Bryndís Bolladóttir varð ástfangin af eiginleikum ullarinnar í námi við Listaháskólann en það var ekki fyrr en eftir hrun að hugmynd hennar að hljóðdempandi kúlu fékk vængi og sló í gegn.

Bryndís varð ástfangin af eiginleikum ullarinnar í námi við Listaháskólann en það var ekki fyrr en eftir hrun að hugmynd hennar að hljóðdempandi kúlu fékk vængi.
„Ég varð ástfangin af eiginleikum ullar og sérstaklega þæfðar ullar þegar ég kynntist henni í námi. Ég fann strax að hún gæfi mikla möguleika og ekki eyðilagði að hún væri mér svona nærri. Það var síðan kona úr Setberginu sem hringdi í mig árið 2006 og biðlaði til mín að búa til fyrir sig listaverk. Verk sem jafnframt hefði hljóðdempandi virkni fyrir heimili hennar,“ útskýrir Bryndís.

Fyrsta og þekktasta verk Bryndísar er Kúlan sem notið hefur mikilla vinsælda enda hefur hún fyrir löngu sannað eiginleika sína en nú hafa bæst við verkin Land og Lina.

Konan bjó í stóru húsi með leðursófa og stórum glergluggum. „Hún þekkti til verka minna og sá eitthvað í mér sem ég var ekki sjálf búin að gera,“ segir Bryndís en þetta varð upphafið að því að hún fór að horfa í þessa átt en hönnun hennar hefur vakið heimsathygli.

„Ég reyndi að nálgast hljóðverkfræðinga og annað fagfólk árið 2007, en það var allt á yfirsnúningi og fáir tilbúnir í að fjárfesta tíma í nýsköpun. Það var síðan í ársbyrjun 2009 sem tækifærin sköpuðust eftir hrunið. Þá fékk skapandi hugsun að njóta sín og þverfaglegt starf átti auðveldara með að blómstra.“

Bryndís var þá sjálf í fæðingarorlofi en nýtti tímann vel og kynnti minni gerðina af Kúlu árið 2010 en hún er uppbrot á hljóði og ári síðar kynnti hún fyrstu hljóðdempandi kúluna.

„Síðan þá hefur hún verið í þónokkurri þróun þó svo útlitið hafi haldist óbreytt. Eftir 2011 hef ég svo búið til öll helstu form sem hægt er að finna í þrívídd.“


Góð hljóðvist mikilvæg


Mikilvægi góðrar hljóðvistar verður fólki sífellt ljósara. „Einbeitingarskortur, höfuðverkir og önnur vanlíðan er algengur fylgifiskur vondrar eða rangrar hljóðvistar,“ segir hún og bendir á að víða megi gera betur í þessum efnum.


„Góð hljóðvist eykur vellíðan og einbeitingu, dregur úr þreytu og auðveldar samskipti. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi hljóðvistar til að bæta heilsu og auka lífsgæði fólks. Margar þeirra hafa síðan verið heimfærðar upp á krónur og aura; til dæmis að hljóðvandamál geti leitt til 66 prósenta lækkunnar á framleiðni. Einnig að tilraunir hafi sýnt fram á 48 prósent aukningu í á einbeitingu og 10 prósent betra skammtímaminni þegar hljóðvist er bætt. Auk fjölmargra rannsókna sem hafa sýnt fram á neikvæð áhrif á heilsu starfsmanna ef hljóðvist er léleg.“

Lina sem hér Lína kemur sem hálfur og heill sívalningur. “Hún gefur óþrjótandi möguleika rétt eins og teiknuð lina."

Fyrsta og þekktasta verk Bryndísar er Kúlan sem notið hefur mikilla vinsælda og sjá má víða enda hefur hún fyrir löngu sannað eiginleika sína en nú hafa bæst við verkin Land og Lina.

„Kúla hefur þá eiginleika að eftir henni er tekið. Hún er áræðin og kraftmikil og því vel sýnileg. Þó svo hún sé flókin í framleiðslu er hún einföld í útliti og fólk tengir við hana. Kúlu formið hreyfir við okkur sem manneskjum. Rannsóknir hafa sýnt að form af þessari gerð ná að slá á strengi sem bæta líðan og eru okkur svo eðlislægir.“

Bryndís segir eina bestu viðurkenningu sem hún hafi fengið, komi frá erlendum kollegum hennar sem hafa sagst oftar en ekki hafa spurt sig: „Af hverju datt mér þetta ekki í hug“.

„Það sem vinnur með Kúlu er einnig hennar Akkilesarhæll því margir eiga erfitt með að trúa því að eitthvað svona ólíkt því sem finnst á markaði sé að virka svo vel. Hún er náttúrlegur skúlptúr með hljóðdempandi virkni í hæsta gæðaflokki.“


Þróaði sinn eigin textíl


Ástríða Bryndísar liggur í áferðunum:„Þannig hafa efnin sem ég hef klætt Kúlur í gegnum tíðina verið mín efni. Eiginleikar efnisins og framleiðsluaðferð hafa töluverð áhrif á hljóðísogs eiginleika þess sem ég hef gert. Sumarið 2019 hóf ég að þróa nýtt efni, Earth Matters Textíl þar sem sköpunargleðin fær að njóta sín. Vélbúnaðurinn er auðvitað ennþá til staðar en honum er nú beitt þannig að hugur og hönd ráða meiru um útkomuna,“ segir Bryndís sem sækist eftir að skapa náttúruáferðir í efninu.

