„Það er allt í lagi að vera á Íslandi í smá stund, en bara taka pásu, ekki stoppa,“ segir Katrín Sif Einarsdóttir sem líklega má titla sem víðförlasta Íslendinginn. Katrín, sem er 33 ára, hefur ferðast til 222 landa á ævi sinni. Hún setti sér það markmið að ferðast til 200 landa áður en hún yrði þrítug og því náði hún nokkrum dögum fyrir stórafmælisdaginn sem hún fagnaði á Máritíus.

„Það er orðið lítið eftir um lönd sem eru ný fyrir mér. Ég er samt búin að ferðast mikið upp á síðkastið og var mjög dugleg að heimsækja lönd sem ég hafði farið til áður þangað til COVID skall á,“ segir Katrín. Hún er vön því að ferðast marga mánuði á ári og fjármagna það með því að stoppa við á Íslandi í nokkra mánuði þar sem hún vinnur sem fararstjóri. Áður en faraldurinn skall á hafði hún til að mynda nýlega ferðast til Bandaríkjanna, Ítalíu, Frakklands og Argentínu, sem er einn af hennar uppáhalds stöðum.

Faraldurinn hefur sett strik í reikninginn hvað ferðalög varðar og segir Katrín að mars og apríl hafi verið henni erfiðastir. „Ég átti erfitt með þetta í vor því að það var svo mikil óvissa, það var mjög erfitt fyrir mig að geta ekki einu sinni pælt í því hvert ég ætlaði að fara næst,“ segir Katrín en bætir við að hún hafi þó notið sumarsins á Íslandi.

„Ég elska sumarið á Íslandi en núna var enga vinnu að fá fyrir mig í ferðaþjónustunni svo ég gat ferðast hér sjálf og skoðað alla þá staði sem mig langaði að sjá,“ útskýrir hún en Katrín á lítinn húsbíl sem hún ferðaðist á um landið í sumar.

Á ferðum sínum um heiminn hefur Katrín tekið ógrynni af ljósmyndum og stefndi hún að því að setja upp sýningu með myndum sínum og sögu ferðalaganna í Flæði á Vesturgötu um næstu helgi. Sýningunni hefur þó verið frestað þar til í nóvember vegna faraldursins.

„Ég er búin að velja um 200 myndir sem ég ætlaði að sýna ásamt kortum og peningum frá þeim stöðum sem ég hef heimsótt,“ segir hún en Katrín hefur í fórum sínum gjaldeyri frá öllum þeim 222 löndum sem hún hefur heimsótt.

Spurð að því hvert hún hyggist fara næst segist hún ánægð með að staldra við um tíma heima á Íslandi en hún er þó farin að skipuleggja næstu ferð. „Ég er ekkert að fara að hætta að ferðast og eignast barn á morgun en ég er alveg til í að vera hér aðeins á meðan þetta gengur yfir,“ segir hún. „Síðan er ég búin að skipuleggja ferð til Sao Tome og Principe við Vestur-Afríku sem ég ætlaði að fara í apríl en ég fer þangað um leið og ég get.“