Fulltrúi íslenska sendiráðsins á Englandi segir það heiður að taka þátt í skipulagningu í kringum stuðningsmenn EM-liðs Íslands. Hún kvíðir þó væntanlegri hitabylgju.

„Við erum bara á fullu að undirbúa næsta leik,“ segir Þurý Björk Björgvinsdóttir, sendiráðunautur hjá íslenska sendiráðinu í Bretlandi, létt í lund en það er í nógu að snúast hjá henni.

Þurý kemur að skipulagningu stuðningsmannasvæðisins fyrir leiki Stelpnanna okkar á EM.

„Við erum bara mjög ánægð með fyrsta leikinn. Það var ákveðin óvissa um hversu margir myndu mæta og hvernig stemningin yrði en fólk var farið að safnast saman fyrir opnun. Það hjálpaði vissulega til að það var glampandi sól og það var strax hægt að sjá fjölmargar bláar treyjur,“ segir Þurý spurð um það hvernig fyrsti leikurinn hafi gengið.

Að sögn Þurýjar hafa yfirvöld verið ánægð með framkvæmdina og að stuðningsmannasveit Íslands hafi verið til fyrirmyndar.

„Það komu engin atvik upp eða neitt slíkt, þannig að það var mjög mikil ánægja hjá yfirvöldum hérna, sérstaklega þar sem það eru alls ekki allir sem eru að leggja jafnmikið í þetta og við Íslendingar,“ útskýrir Þurý. Skemmtileg fjölskyldustemning hafi myndast. „Enda nóg um að vera fyrir börnin og skemmtileg tónlist á staðnum. Mér fannst fólk mjög duglegt að blanda geði og skemmta sér saman,“ segir Þurý.

Banaslysið sem varð hjá stuðningsmannasvæðinu á sunnudagskvöld eftir fyrsta leik Íslands varpaði sorgarskugga á góðan dag að sögn Þurýjar.

„Ég fór á staðinn til að kanna aðstæður og ræða við sjónarvotta til að kanna hvort Íslendingur hefði lent í þessu hræðilega slysi. Borgaraþjónustan leikur afar mikilvægt hlutverk hjá okkur í utanríkisþjónustunni, sérstaklega þar sem margir landar okkar eru samankomnir,“ segir hún.

Íslenskir stuðningsmenn á góðri stund í Manchester
Mynd/Ernir

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Þurý er að skipuleggja slíka viðburði á stórmótum.

„Það er að mjög mörgu að huga en ofboðslega gaman og ótrúlega skemmtilegt . Ég fór sem stuðningur við sendiráðið í Moskvu á HM 2018 og fékk dýrmæta reynslu þar. Það er ótrúlegur heiður og forréttindi að taka þátt í svona verkefni.“

Þurý segir sendiráðið koma áleiðis skilaboðum um að fólk gæti sín í sólinni enda hitabylgja væntanleg til Englands og er von á því að hitametið í Bretlandi falli á sunnudag eða mánudag.

„Við höfum verið að koma skilaboðum áleiðis á Facebook. Það var gefin út viðvörun fyrir leikinn gegn Belgum. Veðurspáin segir að það verði 19 stiga hiti gegn Ítölum, sem er í lagi. Ég hef meiri áhyggjur af mánudeginum þegar við mætum Frökkum á sama degi og búist er við að hitametið falli í Bretlandi,“ segir Þurý.

„Það er gríðarlega mikilvægt að vera með sólarvörn, drekka mikið af vökva og undirbúa sig vel. Það voru margir rauðir í kinnum eftir síðasta leik.“