Háhyrningurinn Tahlequah, eða J35, hefur synt með látinn kálf sinn í sextán daga í Salish sjónum daga nærri ströndum Seattle í Bandaríkjunum upp að Vancouver í Kanada. Umheimurinn hefur fylgst grannt með sögu hennar. 

Náttúruverndarsinnar hafa kallað eftir því að eitthvað sé gert til að bjarga stofninum sem þarna býr, sem hefur farið minnkandi undanfarin ár vegna fæðuóöryggis og telja nú aðeins 75. Nú hefur verið greint frá því að yfirvöld í bæði Bandaríkjunum og Kanada vinna nú að því að bjarga háhyrningastofninum á svæðinu.

„Ég er í algeru áfalli og með brostið hjarta. Ég græt. Ég trúi ekki að hún sé enn að synda um með kálfinn sinn. Ég hef miklar áhyggjur af heilsu hennar og andlegri líðan,“ segir rannsakandinn Deborah Giles sem starfar fyrir rannsóknarmiðstöð við háskólann í Washington og forstjóri góðgerðarsamtakanna Wild Orca í samtali við The Seattle Times.

„Jafnvel þótt fjölskylda hennar sé í matarleit og sé að deila fiski með henni getur hún ekki verið að fá nægilega næringu til að viðhalda og ná aftur líkamsþyngdinni sem hún gæti hafa misst á meðgöngunni og á meðan hún syrgir,“ segir Giles.

Tahlequah sást fyrst synda með látinn kálf sinn í lok júlí og hafði þá synt með kálf sinn í sem lést mínútum eftir að hann fæddist í um fjóra daga. Rannsakendur og umheimurinn fylgdust grannt með. Síðan hvarf hún í um viku en sást síðan aftur í gær ásamt fjölskyldu sinni, enn með kálfinn.

Enn fremur er talið að hinn þriggja og hálfs árs ára gamli kálfur sem kallaður er J50 sé í lífshættu vegna sýkinga og hafa því yfirvöld í Kanada fengið leyfi til inngrips með því að bæði gefa kálfinum sýklalyf og færa honum fisk til matar.

Segir í frétt Seattle Times um málið að þeir hafi verið of langt frá ströndum á miðvikudag fyrir slíkt inngrip en þess sé beðið að háhyrningarnir komi nær landi.

Aðeins 75 háhyrningar eftir

Háhyrningunum sem eru búsettir í Salish sjónum hefur farið minnkandi með hverju árinu sem líður, en hafa aldrei verið færri og sýndi síðasta talning aðeins um 75 þeirra. Þannig hefur sorgarsaga Tahlequah verið möguleg björgun stofnsins með því að snerta hjartastrengi fólks víða um heiminn.

Fækkun háhyrninganna undanfarin ár má helst rekja til minnkunar í Chinook laxastofni á svæðinu sem er þeirra helsta fæða. Stofn Chinook laxins hefur minnkað á svæðinu vegna ofveiði, mengunar og stíflna sem hindra för þeirra að sjónum. Yfirvöld í Bandaríkjunum og Kanada vinna nú að því að komast að samkomulagi um hvernig sé hægt að komast hjá útrýmingu háhyrninganna í Salish sjónum. Greint er frá á Guardian.

Algerlega fordæmalaus hegðun

„Þetta er næstum eins og dæmisaga og það skrítnasta sem ég hef séð,“ sagði sagnfræðingurinn Jason Colby í viðtali við  Seattle Times en hann er höfundur bókar um háhyrninga og föngunartímabil þeirra, en margir þeirra sem fangaðir voru komu einmitt úr stofninum sem þarna býr.

Þótt mörg dýr eins og háhyrningar, górillur og höfrungar séu áður þekkt fyrir að bera lík afkvæma sinna með þessum hætti telur Colby þetta algerlega fordæmalaust.

„Sem faðir get ég aðeins ímyndað mér sorg hennar og hvað hún hefur gengið í gegnum. Hún virðist vera í hættulegri endurtekningu sem hún getur ekki komið sér sjálf út úr og hver veit hversu lengi hún fór án fæðu áður en að þetta gerðist,“ segir Colby