Birna Dröfn Jónasdóttir
Föstudagur 29. júlí 2022
23.00 GMT

Ég söng inn á fyrstu plötuna þegar ég var bara 11 ára og fannst það geggjað,“ segir tónlistarkonan Klara Ósk Elíasdóttir, eða Klara Elías.

„Ég var að syngja á ættarmóti þegar ég var 11 ára og þar heyrði Heimir Sindrason, tannlæknir og lagahöfundur, í mér og fékk mig til að syngja inn á þessa plötu sem hann var að setja saman. Ekki bara var það æðislega spennandi heldur fékk ég að syngja með Guðrúnu Gunnarsdóttur, sem var ein af mínum uppáhalds þarna. Mér finnst hún með eina fallegustu íslensku rödd sem til er,“ segir Klara.

Í kjölfar plötunnar fær Klara hlutverk í söngleiknum Bugsy Malone sem sýndur var í Loftkastalanum árið 1998. „Svo var ég stanslaust í söngvakeppnum og söng alls staðar þar sem ég komst að,“ segir hún.

„Þegar það kemur svo að því að velja framhaldsskóla þá vel ég Versló og það var algjörlega út af söngleikjunum,“ segir Klara, sem líkt og lesendur sjá var snemma ákveðin í því að verða söngkona.

Nylon-ævintýrið

Árið 2004 breyttist margt í lífi Klöru. Einar Bárðarson óskaði eftir stelpum sem kunnu að dansa og syngja, haldnar voru áheyrnarprufur og úr varð stelpnapoppsveitin Nylon.

200 stelpur sóttu um en aðeins fjórar voru valdar. Klara, Alma Guðmundsdóttir, Steinunn Camilla Sigurðardóttir og Emilía Björg Óskarsdóttir. Á einni nóttu slógu stelpurnar í Nylon í gegn og allra augu beindust að þeim. Áheyrnarprufurnar og allt sem Klara og stelpurnar gerðu í kjölfarið var tekið upp og sýnt í sjónvarpsþætti á sjónvarpsstöðinni Skjá einum. „Þetta var eiginlega bara fyrsti raunveruleikaþátturinn hérna og margt af því sem Nylon gerði var verið að gera á Íslandi í fyrsta sinn,“ segir Klara.


„Þetta var eins og kjarnorkusprengja, við vorum að syngja alls staðar og úti um allt land.“


„Þetta var eins og kjarnorkusprengja, við vorum að syngja alls staðar og úti um allt land,“ segir Klara, sem á þessu tíma stundaði nám í Versló. „Ég fékk mjög mikið svigrúm í Versló til að stunda námið samhliða því að vera í Nylon.

Það stóðu allir við bakið á mér og ég náði öllum prófunum og útskrifaðist þrátt fyrir að það væri mjög mikið að gera. Ég hefði aldrei getað þetta ef það hefði ekki verið fyrir kennarana og stuðninginn sem ég fékk,“ segir Klara.

Steinunn, Emilía, Klara og Alma árið 2006.
Mynd/David

Karllægur bransi

Nylon eignaðist fjölda aðdáenda á Íslandi og varð hljómsveitin mjög vinsæl, Klara segir vinsældirnar hafa verið mestar hjá krökkum. „Þetta var tónlist og band fyrir ungt fólk og ég upplifði alltaf mestu gleðina í því að sjá allar litlu stelpurnar sem hlustuðu á okkur,“ segir hún.

„Við fengum þarna tækifæri til að vera fyrirmyndir fyrir ungar stelpur og bara alla krakka, því að við vorum stelpuband og það var bara alls ekki mikið af konum sem fengu pláss í tónlistarbransanum á þessum tíma.“

Klara segir að hún sjálf og hinar stelpurnar í Nylon hafi varla gert sér grein fyrir því þá hversu mikilvægt hlutverk þeirra hafi verið.

„Það sem ég held að hafi verið mikilvægast er að þarna kom allt í einu fram á sjónarsviðið, í þessum bransa sem var fullur af strákum og mönnum, band sem var bara sett saman af stelpum og maður vonar að sé hvetjandi fyrir aðrar stelpur með stóra drauma. Það er stórkostlegt að fá að vera í því hlutverki,“ segir Klara og stoltið leynir sér ekki.

