Frönsk kona hefur staðið í stappi við yfirvöld í Frakklandi sem vilja meina að hún hafi látist árið 2017. Konan er hins vegar sprelllifandi og segir farir sínar ekki sléttar af samskiptum við ríkið sem þráast við að viðurkenna tilvist hennar. Hún segist hafa liðið miklar þjáningar vegna málsins.

Í vikunni hófust lögfræðingar hennar handa við að reyna að sannfæra franska ríkið um að hin 58 ára gamla Jeanne Pouchain væri sannarlega lifandi. Eftir áralangar deilur við starfsmanninn var Pouchain úrskurðuð látin af áfrýjunardómstóli í Lyon. Amma eiginmanns hennar, sem er 102 ára gömul, hafi lifað tímana tvenna, þar með talið á tímum síðari heimsstyrjaldar og aldrei þjást með þeim hætti sem hún hafi gert.

„Ég hafði farið til læknisins míns og fengið sönnun þess að ég væri enn sannarlega lifandi.“

„Ég fór á fund lögmanns sem sagði mér að málið yrði fljótleyst þar sem ég hafði farið til læknisins míns og fengið sönnun þess að ég væri enn sannarlega lifandi. Þar sem dómstóll hafði úrskurðað í málinu var það ekki nóg,“ sagði Pouchain í samtali við AFP.

Árið 2004 dæmdi vinnuréttardómstóll Pouchain til að greiða starfsmanni sem hún rak 14 þúsund evra bætur fyrir uppsögnina er fyrirtækið missti stóran samning. Þar sem fyrirtækið var dæmt til að greiða bæturnar, ekki Pouchain, var dómnum aldrei framfylgt. Starfsmaðurinn fyrrverandi kærði aftur árið 2009 en málinu var vísað frá dómi.

Úrskurðuð látin 2016

Árið 2016 komst áfrýjunardómstóllinn að þeirri niðurstöðu að Pouchain væri látin og dæmdi eiginmann hennar og son til að greiða bæturnar. Ári seinna greindi starfsmaðurinn vinnuréttardómstólnum frá því að Pouchain hefði ekki svarað ítrekuðum póstum og hún væri fallin frá. Þá hófst franska ríkið handa við að þurrka hana út úr opinberum skrám, ógilti nafnskírteini hennar, ökuskírteini, bankareikning, tryggingar og önnur opinber gögn sem sanna að hún sé lifandi.

Pouchain er með böggum hildar vegna meints andláts síns.
Fréttablaðið/AFP

Lögmaður hennar segir þann úrskurð furðulegan, engar sannanir hafi legið fyrir andláti Pouchain. Dómstóllinn hafi fallist á röksemdir starfsmannsins fyrrverandi sem sagði hana látna og gat þá sótt bætur frá eiginmanni Pouchain og syni. Engar sannanir hafi hins vegar legið fyrir af hálfu starfsmannsins um meint andlát Pouchain.

Lögmaður hennar hófst því handa í vikunni að reyna að sannfæra ríkið um að skjólstæðingur sinn væri enn á lífi en lögmaður starfsmannsins segir sökina liggja hjá Pouchain sjálfri. Hún hafi þóst vera látin til að þurfa ekki að borga bæturnar. Þessu hafnar Pouchain. „Ég er ekki með nein skilríki, enga tryggingu, ég get ekki sannað fyrir bönkum að ég sé lifandi…Ég er ekkert.“