Hin slóvenska Meta Medved hefur tröllatrú á hampi, bæði hvað varðar umhverfisvernd og heilsuna. Hún framleiðir nú tölvumúsapúða og stressbolta úr hampi til að selja Íslendingum, en hefur áður búið til fjölmargar aðrar vörur í heimalandi sínu.

„Ég vildi búa til vörur sem sýna hvers megnug þessi planta er,“ segir Metta sem er 31 árs, alin upp í Dravadalnum í norðurhluta Slóveníu.

Í landbúnaðarfræði við Háskólann í Maribor rannsakaði hún kannabisplöntuna, hamp, og alla hennar eiginleika og hefur talað máli hennar síðan. Hún og maður hennar, Jurij Pahernik, flytja nú inn slóvensk matvæli til Íslands.

Meta segir að þegar kannabis var gert ólöglegt á sjöunda áratugnum hafi framleiðslan á allri plöntunni dottið niður víðast hvar um heiminn. Hún var öll sett undir sama hatt vegna vímuáhrifanna sem fást af marijúana og hassi.

Enn er frekar sjaldgæft að gera vörur úr hampi og víða þarf mun meira umstang og skriffinnsku til að fá samþykki. Meta segir að þess vegna leggi margir ekki í ræktunina. Þeim sem gera það sé þó að fjölga.

„Fólk áttar sig ekki á hversu nytsamleg planta þetta er,“ segir Meta. Auk þess að hægt sé að búa til alls kyns vörur þá hafi plantan einnig eiginleika til hreinsunar. Sem dæmi sé algengt í Slóveníu að sá plöntunni til þess að hreinsa þungmálma úr jarðveginum.

„Góðir bændur vita að það er skynsamlegt að sá hampi á fjögurra ára fresti,“ segir hún. Einnig sé hampur góður í dýrafóður.

Meta hefur framleitt alls kyns vörur úr hampi, svo sem jógapúða, bangsa og andlitsgrímur á meðan Covid-faraldurinn geisaði. Nú hefur hún búið til tölvumúsapúða og stressbolta undir vörumerkinu Jara sem seldir eru í Elko. Tauið er gert úr hamptrefjum en innihaldið úr hampfræjum.

Meta ákvað að einbeita sér að þessu vegna þess hversu margir eru farnir að vinna skrifstofustörf með tölvum og úlnliðsvandamál sífellt að verða meiri, því án púða er úlnliðurinn í ónáttúrulegri stöðu.

„Í Slóveníu hjálpaði ég eldri konum sem höfðu unnið lengi við skrifstofustörf hjá ríkinu. Sumar höfðu þurft að fara í aðgerðir,“ segir Meta. Auk þess að veita stuðning hafi hampurinn annan eiginleika í púðunum. Plantan inniheldur mikla olíu og fræin halda vel hita, til dæmis ef þau eru sett í örbylgjuofn.

Meta vildi hafa allt framleiðsluferlið eins og náttúrlegt og umhverfisvænt og hægt væri. Þess vegna eru vörurnar seldar í endurnýttum matarkrukkum úr matarinnflutningnum. En Meta og Jurij flytja meðal annars inn slóvenskar ólífur, súrar gúrkur, olíur og hunang. Aðferðina kalla þau uppvinnslu (upcycling).