Álag á Land­spítala hefur valdið því að sjúklingur á bráða­mót­töku hefur nú beðið í tæpa 100 klukku­tíma, sem jafn­gildir fjórum sólar­hringum, eftir inn­lögn á spítalann.

Mikael Smári Mikaels­son, starfandi yfir­læknir á bráða­mót­töku segir þetta stafa af inn­lagnar­teppu á spítalanum sem valdi því að illa gengur að út­skrifa sjúk­linga til móts við þá sem þurfa að leggjast inn.

„Við miðum við að fólk sé ekki bíða í meira en sex klukku­tíma en við höfum ekki verið að ná því tak­marki frá því sú tala var sett upp, nánast,“ segir Mikael.

Hann segir þetta vera eitt mesta vandamálið sem bráða­deild standi frammi fyrir enda sé svona löng bið langt út fyrir það sem gott getur talist.

„Við erum með 35 rúm sem við vinnum með til að sjá um nýtt fólk og það á að duga flesta daga, miðað við það flæði sem við höfum og meira að segja þegar flæðið er meira. En 20 af þeim plássum núna er fólk í bið eftir inn­lögn, þannig við erum í raun að vinna með 15 rúma deild, sem er of lítið fyrir Stór-Reykja­víkur­svæðið,“ segir Mikael.

Mikael segir að flestar deildir spítalans séu nú að vinna á 90-100% virkni sem þýði að þeir sem út­skrifast í dag muni rýma pláss fyrir þá ein­stak­linga sem bíða eftir inn­lögn á bráða­mót­töku. Hann segir þetta þó vera sveiflu­kennt og að Land­spítalinn sé búinn að leggja mikið á sig við að bæta úr þessu á­standi undan­farið ár, meðal annars með því að fjölga rúmum á sjálfum spítalanum og koma á fót fleiri göngu­deildum.

„En meira þarf ef duga skal, því miður,“ segir Mikael að lokum.