Klara segir stórkostlegt að hafa verið hvetjandi fyrir ungar stelpur.
Fréttablaðið/Valli

„Á þessum tíma var þetta þannig að meirihlutinn af vinsælustu hljómsveitum landsins var settur saman af karlmönnum. Drottningin þarna, og er enn í dag, var vissulega Birgitta Haukdal. Sveitaballatónlist var allsráðandi og við tókum soldið pláss í að flytja lög eftir sama lagahöfund, Einar Bárðarson, og var að semja fyrir stærstu böndin, eins og Skítamóral og Land og syni, á þessum tíma.“

Klara segir að sem betur fer sé tónlistarbransinn á Íslandi að breytast hægt og rólega og að konur séu nú fleiri en þær voru. „Þessi bransi er samt karllægur og við þurfum að halda áfram að marsera í rétta átt og þetta gerist ekki án þess að við tökum vel á móti konum í tónlist og gefum þeim tækifæri,“ segir Klara.

„Svo er annað sem er mikilvægt, að við höldum með hver annarri og mér finnst við gera það hérna á Íslandi. Ég upplifi alla vega mikinn stuðning frá samstarfskonum mínum og það er ómetanlegt. Ég vona að ég standi mig jafn vel í að hvetja þær áfram líka,“ bætir hún við.


„Ég upplifi alla vega mikinn stuðning frá samstarfskonum mínum og það er ómetanlegt. Ég vona að ég standi mig jafn vel í að hvetja þær áfram líka.“


Mikil umræða hefur verið uppi undanfarið um að konur fái ekki nægilegt pláss í tónlistarbransanum á Íslandi. Litið sé fram hjá þeim þegar bókað er á viðburði og tónlistarhátíðir og að þær fái ekki sama „platform“ og karlar. Spurð hvað sé til ráða segir Klara nauðsynlegt að allir séu meðvitaðir um vandamálið.

„Þegar það er þannig að karlar hafa í meirihluta fengið tækifærin þá þurfum við að passa upp á það að konur fái líka tækifæri, við þurfum að huga að því að skiptingin sé jöfn, bara alveg eins og í öllum öðrum störfum,“ segir Klara. „Það hafa verið settir á alls konar kynjakvótar til að jafna hlutföll kynja í hinum ýmsu stéttum og það væri vel hægt að gera það í tónlist líka. Ef þú bókar tíu stráka þá bara bókar þú stelpur á móti.“


„Það hafa verið settir á alls konar kynjakvótar til að jafna hlutföll kynja í hinum ýmsu stéttum og það væri vel hægt að gera það í tónlist líka.“


Upplifðu drauminn

Nylon-ævintýrið vatt fljótt upp á sig og upplifði Klara ótrúlega hluti þau ár sem hún var í hljómsveitinni, sem meðal annars átti lag á toppi breska vinsældalistans árið 2006. Þegar hún var aðeins tvítug fór hún í tónleikaferð með Nylon um Bretland þar sem stelpurnar hituðu upp fyrir hljómsveitirnar Westlife, Girls Aloud og McFly.

„Við fórum þrjá túra og spiluðum fyrir 11 til 20 þúsund manns á kvöldi og það var geggjað,“ segir Klara. „Þetta var klárlega einn þeirra hápunkta sem ég hef upplifað á mínum ferli. Ég held að ég hafi ekki kunnað að meta þetta á þessum tíma eins og ég geri núna en þetta var stórkostlegt og ég elska að rifja þetta upp.“

Hljómsveitirnar sem Nylon hitaði upp fyrir voru risanöfn í tónlistarbransanum. Flestir þekkja Westlife og Girls Aloud en ívið færri muna kannski eftir McFly sem átti þó nokkra stórsmelli sem ómuðu í útvarpi hér á landi. „Það klikkaðasta við þetta er að ég var örugglega stærsti McFly-aðdáandi á Íslandi,“ segir Klara og hlær.

„Þetta var ruglað. Ég elskaði þessa hljómsveit og á þessum tíma var þetta fyrir mér eins og einhver núna fengi að túra með One Direction. Þetta var galið tækifæri,“ segir Klara og bætir við að hún hafi átt erfitt með halda andliti í kringum strákana í McFly. „Svo var þessi sem ég var mest skotin í alltaf með kærustuna sína með sér þarna baksviðs og mér fannst hún svo sæt og ég dáðist bara að þeim.“

Klara og stelpurnar í NYLON túruðu um Bretland með stórum hljómsveitum og spiluðu fyrir 11-20 þúsund manns á kvöldi.
Fréttablaðið/Valli

The Charlies

Eftir túrana í Bretlandi breyttist aftur margt hjá Klöru og stelpunum í Nylon þegar Emilía ákvað að hætta í hljómsveitinni. „Það þarf mikið hugrekki til að hætta í einhverju sem gengur svona vel og Emilía var að fara að gifta sig og vildi setja fókus á fjölskylduna,“ útskýrir Klara.

Hún, Steinunn og Alma voru þó hvernig nærri hættar, þær tóku sér tíma í að endurhugsa hvernig þær vildu vera og hvað þær vildu gera. Úr varð hljómsveitin The Charlies. „Svo gerist það að tónlistin okkar kemst inn á borð hjá umboðsmanni í Bandaríkjunum og hann verður ástfanginn af verkefninu,“ segir Klara.

The Charlies flutti til Bandaríkjanna árið 2009 og þær skrifuðu undir plötusamning við risastórt plötufyrirtæki. „Þetta var eins og í bíómynd,“ segir Klara.

„Við löbbum þarna inn og syngjum fyrir yfirmann risaplötufyrirtækis og hann býður okkur samning á staðnum. Þetta tíðkaðist ekki og var síðan notað sem einhvers konar dæmi um hvað við værum góðar. Að okkur hefði verið boðinn samningur á staðnum. En þessi samningur var hræðilegur og það tók okkur ár að komast út úr honum,“ bætir Klara við.


„Við löbbum þarna inn og syngjum fyrir yfirmann risaplötufyrirtækis og hann býður okkur samning á staðnum.“


Þegar skrifað hafði verið undir samninginn leit allt vel út. Plötufyrirtækið setti mikinn pening og tíma í The Charlies, þær tóku upp plötu en þegar það kom að því að velja hvaða lag ætti að koma út fyrst var allt sett til hliðar.

„Þegar það er verið að velja fyrsta „single“ af plötunni fer allt að dragast. Umboðsmanni okkar kemur illa saman við fólkið hjá plötufyrirtækinu og það er pirrað á honum og alls konar leiðinleg pólitík stóð í vegi fyrir að hlutirnir gengju vel fyrir sig,“ útskýrir Klara.

„Allt í einu segjast þau hjá plötufyrirtækinu ekki tilbúin að skuldbinda sig í að gefa út þetta lag alveg strax, það eigi að bíða með það fram yfir jól en þetta var um haustið. Það segir okkur enginn beint að þetta þýði að platan komi ekki út en við vissum að þetta var dauðadómur,“ segir Klara.

Gáfust ekki upp

Hún, Steinunn og Alma ákveða strax að gefast ekki upp en eru fastar í samningnum. Þær máttu ekki gefa út neina tónlist en tóku málin í sínar hendur og sömdu og tóku upp plötu í leyni. „Um leið og samningnum var rift gáfum við svo út þessa plötu, þetta var fyrir tíma Spotify en hún er á YouTube og mér finnst þetta ennþá æðisleg plata.“

Klara segist hafa lært mikið á öllu því ferli sem átti sér stað í kringum samninginn og samskiptin við plötufyrirtækið. „Þau voru alltaf að reyna að stjórna okkur. Þau ritskoðuðu alla texta, vildu ráða því hvernig við áttum að koma fram og klæða okkur og mér var sagt að ég þyrfti að grenna mig. Þetta fyrirtæki er undir Disney svo það mátti ekkert og það voru settar fáránlegar útlitskröfur á okkur,“ segir hún.

„En þarna lærði ég að standa með sjálfri mér og gefast ekki upp,“ segir Klara. „Svo þegar við vorum búnar að gefa út þessa plötu á YouTube þá var þetta bara orðið of mikið. Við höfðum verið í stanslausri óvissu í mörg ár sem er svo lýjandi svo við ákváðum að snúa okkur að öðrum verkefnum.“

Lög í stórum sjónvarpsþáttum

Þarna hófst Klara handa við að semja tónlist sjálf. Það hefur hún gert í mörg ár og semur bæði fyrir sjálfa sig og aðra, en Klara hefur átt lög í stórum sjónvarpsþáttum líkt og The Kardashians, Oueer Eye og Selling Sunset.

„Þegar ég byrjaði að semja sjálf hafði ég upplifað ástarsorg og missi og hafði einhverja reynslu og tilfinningar sem ég vildi koma frá mér og þá byrjuðu lögin bara að koma hvert á eftir öðru,“ segir Klara.

Lögin sem hún samdi sá hún í upphafi fyrir sér að hún myndi flytja sjálf en umboðsmaður hennar ákvað með hennar leyfi að senda lögin á tónlistarkonur sem hann hafði tengsl við. Þær voru meðal annars Ellie Goulding, Demi Lovato og Christina Aguilera.

