Daníel sagði sig úr hreyfingunni eftir 17 ára starf. Hann var fyrst kjörinn á þing árið 2017 og segist hafa haft brennandi áhuga á stjórnmálum og starfi VG, allt frá barnsaldri.

„Ég hef alltaf notað gagnrýni sem kærleika. Ég nenni ekki að gagnrýna einhvern sem mér þykir eiginlega ekkert vænt um. En ég gagnrýni að sjálfsögðu þegar mér finnst að eitthvað betur megi fara,“ segir hann. „Ég er að sýna ást með því þegar ég gagnrýni fólk af því að ég reyni að gera það á uppbyggjandi hátt.“

Það er bersýnilega ekki eining um frumvarpið í hreyfingunni. Hefurðu tilfinningu fyrir hlutfallinu?

„Erfitt að segja, en við vorum þarna hópur sem kröfðumst þess að fá fund og við fengum fund og þau hafa brugðist í rauninni mjög vel við okkar kröfum um að fá fundi með þeim og annað. En í rauninni var okkar spurningum ekki svarað,“ segir hann.

„Okkar spurningar voru þær: Hvað er betra í þessu útlendingafrumvarpi, heldur en í því síðasta sem var samþykkt 2016. Við fengum í rauninni ekki svör við því heldur fengum við mjög mikið tal um það að við þyrftum að horfa á heildarstefnumótun í málaflokknum og annað. En það er ekki það sem við vorum að biðja um.“

Hann segir frumvarpið hafa verið í svolítinn tíma á þingi og nú sé verið að leggja það fram í fimmta sinn. „Ég veit ekki ennþá af hverju var svona mikilvægt að leggja þetta fram. Nú bera þau fyrir sig fjölda flóttamanna frá Úkraínu og Venesúela og annað, sem eru tilfallandi hlutir. En ef við ætlum að ræða málaflokkinn verðum við að ræða hann frá öðrum sjónarhóli að mínu mati.“

Daníel segir stöðugt verið að reyna að útfæra nýjar leiðir til að loka landinu og auka hömlur. „En við erum komin í þá stöðu í dag að við þurfum fólk inn í landið til að sinna ákveðnum störfum,“ segir hann.

Hvernig hafa viðbrögðin verið meðal þinna fyrrum flokksystkina?

„Ég hef ekkert heyrt í þeim. Það segir allt sem segja þarf. Ég sá í fjölmiðlum í dag að það er missir að okkur. Auðvitað er alltaf missir að fólki í flokkum,“ segir Daníel.

„En svo verðum við líka að hugsa það þannig að flokkar eru bara tæki. Það er fólkið í flokknum sem er flokkurinn, eða hreyfingin í mínu tilfelli. Ég fylgist áfram með þeim auðvitað, og styð þau áfram í góðum málum sem þau koma með. En það er pínu frelsandi að vera ekki í hreyfingu í fyrsta skipti í sautján ár.“

Viðtalið við Daníel E. Arnarson úr Fréttavaktinni föstudaginn 17. mars 2023 má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan.