„Þetta er stórkostlegt, alveg stórsigur fyrir náttúruvernd. Ég ber djúpa virðingu fyrir þeim sem tóku slaginn og kærðu, ég er mjög þakklát þeim,“ segir Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi.

Fjölmargar kærur sem bárust úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála vegna ákvörðunar sveitarstjórnar Skaftárhrepps sem samþykkt hafði umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir virkjun í Hverfisfljóti við Hnútu, hafa leitt til afturköllunar framkvæmdaleyfis. Skaftárhreppur fylgdi ekki reglugerð. Landvernd segir að lög um náttúruvernd yrðu brotin með virkjun.

Hin fyrirhugaða virkjun hefur verið gríðarlega umdeild. Skemmst er að minnast umfjöllunar Hringbrautar og Fréttablaðsins sem lagði leið sína á fyrirhugaðan virkjanastað þar sem röskun Lambhagafossa var meðal annars til umfjöllunar.

Minnihluti sveitarstjórnar lagðist hart gegn áformunum. Heiða Guðný, sem sat í minnihlutanum, telur úrskurðinn til marks um nýjan skilning er kemur að náttúruvernd.

„Miðað við hvernig landið hefur legið átti ég allt eins von á að þessi úrskurður félli virkjanamegin. Kannski eru komnir nýir tímar þar sem hagsmunir náttúrunnar fá aukið vægi.“

Niðurstaða Skipulagsstofnunar er að framkvæmdin myndi hafa áhrif á tvö svæði sem heyri undir sérstaka vernd, Skaftáreldahraun og Lambhagafossa. Tekur úrskurðarnefndin að nokkru undir gagnrýni er framkvæmdaleyfið var veitt.

Sem dæmi hafi ekki verið rakið nægilega með hvaða hætti Hnútuvirkjun muni bæta raforkuöryggi innan hreppsins.

Svæðið sem myndi fara undir virkjun er algjörlega óspillt og Lambhagafossar ein helsta náttúruperlan. Vatnsrennsli þeirra myndi skerðast verulega. fréttablaðið/Anton Brink

„Hér má einnig nefna að staðhæft er að nýr vegur að stöðvarhúsi Hnútuvirkjunar muni bæta aðgengi að ferðamannastað, en ekki er vikið að því hvort vegurinn muni bera slíka almenna umferð eða yfirleitt vera opinn fyrir henni,“ segir í úrskurðinum.

„Við sem skipuðum sveitalistann á síðasta kjörtímabili tókum þennan slag, við mölduðum í móinn á öllum stigum, innan skipulagsnefndar og sveitarstjórnar og létum gera fullt, fullt af bókunum,“ segir Heiða. „Niðurstaðan er að óröskuð náttúrusvæði njóti aukins áhuga og virðingar innan kerfisins og að það borgi sig að sækja svona mál.“

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir að aldrei áður hafi framkvæmdaleyfi verið fellt úr gildi af efnisástæðum. Hún túlkar það þannig að erfitt verði fyrir sveitarstjórn að gefa út nýtt leyfi. Þá vanti rökstuðning fyrir hvers vegna sveitarstjórn vilji brjóta náttúruverndarlög.

Jóhannes Gissurarson, oddviti í Skaftáhreppi, gaf ekki kost á viðtali vegna málsins.