að lands­menn ættu að sam­einast um að kjósa hana fugl ársins til að kveða burt kóf og leiðindi síðasta vetrar og það hafa þeir nú gert.

Fugla­vernd stefnir að því að kosningin verði ár­legur við­burður héðan í frá. Keppnin er haldin í þeim til­gangi að vekja at­hygli á fuglum og þeim ógnum sem að þeim steðja, þar á meðal röskun bú­svæða og lofts­lags­breytingar. Í hópi fugla sem voru kepp­endur um titilinn Fugl ársins og eru í miklum vanda á Ís­landi eru lundi, kría og sendlingur.

Staða heið­lóunnar á Ís­landi er þó góð og telst stofninn vera hátt í 400 þúsund pör. Hún er al­gengur og út­breiddur varp­fugl og Ís­land er mjög mikil­vægt bú­svæði fyrir heið­lóuna því að um þriðjungur allra heið­lóa í heiminum verpur hér á landi. Heið­lóan er far­fugl og flýgur á haustin til Vestur-Evrópu, aðal­lega Ír­lands, en einnig í Frakk­lands, Spánar, Portúgal og Marokkó, þar sem hún dvelur við strendur og á­rósa.

Titillinn Fugl ársins 2021 er enn ein fjöður í hatt heið­lóunnar sem einnig sigraði BirdEuro­vision­keppnina árið 2002 með fögrum söng sínum. Heið­lóan er gjarnan kölluð vor­boðinn ljúfi og skipar sér­stakan sess í hugum lands­manna sem tákn vor­komunnar og er fréttum af fyrstu komu heið­lóunnar á hverju vori ákaft fagnað. Um hana hafa einnig löngum verið ort og kveðin rómantísk ljóð.

Sé ég gróa og grænka kvist

grynnist snjóa­takið

vorið hló er heyrði ég fyrst

hlýja lóu­kvakið

Lóu­vísur 1929, Stefán Vagns­son

Ágætu heiðlóuvinir. Á sumardaginn fyrsta fögnum við sumri og gleðjumst yfir þeim sessi sem lóan okkar á í hugum okkar allra.

Posted by Heiðlóan on Thursday, 22 April 2021

Allir fuglarnir með kosningastjóra

Allir 20 fuglarnir í fram­boði höfðu kosninga­stjóra á sínum snærum, fólk úr ýmsum áttum, á öllum aldri, sem stóð sig með stakri prýði. Margir stofnuðu sam­fé­lags­miðla­síður fyrir sína fugla, gerðu mynd­bönd, fóru í við­töl og fengu jafn­vel sína eigin vef­síðu eins og him­briminn. Fugla­vernd þakkar öllum kosninga­stjórunum kær­lega fyrir að leggja fuglum og fé­laginu lið sitt með þessum hætti og vonar að þau hafi öll haft á­nægju af.

Fugla­vernd óskar heið­lóunni til hamingju með titilinn Fugl ársins 2021 og vonar að sumarið verði henni og hennar fiðruðu bræðrum og systrum gjöfult og gott.

Fuglar í 10 efstu sætum í kosningum um Fugl ársins 2021:

  1. Heið­lóa
  2. Him­brimi
  3. Rjúpa
  4. Hrafn
  5. Maríu­erla
  6. Kría
  7. Hrossa­gaukur
  8. Lundi
  9. Svart­þröstur
  10. Músar­rindill

Nánari upp­lýsingar um fram­bjóð­endur og kosninga­stjóra þeirra er að finna á vef­síðunni keppninnar fuglarsins.is