Sú síðastnefnda sýndi einu lagi Klöru mikinn áhuga en viðbrögð hennar sjálfrar komu henni mikið á óvart. „Það fyrsta sem ég hugsaði var bara nei! Þetta er mitt lag,“ segir Klara og hlær. „En það tók mig bara nokkra klukkutíma að átta mig á því hvað þetta væri sturlað og mér snerist hugur. Christina Aguilera notaði síðan aldrei lagið en á einni nóttu var ég farin að semja tónlist fyrir aðra og áttaði mig á því að ég var ekki alveg tilbúin að fara að syngja sjálf,“ bætir hún við.

Eyjanótt

Margt hefur breyst síðan og hefur Klara gefið út sína eigin tónlist ásamt því að eiga Þjóðhátíðarlagið í ár. Hún er spennt fyrir hátíðinni og laginu Eyjanótt sem hún samdi með Ölmu og James Wong. Klara er einungis önnur konan í sögu Þjóðhátíðar í Eyjum sem semur og flytur lag hátíðarinnar en Ragnhildur Gísladóttir átti lagið árið 2017.

„Það er stórkostlegt hvað laginu hefur verið tekið vel og það er mikilvægt að konu, sama hvort það er ég eða einhver önnur, sé gefinn þessi vettvangur. Að lag eftir konu fái þessa viðurkenningu,“ segir Klara. „Það er líka mikilvægt að við spáum í því af hverju fleiri konur hafi ekki gert þetta eða fengið þetta tækifæri. Þetta er bara enn eitt dæmið um það hvernig hallar á konur í tónlist.“

Klara hefur sjálf farið nokkrum sinnum á Þjóðhátíð og segir einhverja sérstaka stemningu og tilfinningu vera í Vestmannaeyjum þessa helgi. „Það gerist eitthvað sérstakt þarna. Sama þó að maður sé rennandi blautur í gegn og það sé ískalt þá er manni samt hlýtt af því að það eru bara einhverjir töfrar þarna,“ segir hún.

Klara bjó í Los Angeles í ellefu ár þar sem hún samdi bæði tónlist sem hún flytur sjálf og tónlist fyrir aðra. Hún hefur til að mynda samið lög fyrir stóra raunveruleikasjónvarpsþætti á borð við The Kardashians.
Fréttablaðið/Valli

Hamingjusöm á Íslandi

Klara bjó í ellefu ár í Los Angeles en er nú flutt til Íslands. Hún býr með kærastanum sínum, Jeremy Aclipen, og segist aldrei hafa verið jafn hamingjusöm. „Lánið í óláninu við Covid er klárlega það að tónlistarbransinn varð að redda sér. Og með nýrri tækni get ég verið hér en enn þá unnið mörg verkefni í Bandaríkjunum,“ segir Klara. „Ég væri örugglega ekki á Íslandi ef það væri ekki fyrir Covid og þá hefði ég kannski ekki hitt Jeremy,“ segir Klara.

„Ég hef aldrei verið hamingjusamari og það er merkilegt að fá að upplifa það á hverjum degi að vera ástfanginn og að sambandinu fylgi enginn kvíði,“ útskýrir hún. „Ég hef verið samböndum og aðstæðum þar sem það ríkir mikil óreiða, ófriður og spenna og það skapar svo mikla ringulreið. Það er svo gott að upplifa þennan frið, öryggi og það að vera elskaður alltaf,“ segir Klara sem ljómar þegar hún talar um ástina og Jeremy.

Klara og Jeremy kynntust stuttu eftir að hún flutti til Íslands og hafa verið saman í um eitt og hálft ár.
Mynd/Aðsend

Hún segist vita að hún væri ekki eins hamingjusöm og hún er í dag ef hún hefði ekki farið þá löngu leið sem hún fór með Nylon, The Charlies, stóra plötufyrirtækinu og árunum í Bandaríkjunum. „Á þessari leið fann ég hvað það er sem gerir mig hamingjusama og að hamingjan er ekki „one size fits all“,“ segir Klara.

„Fyrir mig er hún innri friður og að fá að vera í kringum fjölskylduna mína, fá að gera tónlist og flytja tónlist. Og í þessu ferli eignaðist ég líka aðra fjölskyldu, Steinunni og Ölmu, það er einhver tenging okkar á milli sem ég hef hvergi fundið fyrr eða síðar og ég bý að henni alltaf.“

Athugasemdir