Bryndís sækist eftir því að skapa náttúrumyndir í Earth Matters textílnum.

Hún segist aldrei almennilega hafa skilið fjöldaframleiðslu.

„Ég hef alltaf sagt að maður beri meiri virðingu fyrir því sem kostar aðeins meira. Þannig virka hlutirnir og við vitum það öll. Offramleiðsla og ofneysla hefur verið að ágerast síðustu 50 ár og hraðinn eykst og eykst. En ég vona svo innilega að heimurinn sé að átta sig á að við þurfum öll að vanda okkur mikið meira, hugsa meira í langtímalausnum. Við eigum að búa til vandaða hluti sem kosta meira og ætla hlutunum í kringum okkur að endast lengur. Við sköpum lausnir sem eru búnar til úr efnum sem náttúran skaffar okkur og er hluti af keðjunni sem hefur verið ríkjandi síðustu aldir.

Listrænt gildi og náttúruleg efni


Bryndís segist leggja áherslu á að bjóða hönnun sem hefur listrænt gildi og er unnin úr náttúrulegu efni.

„Svo heppilega vill til að ullin hefur veitt mér það flæði skapandi hugsunar og vellíðunar sem ég vona að endurspeglist í því sem ég er að búa til. Ullin býður líka upp á hlýleika sem plast á til dæmis erfitt með að ná.“

„Ullin býður líka upp á hlýleika sem plast á til dæmis erfitt með að ná.“

Earth Matters textíllinn er að sögn Bryndísar afsprengi listrænnar sköpunar sem og umhverfisvitundar og sjálfbærni markmiða.

„Til ársins 2019 var ég í samstarfi við gott fólk fyrir austan sem sá um framleiðsluna á ullarefnunum; Frú Laugu á Seyðisfirði, sem Þórdís Bergs veitti forstöðu og Hallgrím Jónsson á Höfn. Þau eiga mikið hrós skilið en slíkt samstarf og þekkingabræðingur opnar nýjar víddir. Eftir að við tókum við vélunum árið 2019 og færðum starfsemina nær gat ég betur leitað skapandi leiða til að betrumbæta enn frekar nýtinguna með notkun á sóaðri ull.“

Endurnýta ullina


Bryndís sótti innblástur að endurnýtingu ullarinnar í ferðalögum um landið sem hún svo kynnti fyrir dreifingaraðilum sínum á Stokkhólms messunni fyrir ári síðan.

„Viðbrögðin voru vægast sagt góð, en svo kom Covid sem eftir á að hyggja gerði það að við höfum náð að byggja upp meiri þekkingu á þessum tíma. Kula by Bryndis er því að byggja upp skapandi vinnustað fyrir ungt fólk sem hefur áhuga að koma að nýsköpun og vinna með hráefni sem er séríslenskt,“ segir Bryndís ákveðin.

Bryndís hefur þróað leið til að nýta ull sem fellur til í framleiðslu. "Í okkar framleiðslu höfum við fundið skapandi leið til að minnka sóunina en búa um leið til verk sem við teljum einstök og við erum mjög stolt af."

Earth Matters textíllinn sem að hluta til er unnin úr sóaðri ull er notaður í Kúlu, Land og Línu og segir Bryndís þannig nást aukin vídd og flæði í framsetninguna.

„Ull sem fellur til í framleiðslu er af sama meiði og matarsóun sem verður í virðiskeðju matvæla. Í okkar framleiðslu höfum við fundið skapandi leið til að minnka sóunina en búa um leið til verk sem við teljum einstök og við erum mjög stolt af. Áherslan hefur verið á að draga úr okkar sóun en við höfum líka verið í samstarfi við aðra um að draga úr henni á víðari skala með nýtingu hennar í okkar framleiðslu.“


Útrásin minnir á utanvegahlaup


Aðspurð hvernig gangi að koma vörunni á framfæri erlendis svarar Bryndís að þar sé um langhlaup að ræða.

„Eða kannski meira eins og einhver lýsti utanvegahlaupi fyrir mér. Tilgangur hlaupsins er að vera lengi að, villast svolítið um, finna til en gleðjast um leið yfir hverju skrefi og þeirri staðreynd að maður einfaldlega hafi getuna til að standa í þessu. Þetta er sem sagt mjög áhugavert og spennandi verkefni sem snýst um að koma eigin hugviti á heimskortið,“ segir Bryndís en hún er með umboðsmenn í þremur heimsálfum.

„Þeir eru meðal annars í Bandaríkjunum, en líka á stöðum eins og Singapore, Sviss, Danmörku, Finnlandi og Hollandi. Þá erum við loks að byrja í Þýskalandi.

„Ull sem fellur til í framleiðslu er af sama meiði og matarsóun sem verður í virðiskeðju matvæla.“

Það er alltaf gaman að sjá þegar sköpun manns fær notið sín á fallegan máta í fallegu umhverfi.

Nýlega höfum við þannig unnið verk fyrir skrifstofur lyfjaframleiðandans Roche í gegnum Kinnarps í Danmörku, fundar- og veitingaaðstöðu á efstu hæð Van Nelle Factory í Rotterdam sem er á Heimsminjaskrá UNESCO og í miðrými milli hæða nýlegrar byggingar Reha Rheinfelden sem hefur rekið endurhæfingarstöð í Sviss í 125 ár.“