Pakistanska hernum hefur tekist að rekja síðustu GPS stað­setningu fjall­göngu­mannanna Johns Snorra, Mu­hammad Ali Sadpara og JP Mohr, sem týndust fyrir viku síðan á K2. Pakistanski miðillinn ARY News greinir frá.

Líkt og Frétta­blaðið hefur greint frá nýtir leitar­liðið nú hina ýmsu tækni við leitina að þre­menningunum. Til þeirra hefur ekkert heyrst síðan fyrir viku síðan. Hita­mynda­vélar og herflugvélar eru meðal annars notaðar við leitina.

Í frétt pakistanska miðilsins kemur fram að gervi­hnatta­myndir frá Geim­vísinda-og tækni­skrif­stofu Ís­lands, auk gervi­hnatta­mynda frá Síle af K2 svæðinu séu meðal annars nýttar til að kort­leggja svæðið. Nú sé vitað ná­kvæm­lega hvar sam­bandið rofnaði við GPS tæki þre­menninganna.

Ætla að gefa sér sextíu daga í leitina

Í gær á­kváðu yfir­völd í Pakistan að leitin að John Snorra og sam­ferða­mönnum hans muni halda á­fram næstu 60 daga. Með hverjum deginum sem líður minnka líkurnar á því að þeir finnist á lífi.

Á Face­book-síðunni K2 fjallsins segir að pakistanski herinn leiti í 8.600 metra hæð í dag og taki upp frá öllum hliðum. Lína Móey, eigin­kona John Snorra, sagði á Face­book-síðu sinni fyrr í vikunni að hún biði enn eftir krafta­verki.

Að búðirnar hans Johns standi til morgundagsins, það er laugardag og að enn sé von.