Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands (BÍ), segir að þótt fjölmiðlafrumvarp um styrki til einkarekinna fjölmiðla sé ekki á þingmálaskrá sé hún viss um að ríkisstjórnarflokkarnir haldi áfram öflugum stuðningi.

Hún segir að aðför Samherja að innlendri fjölmiðlun og fjölmiðlamönnum hafi leitt til þess að almenningi og stjórnvöldum sé ljósara en nokkru sinni hve mikilvægu aðhaldshlutverki fjölmiðlar gegni í samfélaginu. Hvað þetta varði hafi áhrifin sennilega orðið þveröfug miðað við það sem Samherji stefndi að.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

„Mér finnst ánægjulegt að skýrt ákvæði sé í stjórnarsáttmálanum um að nauðsynlegt sé að bregðast við rekstrarstöðu einkarekinna fjölmiðla, ég fagna því. Það sýnir vilja þessarar ríkisstjórnar til að halda áfram á þeirri braut sem Lilja Alfreðsdóttir ráðherra hefur markað,“ segir Sigríður Dögg.

Sá stuðningur sem þegar sé tryggður renni ekki út fyrr en eftir eitt ár. Hann hafi skipt miklu máli.