Sjúklingur dvaldi í 572 daga á öryggisgangi réttargeðdeildar á Kleppi. Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir ítarlegri skýringum frá Landspítalanum vegna málsins.
Þetta kemur fram á vef Umboðsmanns Alþingis.
Umboðsmaður óskar eftir upplýsingum um aðdraganda vistunarinnar, ákvarðanir í tengslum við hana, hvernig upplýsingagjöf var háttað, aðbúnað sjúklingsins á öryggisganginum og hvaða takmörkunum hann þurfti að sæta á hverjum tíma fyrir sig.
RÚV fjallaði um málið í sumar og þar kemur fram að sjúklingurinn sem um ræðir sé maður sem sýknaður var af alvarlegri líkamsárás. Maðurinn sé metinn verulega vanþroskaður andlega en hann hafði þá dvalið á öryggisgangi í næstum fjögur ár. Ljóst er að maðurinn hefur því dvalið á öryggisgangi réttargeðdeildar mun lengur en skoðun umboðsmanns nær yfir.
Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, hefur óskað eftir svörum frá spítalanum eigi síðar en 21. október næstkomandi. Hann ásamt starfsfólki sínu heimsótti réttargeðdeild og öryggisgeðdeild á Kleppi í júní síðastliðinn. Í kjölfarið var óskað eftir upplýsingum og gögnum um vistun sjúklinga á öryggisgangi réttargeðdeildar á tilteknu tímabili.
Í svörum spítalans kom meðal annars fram að sjúklingur hefði dvalið í 572 daga á öryggisganginum. Vegna þessa óskaði umboðsmaður eftir frekari upplýsingum.
Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá júní í fyrra er vitnað í yfirlækni rettargeðdeildar. Hann sagði vistun mannsins mannréttindabrot, lítils bata sé að vænta hjá manninum vegna heilaskaða sem hann hafi orðið fyrir 18 ára gamall. Læknirinn mælti með úrræðum á vegum Reykjavíkurborgar með sólarhringsvöktun og gæslu.