„Þetta er bara enn ein staðfestingin í rauninni á þeirri hættu sem þessi starfsemi hefur í för með sér fyrir villta náttúru. Og er í takt við reynslu erlendis; að þessi búnaður er bara einfaldlega ekki öruggur.“ Þetta segir Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga, í samtali við Fréttablaðið þegar hann er inntur eftir viðbrögðum við nýlegum fregnum af gati á nótarpoka sjókvíar í Tálknafirði.

Matvælastofnun sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem greint var frá því að Arnarlax hefði tilkynnt stofnuninni síðastliðinn föstudag um gat á nótarpoka einnar sjókvíar við Laugardal í Tálknafirði. Gatið uppgötvaðist við þrif en búið er að gera við það. Ljóst er að það var ekki til staðar á pokanum þann 6. ágúst en þá átti sér stað köfunareftirlit á svæðinu.

Það var þungt í Jóni hljóðið þegar Fréttablaðið heyrði í honum í dag. Hann hafði verið nýbúinn að reka augun í fréttir af gatinu sem hann segir að Landssamband veiðifélaga hafi eðlilega miklar áhyggjur af. Gatið var sjö sentimetrar að hæð og tólf að breidd en um 179 þúsund laxar voru í kvínni.

Jón segir að þrátt fyrir að allir vilji vel þá verði svona óhöpp. Búnaður sjókvíanna sé ekki nógu öruggur og starfsemin því virkilega hættuleg fyrir villta náttúru.

„Þetta bara sýnir þá hættu sem þessi starfsemi hefur í för með sér fyrir villta stofna. Og mér sýnist að þarna í þessari kví hafi verið 10 sinnum fleiri laxar en hafa veiðst í öllum laxveiðiám landsins yfir árið,“ segir hann. Það eru sláandi tölur en veiðiárið hefur verið afar slæmt í ár. Ótrúlegt þurrkasumar hefur lagst ofan á það að fiskifræðingar sáu fyrir rýrar laxagöngur í ár.

Arnarlax lagði út net þegar gatið uppgötvaðist í samráði við Fiskistofu til að kanna hvort slysaslepping hefði átt sér stað. Þeirra var svo vitjað á laugardag og sunnudag en enginn lax fannst í þeim og hefur veiðiaðgerðunum nú verið hætt. Jón segir þetta engan veginn nóg til að fullvissa sig um að engir laxar hafi sloppið úr kvínni.

Arnarlax lagði út net þegar gatið uppgötvaðist en enginn lax veiddist í þau.

„Reynslan er í rauninni sú að svona er bara tilgangslaust, að reyna einhverjar veiðar í kringum þetta,“ útskýrir hann. Það hafi fram að þessu aldrei skilað neinu. „Og almennt virðist nú skorta upplýsingar um það hvað sleppa raunverulega margir fiskar í svona slysum. Eins og til dæmis var á regnboganum hér fyrir nokkrum árum. Hvað sluppu margir þá? Veit það einhver?“ heldur hann áfram og á þá við slysasleppingar sem urðu í fiskeldi árið 2016. Þá fór regnbogi að veiðast í ám á Vestfjörðum.

Hann hefur þá einnig áhyggjur af því að laxinn sem var í kvínni hafi verið mjög ungur og lítill. „Þannig að hann kemur væntanlega ekki í ár fyrr en að ári og þegar hann sleppur svona snemma er mjög erfitt að meta það út frá útliti fisksins hvort hann sé úr eldi eða ekki,“ útskýrir Jón en eldiseinkenni fiskanna eru ekki það mikil þegar þeir eru ungir. „Að því leyti er mjög erfitt að finna þessa fiska ef þeir koma aftur í árnar.“