„Dagurinn var al­gjör­lega frá­bær. Við vorum búin að búa okkur undir rigningu og að það yrði kalt, en svo skein sólin og fjöldi fólks mætti. Þannig allt gekk gríðar­lega vel,“ segir Gunn­laugur Bragi Björns­son, for­maður Hin­segin daga um Gleði­gönguna sem fór fram í dag.

Hann veit ekki hversu margir mættu á Gleðigönguna, en hefur á til­finningunni að það hafi aldrei fleiri mætt. „Mér finnst ég ekki hafa séð svona mann­fjölda áður, ef ég á að dæma út frá því. Við getum í öllu falli sagt að þetta var um­tals­vert meiri fjöldi en síðustu ár,“ segir hann og hlær.

Svakalegur fjöldi fólks mætti til að fagna ástinni.
Fréttablaðið/Eythor Arnarsson

Dag­skráin er alls ekki búinn, en það er gleði og gaman víðs vegar um borgina í kvöld.

„Í kvöld er svo loka­ball á Bryggjunni þar sem Stjórnin heldur uppi stuðinu. Svo er náttúru­lega Páll Óskar með ball í Iðnó og alls­konar fleiri við­burðir sem eru haldnir í kvöld í til­efni há­tíðarinnar. Þannig það verður líf og fjör á mörgum stöðum í kvöld,“ segir Gunn­laugur.

Ekki voru allir sáttir við að lögreglan væri á svæðinu.
Mynd/skjáskot

„Gleðigangan í grunninn mótmæli og kröfuganga“

Það vakti mikla at­hygli að ein­hverjir mót­mæltu við­veru lög­reglunnar á Gleði­göngunni. Q-fé­lag, fé­lag hin­segin stúdenta, tók til að mynda ekki þátt í Hin­segin dögum á þessu ári, og þar á meðal Gleði­göngunni, vegna hand­töku á hin­segin ein­stak­lingi árið 2019.

„Stóra myndin er sú að staða hin­segin sam­fé­lagsins víða um heim og lög­reglu er oft erfið. Það hefur alla tíð verið um­deilt að lög­reglan komi með ein­hverjum leiti að há­tíðar­höldum Hin­segin daga. En staðan er sú að við getum ekki haldið gleði­gönguna, frekar en aðra stór­við­burði án öryggis­gæslu. Lög­reglan er ekki þátt­takandi í göngunni en hún tryggir göngu­leiðir og fleira,“ segir Gunn­laugur.

Hann segist harma hand­tökuna árið 2019. „Vissu­lega var þessi hand­taka árið 2019 sem að Hin­segin dagar harma að hafi átt sér stað. Það er sam­tal og úr­vinnsla sem sam­fé­lagið okkar þarf að eiga. En hins vegar er gleði­gangan í grunninn mót­mæli og kröfu­ganga. Við fögnum því að fólk komi öllu sem það þarf að koma frá til skila,“ segir Gunn­laugur.