Haraldur V. Sveinbjörnsson, tónlistarmaður og hljóðfæraleikari hefur nú beðið í ellefu daga eftir að komast í aðgerð eftir að hafa olnbogabrotnað nálægt heimili sínu. Hann telur það undarlegt að fólk verði að bíða svo lengi eftir aðgerðum svo hefja megi bataferli en hann getur ekki stundað atvinnu sína á meðan þessu stendur.

„Ég er að missa af ansi mörgum verkefnum næstu misseri,“ segir Haraldur en hann átti meðal annars að spila í hljómsveit sýningarinnar „Sem á himni“ sem frumsýna á í Þjóðleikhúsinu 16. September. Honum tókst þó að fá staðgengil fyrir sig í því tilfelli en hann hefur þurft að aflýsa tónleikum og öðrum verkefnum vegna brotsins.

Bataferlið hefst ekki fyrr en að aðgerð lokinni

Haraldur segir erfitt að bíða eftir aðgerð þar sem hann horfi fram á fjögurra vikna bataferli sem ekki hefjist fyrr en að aðgerð lokinni.

„Ég byrja ekkert að jafna mig fyrr en það er búið að festa beinið og skorða það af í þessari aðgerð. Með því hefst hið raunverulega bataferli,“ segir Haraldur en hann brotnaði er hann féll af rafskútu nálægt heimili sínu. „Ég keyri ofan í holu á plani rétt hjá plani þar sem ég bý. Hún er dýpri en hún virðist þar sem hún er full af vatni eftir vatnstíðina í lok ágúst. Ég skell fram fyrir mig og lendi á olnboganum og brotna þar,“ segir hann.

Haraldur sem starfar sem tónlistarmaður verður fyrir hreinum tekjumissi allan þann tíma sem hann ekki getur komið fram.
Mynd/aðsend

Stutt bið á gjörgæslu kom á óvart

Haraldur segir að við komu á gjörgæslu hafi bið hans verið mjög stutt sem kom honum skemmtilega á óvart.

„Maður hefur nú heyrt allskonar sögur og lent í því sjálfur að þurfa að bíða þarna lengi. En þetta lofaði mjög góðu þarna til að byrja með og ég fékk frábæra þjónustu. Ég hef því ekkert út á það fólk sem vinnur á bráðamóttökunni að setja,“ segir hann en honum var tjáð við útskrift að bið eftir aðgerð gæti orðið ansi löng.

„Ég bjóst í raun við því að þetta yrðu nokkrir dagar en mér var tjáð að þetta gætu verið allt að tvær vikur. Sem ég hló nú bara að á sínum tíma. En læknirinn sem sendi mig heim sagði mér þetta og nú virðist þetta bara ætla að rætast,“ segir Haraldur.

Veit lítið um framhaldið

Aðspurður segist Haraldur ekki vita hvaða áhrif bið sem þessi hafi á hans bataferli og komandi aðgerð.

„Ég hef ekkert álit fengið á því og engin hefur í raun sagt mér neitt hvernig þetta á eftir að verða eða hvað þurfi að gera. En yfirleitt á svona brot að gróa á fjórum vikum og ég er búinn að bíða í næstum því tvær vikur. Þannig að þetta er helmingurinn af batatímanum sem fer í þetta og lengir þetta þá um helming líka,“ segir Haraldur sem hefur þó skilning á því að hann sé ekki endilega fremstur í röðinni.

„Þessu er væntanlega raðað eftir forgangi en miðað við hvernig þetta gengur þá er greinilegt að Landsspítalinn er undirmannaður og vel það,“ segir hann.