Hörður Orri Grettis­son, for­maður Þjóð­há­tíðar­nefndar, hefur ekki miklar á­hyggjur af því ef smit kæmi upp á Þjóð­há­tíð í ár.

„Nei. Það eru engar á­hyggjur,“ segir Hörður í sam­tali við Frétta­blaðið en innan­lands­smit hafa verið að færast í aukanna á síðustu dögum.

„Við vorum að funda síðast í dag með þar til bærum yfir­völdum ef eitt­hvað slíkt myndi koma upp. Við verðum til­búin undir slíkt ef það gerist,“ segir Hörður.

Alls greindust 11 manns með Co­vid-19 innan­lands í gær. Þar af voru fimm í sótt­kví. Ekki er vitað um hlut­fall bólu­settra en hingað til hafa flestir þeirra sem greinst hafa með smit verið full­bólu­settir. Þá eru um 168 manns í sóttkví og 60 í einangrun.

Hörður segir að þrátt fyrir að þess fjölgun muni Þjóðhátíð fara fram með eðlilegum hætti.

Unnið að lausn á smitrakningu

Spurður um hvernig smitrakning færi fram ef smit kæmi upp segir Hörður að unnið sé að því að finna lausn á því. „Við erum bara að vinna það með þar til gerðum yfir­völdum um hvernig er best að gera það,“ segir Hörður.

Að öðru leyti gengur undir­búningur fyrir Þjóð­há­tíð mjög vel að sögn Harðar sem hefur í nógu að snúast um þessar mundir. „Þetta stefnir allt í rétta átt,“ segir Hörður.