Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu Félags fanga, segir í öllum tilvikum alvarlegt ef langan tíma tekur að rannsaka mál og koma þeim fyrir dómstóla. Í þessum tilvikum, skipti sjaldnast máli hvaða stöðu viðkomandi hefur í samfélaginu.

Farbann yfir Gylfa Þór Sigurðssyni, knattspyrnumanni var framlengt í morgun, í fjórða sinn, nú fram á páskadag.

Líkt og hefur vart farið framhjá neinum var Gylfi Þór handtekinn 16. júlí síðastliðinn vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögraða einstaklingi í Bretlandi þar sem hann er búsettur.

Síðan hefur Gylfi Þór verið í farbanni en laus gegn tryggingu og ákvörðun um framhald málsins hefur enn ekki verið tekin samkvæmt upplýsingum frá bresku lögreglunni.

Guðmundur Ingi segir biðina geta haft gríðarlega neikvæð andleg áhrif, bæði á þann sem sætir rannsókn en ekki síður fjölskyldu og aðra nákomna.

Sér ekki fyrir endann

„Skemmst er að líta til rannsókna mála í tengslum við bankahrunið sem drógust til margra ára á meðan sakborningar og fjölskyldur þeirra áttu í mörgum tilvikum erfitt með að halda áfram með líf sitt. Þannig að það skiptir ekki endilega alltaf máli hvar í þjóðfélagsstiganum fólk er þegar það er til rannsóknar,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við Fréttablaðið.

Guðmundur Ingi segir að Gylfi Þór þurfi kannski ekki að hafa áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni, „en það breytir því ekki að hann hefur þurft að þola álitshnekki og atvinnumissi auk þess sem málið hefur væntanlega haft neikvæð áhrif á fjölskyldulífið og enn sér náttúrlega ekki fyrir endann á rannsókninni.“

Misjöfn áhrif farbanns

Að sögn Guðmundar Inga er farbann eitt af þeim tækjum sem notuð eru til að tryggja framgang réttvísinnar. Það geti þó haft misjöfn áhrif á þann sem því sætir.

„Hér á landi er oftar en ekki um að ræða útlendinga sem hafa engin tengsl við landið, eru bláfátækir og illa staddir í lífinu. Það er fólk sem hefur engin réttindi hér á landi og horfir í einhverjum tilvikum fram á að þurfa dúsa í íslensku fangelsi til margra ára,“ segir Guðmundur Ingi.

Þá séu dæmi um að farbann í slíkum tilvikum jafnist nánast á við fangelsisrefsingu, sem dæmi ef rannsókn máls tefst í lengri tíma og yfirvöld geri lítið sem ekkert til að aðstoða fólk í þessari stöðu, annað en að vísa því á næsta strætóskýli.