Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, bóndi og sveitarstjórnarkona, gefur kost á sér í fyrsta sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar. Þetta kemur fram í tilkynningu og því ljóst að fjórir sækjast nú eftir því að leiða lista flokksins í kjördæminu.
Heiða hefur setið í sveitarstjórn Skaftárhrepps í alls tíu ár og verið varaþingmaður VG síðastliðin fjögur ár. Ari Trausti Guðmundsson, núverandi oddviti flokksins í kjördæminu, hefur gefið út að hann ætli að hætta á þingi í lok kjörtímabils.
Heiða er fædd árið 1978. Hún tók við búi á Ljótarstöðum að loknu stúdentsprófi og búfræðinámi árið 2001. Hún hefur síðan starfað sem sauðfjárbóndi og unnið við rúning og fósturtalningu í sauðfé víða um land.
„Mín helstu áherslumál í stjórnmálum og lífinu eru umhverfismál og virðing fyrir náttúrunni, jafnrétti og mannréttindi hvers konar og íslenskur landbúnaður. Að þessum málum og fleirum langar mig að vinna áfram innan raða Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs,“ segir í tilkynningu hennar.
Áður hafa Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður, Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar og fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar og Samfylkingar, gefið kost á sér til að leiða lista VG í kjördæminu auk Hólmfríðar Árnadóttur, skólastjóra Sandgerðisskóla, sem tilkynnti framboð sitt í nóvember.
„Listanum væri svo sannarlega sómi að því að hafa þau í oddvitasæti líka. Ég er svo sannarlega ekki að keppa við þau. Ég er í rauninni bara að gefa kost á því að ég sé valinn til að leiða listann,“ sagði Róbert Marshall í samtali við Fréttablaðið í byrjun febrúar. Sagði hann að fram undan væri vandasamur tími í íslenskri pólitík og að því þurfi allar hendur á dekk.