Sjúk­lingur dvaldi í 572 daga á öryggis­gangi réttar­geð­deildar á Kleppi. Um­boðs­maður Al­þingis hefur óskað eftir ítar­legri skýringum frá Land­spítalanum vegna málsins.

Þetta kemur fram á vef Um­boðs­manns Al­þingis.

Um­boðs­maður óskar eftir upp­lýsingum um að­draganda vistunarinnar, á­kvarðanir í tengslum við hana, hvernig upp­lýsinga­gjöf var háttað, að­búnað sjúk­lingsins á öryggis­ganginum og hvaða tak­mörkunum hann þurfti að sæta á hverjum tíma fyrir sig.

RÚV fjallaði um málið í sumar og þar kemur fram að sjúk­lingurinn sem um ræðir sé maður sem sýknaður var af al­var­legri líkams­á­rás. Maðurinn sé metinn veru­lega van­þroskaður and­lega en hann hafði þá dvalið á öryggis­gangi í næstum fjögur ár. Ljóst er að maðurinn hefur því dvalið á öryggis­gangi réttar­geð­deildar mun lengur en skoðun um­boðs­manns nær yfir.

Skúli Magnús­son, um­boðs­maður Al­þingis, hefur óskað eftir svörum frá spítalanum eigi síðar en 21. októ­ber næst­komandi. Hann á­samt starfs­fólki sínu heim­sótti réttar­geð­deild og öryggis­geð­deild á Kleppi í júní síðast­liðinn. Í kjöl­farið var óskað eftir upp­lýsingum og gögnum um vistun sjúk­linga á öryggis­gangi réttar­geð­deildar á til­teknu tíma­bili.

Í svörum spítalans kom meðal annars fram að sjúk­lingur hefði dvalið í 572 daga á öryggis­ganginum. Vegna þessa óskaði um­boðs­maður eftir frekari upp­lýsingum.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá júní í fyrra er vitnað í yfirlækni rettargeðdeildar. Hann sagði vistun mannsins mannréttindabrot, lítils bata sé að vænta hjá manninum vegna heilaskaða sem hann hafi orðið fyrir 18 ára gamall. Læknirinn mælti með úrræðum á vegum Reykjavíkurborgar með sólarhringsvöktun og gæslu.