„Ég hef ekki efni á því að kaupa mat eða borga leigu,“ segir Marian Craciun. Hann flutti til Íslands vegna vinnu sem honum bauðst hér á landi og hefur búið á Íslandi í fjögur ár. Marian missti vinnuna þegar kórónaveirufaraldurinn skall á. Hann á ekki rétt á atvinnuleysisbótum en var tjáð að hann ætti rétt á fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

„Þegar ég svo sæki um það er mér sagt að ég eigi engan rétt, ég hef því verið nánast matarlaus svo vikum skiptir og get ekki borgað af íbúðinni. Ég kemst ekki einu sinni aftur til Rúmeníu,“ segir Marian. Hann segir sér hafa verið tjáð að ástæða þess að honum væri neitað um fjárhagsaðstoð væri að hann sé kvæntur í Rúmeníu. „Málið er bara það að ég er ekki kvæntur í Rúmeníu, ég er skilinn. En enginn virðist hafa tíma eða áhuga á því að kanna málið frekar,“ segir hann.

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, segist ekki þekkja mál Marian en segir gagnkvæma framfærsluskyldu vera hjá hjónum. „Ráðgjafar á þjónustumiðstöðvum leggja áherslu á að skoða hvert mál fyrir sig og meta hvaða leiðir eru færar í aðstoð. Þær ástæður sem geta legið að baki því að einstaklingi sé synjað um fjárhagsaðstoð eru ef viðkomandi uppfyllir ekki skilyrði, til dæmis vegna tekna, eigna og hjúskaparstöðu.“

Þá segir Hólmfríður umsóknum um fjárhagsaðstoð hafa fjölgað mikið á undanförnum mánuðum. Í nóvember á síðasta ári hlutu í heild 1.367 einstaklingar fjárhagsaðstoð frá borginni. 553 voru með erlent ríkisfang og 814 með íslenskt ríkisfang. Í sama mánuði árið 2019 hlutu 1.114 einstaklingar fjárhagsaðstoð.

Hlutfall einstaklinga sem hljóta fjárhagsaðstoð til framfærslu og eru með erlent ríkisfang hefur farið ört hækkandi og var í september, október og nóvember á síðasta ári 40 prósent, miðað við um 30 prósent í sömu mánuðum ári fyrr og 24 prósent í janúar 2019.