Árni Arnþórsson hefur unnið hart að því að koma nemendum Alþjóðlega háskólans í Kabúl, þar sem hann er aðstoðarrektor, frá Afganistan vegna hættunnar sem þeim stafar af talibönum.

„Það má segja að þetta hafi gengið betur heldur en ég þorði að vona. Það hefur gengið mjög vel með nemendurna, önnur lönd eru tilbúin að taka á móti nemendum, yfirleitt er það svona skammtíma landvistarleyfi sem tengist til dæmis nemendum í skiptinámi og þess háttar,“ segir Árni.

Farið hefur verið með flesta nemendurna landleiðina til ýmissa nágrannaríkja Afganistan á borð við Katar, Kirgistan, Pakistan og Írak. Leita hefur þurft aðstoðar málaliða og var ferðalagið iðulega mikið hættuspil því fara þurfti í gegnum landamæra- og eftir­lits­stöðvar talibana.

Frá ferðalagi Árna til Íslamabad.
Mynd/Árni Arnþórsson

Starfsfólk í meiri hættu

Að sögn Árna hafa björgunaraðgerðir fyrir einstæða nemendur gengið vel en erfiðara hefur reynst að koma nemendum með fjölskyldur og starfsfólki háskólans úr landi þar sem ríkisstjórnir eru tregari til að veita fólki í þeim aðstæðum landvistarleyfi.

„Þetta hefur verið dálítið erfitt því starfsfólkið er oft í meiri hættu heldur en nemendurnir, sérstaklega þeir sem hafa verið tengdir okkur í mörg ár. Prófessorarnir sem hafa farið í viðtöl bæði í sjónvarpi og í öðrum miðlum þar sem þeir kannski tala um sína vinnu og tala gegn talibönum.“

Árna og kollegum hans tókst að ná tveimur stórum hópum frá Afganistan í október. Þeirra á meðal eru um 60 nemendur sem dvelja tímabundið í borginni Bishkek í Kirgistan og 85 nemendur sem komust til Kúrdistan í Írak, gegnum Katar. Þar að auki eru um 50 nemendur staddir í Íslamabad í Pakistan sem komust þangað sjálfir. Árni fór til Íslamabad í byrjun mánaðar til að hitta nemendurna og aðstoða þá með ýmis vandamál sem komið hafa upp.

Stoppaður í Pakistan

Árni segir ferðina til Pakistan hafa verið nokkuð athyglisverða en hann hafði aldrei áður komið til landsins og litlu munaði að honum yrði ekki hleypt inn.

„Ég var stopp á flugvellinum í tvo tíma og þeir vildu ekki hleypa mér inn. Þeir sögðu að það væri eitthvert vesen á tölvunni og sögðu að ég væri ekki með landvistarleyfi þó ég væri með það á pappír. Svo sagði ég við þá: „Strákar mínir, ég er frá Íslandi, hvað haldið þið að ég geri ykkur?“ Maður þarf aðeins að mýkja þessa gæja upp, ekki endilega með mútum heldur bara tala við þá.“

Nokkrir af nemendum Árna í Íslamabad.
Mynd/Árni Arnþórsson

Allt fór þó vel og á endanum veifaði yfirmaðurinn Árna yfir til sín og stimplaði vegabréfið hans. Fagnaðarfundir urðu með Árna og nemendunum sem höfðu ekki hist í marga mánuði. Hann segir nemendurna oft þarfnast ákveðinnar sáluhjálpar enda hefur líf þeirra allra umturnast og margir þurft að yfirgefa fjölskyldur sínar, hugsanlega fyrir fullt og allt. Árni segir verkefni undanfarinna mánaða eðlilega hafa verið nokkuð krefjandi á líkama og sál.

„Það er ekkert sem býr mann undir þetta í raun og veru. Það er kannski gamla íslenska þrjóskan sem fylgir því að hafa þurft að gera hluti til að bjarga sér í gegnum árin sem hjálpar manni að gera sér grein fyrir því að stundum er ekki hægt að hjálpa, en stundum er hægt að gera eitthvað fyrir fólk.“

Hefði viljað meiri hjálp

Ríkisstjórnin til­kynnti í lok ágúst að Ísland myndi taka á móti allt að 120 flótta­mönnum frá Afgan­istan. Illa hefur gengið að koma fólkinu til landsins en greint var frá því í gær að von er á 60 Afgönum hingað á næstunni.

Spurður hvort hann hafi sóst eftir aðstoð íslenskra stjórnvalda fyrir nemendur sína segir Árni að sú hugmynd hafi komið upp í ágúst að háskólar hérlendis tækju á móti nemendum og starfsfólki en það gekk þó ekki upp.

„Við erum að reyna að hjálpa krökkunum eins og við getum en það er náttúrlega erfitt þegar ríkisstjórnir eru með ákveðnar hugmyndir og íslenska ríkisstjórnin hefur verið þannig til þessa að hún fer rosalega mikið eftir því sem Evrópuráðið og Schengen segja, sem er kannski að vissu leyti skiljanlegt.

En þegar upp er staðið þá lifum við í velmegunarlandi. Jú, við eigum okkar erfiðleika og þess háttar en ég hefði nú viljað fá meiri hjálp fyrir þetta fólk, verð ég að segja eins og er. Þeir Afganar sem hafa komið hingað hafa komið sér vel fyrir, hafa verið góðir þegnar, gert vel og menntað sig, þetta er rosalega duglegt og þakklátt fólk,“ segir Árni.