Í harðorðu bréfi sem ábúendur á bænum Ögri sendu meðal annars á sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum, formenn umhverfisnefnda, Umhverfisstofnun og Samkeppniseftirlitið er Þorbjörn Steingrímsson, eigandi Garðsstaða við Ísafjarðardjúp sakaður um að hafa staðið að ólögmætri starfsemi á bænum. Meðal þess sem er gagnrýnt er þrettánda-brenna sem haldin hefur verið að Garðsstöðum undanfarin ár. „Þær hafa brunnið í upp undir átta daga,“ segir Hafliði Halldórsson, sem kemur fram fyrir hönd eigenda Ögurs, í samtali við Fréttablaðið.

Þá segir í bréfinu að heilbrigðisnefnd Vestfjarða hafi frekar stutt við starfsemina en að beita sér gegn henni. Á starfsemin meðal annars að hafa snúið að söfnun og niðurrifi á bílhræjum. Sama nefnd hafi hins vegar tekið hart á samskonar brotum annars staðar.

Hefur ekki hugmynd um hvað það logar lengi

Hafliði segir að eigendur Ögurs hafi rökstuddan grun um að verið sé að brenna úrgang á bænum. Hann segir að á Garðsstöðum hafi verið haldnar þrettánda-brennur sem hann telji vera með þeim stærstu á landinu. Hlaða megi slíkar brennur í nokkra daga samkvæmt lögum, „en brennan þarna er hlaðin allt árið og hún hefur logað allt að átta daga. Þá er ekki timbur eða pappi sem er verið að brenna. Þá er gúmmí og alls konar spilliefni sem maður veit ekki hvað er.“

Á myndum af því þegar verið er að hlaða brennuna má sjá gamlan plastbrunn, frauðplastkassa og annað rusl en Þorbjörn segir að allt slíkt sé fjarlægt. „Þetta fer aldrei í brennuna, ef það kemur eitthvað þá tek ég það,“ segir Þorbjörn. Brennan sé eingöngu hlaðin úr vörubrettum og timbri. Að sögn Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, hefur það ekki orðið vart við að á brennunni séu óleyfilegir hlutir.

Garðstaðir_áramótabrenna_240719.jpg

„Liturinn á reyknum segir ákveðið til um hvað er að brenna og af þessum brennum hefur oft bara verið svartur reykur á fimmta, sjötta degi og það segir manni að það eru einhver mjög mengandi efni að brenna,“ segir Hafliði hins vegar.

Þorbjörn segist ekkert hugsa um hversu lengi það logi í brennuni, stundum logi fram á næsta dag en aldrei átta daga. Hann hefur þó ekki hugmynd um hversu lengi logi í brennunni. „Kannski nokkra daga,“ segir hann, en sé farinn daginn eftir og fylgist ekkert meira með henni. „Hún er bara langt úr alfaraleið og engin eldhætta af henni.“

Staðfastur ásetningur að hundsa kvartanir

Í bréfinu stendur að „eigendur Ögurs telja ástæðu til að efast um heilindi heilbrigðisnefndar Vestfjarða hvað varðar afgreiðslu umrædds máls og telja það ásetning að hundsa kvartanir varðandi Garðsstaði, en mengun sé í miklum vexti. Hafliði segir að reynt hafi verið að ná athygli yfirvalda undanfarin 22 ár, án árangurs.

Hjá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða fengust þær upplýsingar að fylgst hafi verið með söfnun bílanna og þeir taldir. Ekki hafi verið tekin eiginleg mengunarsýni en farið hafi verið með svokallaðan olíuborða í læk sem liggur á milli Ögurs og Garðsstaða. Slíkur borði er notaður til að greina olíumengun og ekkert hafi greinst í læknum. Ekki hafi verið tekin jarðvegssýni eða farið í nánari mælingar.

Garðstaðir_áramótabrenna_240719.jpg

Hafliði telur að fólk notfæri sér bæinn til þess að losa sig við rusl. „Það er rökstuddur grunur um að það séu allmargir að hagnýta sér ástandið til að losna við rusl, á mjög ódýran og hagkvæman hátt,“ segir hann og bætir við að ef Þorbjörn sjái bílhræ einhvers staðar þá þrái „hann mjög gjarnan að komast yfir það, og ýmislegt annað.“ Á myndum af jörð Þorbjörns má sjá að þar hefur safnast saman veiðarfæraúrgangur og ýmislegt annað rusl.

Bílana rífur Þorbjörn niður í varahluti og selur, auk þess að selja bílhræin í brotajárn. Fyrir vikið segir Hafliði að mörgum líki vel við hann og að hann hafi selt ódýra varahluti. Hann skilji slíka starfsemi, en hún verði að standast allar kröfur sem gerðar eru um starfsleyfi og mengunarvarnir. Þorbjörn sé sömuleiðis að safna að sér rusli á jörðina, auk þess sem þau hafi rökstuddan grun um að verið sé að farga úrgangi.

„Hætti ekki fyrr en ég fæ starfsleyfi“

Hafliði áætlar að á jörð Garðsstaða séu nú á bilinu 650-700 bílhræ auk annars rusls, sem þeki nokkra hektara. Fyrir nokkrum árum hafi fengist fjármagn til að hreinsa jörðina en þá hafi bara safnast meira af rusli. Undir þetta tekur Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða í samtali við Fréttablaðið. Þegar farið hafi verið í að fjarlægja rusl af svæðinu hafi komið jafn mikið til baka. Þorbjörn segir það hafa gerst vegna þess að komið hafi tími þar sem lítið var að gera. Að sögn Heilbrigðiseftirlitsin hafi ekki hafi verið farið í þvingunaraðgerðir gegn honum þar sem Súðavíkurhreppur sé mjög lítið sveitarfélag sem hafi ekki það fjármagn sem þarf.

Garðstaðir og Ögur nóv19.jpg

„Bara svo að fólk viti það þá fara á bilinu 300-500 tonn á ári af brotajárni út af svæðinu,“ segir Þorbjörn og áætlar að hann hafi losað sveitina við sex til sjö þúsund tonn síðan árið 2006. Þorbjörn segist ekki vera með starfsleyfi en fimmtán er séu síðan hann sótti fyrst um starfsleyfi. „Ég er búinn að reyna að sækja um starfsleyfi í mörg ár en það er sama liðið sem hefur alltaf komið í veg fyrir það.“

Nú stendur til að breyta aðalskipulagi Súðavíkurhrepps á þann veg að Garðsstaðir verði ekki lengur skilgreind sem landbúnaðarjörð heldur iðnaðarsvæði. Hann vonast til þess að þegar það verði komið í gegn muni hann fá starfsleyfið. „Ég er bara í þessu og ætla mér að vera í þessu og hætti ekki fyrr en ég fæ starfsleyfi.“