Í dag er ár liðið frá því að gos hófst í Geldinga­dölum við Fagra­dals­fjall, en margir gera sér ferð upp að gossvæðinu til að fagna af­mælis­deginum.

„Ég er nú bara að labba hérna í snjó upp á Fagra­dals­fjall“, segir Magnús Tumi Guð­munds­son, prófessor í jarð­eðlis­fræði í samtali við Fréttablaðið, en í dag er liðið ár frá að gos hófst í Geldinga­dölum við Fagra­dals­fjall.

„Það eru um 112-113 manns hérna á vegum Ferða­fé­lags Ís­lands“, og segir hann að um af­mælis­göngu sé að ræða.

Ásta Rut Hjartar­dóttir, jarð­eðlis­fræðingur var um daginn að mæla sprungur á Gón­hóli þegar hún fann þrjá dróna á svæðinu.

„Ég fór í ferð þarna með land­helgis­gæslunni upp að Gón­hóli, þá held ég að ég hafi alla­vegana týnt upp þrjá dróna“, segir hún í sam­tali við Frétta­blaðið.

Þegar hún fann drónana var hún á svæði ná­lægt gígnum sem hefur verið lokað af og því hafa drónarnir legið þar ó­á­reittir.

Að­spurð hvort hún ætli að gera sér ferð upp að gos­stöðum í dag „Heyrðu, ég er með Co­vid, ég er í ein­angrun og fæ því ekki gera neitt“, segir hún létt í lund.