Bandaríkin

Hefur ákært 22 á fyrsta ári rannsóknar

Sérstakur saksóknari hefur rannsakað meint samráð forsetaframboðs Donalds Trump við Rússa. Rannsóknin leitt af sér ákærur á hendur nítján einstaklingum og þremur fyrirtækjum. Stóru spurningunni enn ósvarað og þrátt fyrir þrýsting Trump-liða heldur rannsókn áfram.

Robert Mueller hefur rannsakað Rússamálið undanfarið ár. NordicPhotos/AFP

Alls hafa 22 ákærur verið gefnar út og fimm hafa játað sekt sína í tengslum við rannsókn Roberts Mueller, sérstaks saksóknara dómsmálaráðuneytisins, sem varð eins árs í gær. Mueller var skipaður til þess að rannsaka meint afskipti rússneskra yfirvalda af bandarísku forsetakosningunum sem fram fóru 2016 og meint samráð framboðs Donalds Trump, nú forseta, við Rússa. Þá er honum heimilt að rannsaka hverja þá glæpi sem uppgötvast í millitíðinni.

Þrýstingur Trump-liða á Mueller um að ljúka rannsókn sinni eykst dag frá degi. „Til hamingju Bandaríkin. Við erum nú á öðru ári mestu nornaveiða Bandaríkjasögunnar. Enn hefur ekkert bent til samráðs og ekkert til þess að nokkur hafi hindrað framgang réttvísinnar. Eina samráðið var hjá Demókrötum sem gátu ekki tryggt sér kosningasigur þrátt fyrir að hafa eytt miklu meiri peningum,“ tísti Trump í gær.

Samkvæmt nýlegri könnun CNN eru 44 prósent samþykk rannsókn Muellers, 38 ósamþykk. Þrýstingurinn virðist þó hafa einhver áhrif þar sem stuðningur við rannsóknina hefur minnkað undanfarið.

Rudy Giuliani, einn lögmanna forsetans, fullyrti svo í gær að Mueller myndi ekki ákæra Trump, jafnvel þótt hann kæmist að því að Trump hefði gerst brotlegur við lög. Sagði hann að rannsakendateymi Muellers hefði tjáð lögfræðingateymi Trumps að Mueller myndi halda sig við þá túlkun dómsmálaráðuneytisins á stjórnarskránni að ekki væri hægt að ákæra sitjandi forseta. Mueller vildi ekki svara fyrirspurnum fjölmiðla um orð Giulianis.

En þótt ekki hafi enn verið ákært fyrir samráð hefur Mueller afhjúpað fjölda glæpa. Ákærði hann meðal annars Paul Manafort, áður kosningastjóra Trumps, fyrir að hafa unnið fyrir stjórnmálaafl, hliðhollt Rússum, í Úkraínu. Þeir meintu glæpir eru ótengdir framboði Trumps að því er best er vitað. Fyrrverandi starfsmenn framboðs forsetans hafa svo játað að meðal annars hafa logið um samskipti við rússneska embættismenn og rússneska starfsmenn þrýstihópa. Mike Flynn, þjóðaröryggisráðgjafi Trumps til skamms tíma, játaði til að mynda að hafa logið um samskipti sín við Sergei Kisljak, sendiherra Rússa.

Þá hefur Mueller jafnframt rannsakað hvort Trump sjálfur hafi hindrað framgang réttvísinnar með því að hafa rekið James Comey alríkislögreglustjóra úr starfi eftir að Comey neitaði að hætta að rannsaka mál Flynns.

Trump hefur ekki sest niður með Mueller og svarað spurningum hans. Giuliani hefur sagt að Trump muni mögulega gera það af fúsum og frjálsum vilja, mögulega ekki. Robert Ray, saksóknari í Whitewater-máli Clintons, sagði við Washington Post í gær að forsetinn ætti að skilja að hann þurfi að svara spurningum Muellers, vilji hann að rannsóknin taki enda.

Paul Manafort. Nordicphotos/AFP

Hin 22 ákærðu

George Papadopoulos, utanríkismálaráðgjafi Trumps

Ákærður 3. október 2017 fyrir að ljúga að rannsakendum. Játaði 5. október 2017.

Paul Manafort og Rick Gates, kosningastjóri Trumps og aðstoðarmaður hans

Ákærðir 27. október 2017, meðal annars fyrir samsæri gegn Bandaríkjunum og vinnu fyrir Rússa í Úkraínu, og 22. febrúar 2018, meðal annars fyrir skattsvik. Báðir neita sök, ákærur frá 22. febrúar gegn Rick Gates felldar niður fimm dögum seinna.

Michael Flynn, þjóðaröryggisráðgjafi Trumps

Ákærður 30. nóvember 2017 fyrir að ljúga að rannsakendum. Játaði 1. desember 2017.

Richard Pinedo, sölumaður bankareikninga

Ákærður 2. febrúar 2018 fyrir að villa á sér heimildir. Játaði 2. febrúar 2018.

Alex van der Zwaan, hollenskur lögfræðingur

Ákærður 16. febrúar 2018 fyrir að ljúga að rannsakendum. Dæmdur í þrjátíu daga fangelsi 3. apríl 2018.

Þrettán rússneskir einstaklingar og þrjú rússnesk fyrirtæki

Ákærð 16. febrúar 2018, öll fyrir samsæri gegn Bandaríkjunum. Öll utan bandarískrar lögsögu nema fyrirtækið Concord Management and Consulting sem neitaði sök þann 10. maí 2018.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Bandaríkin

Smollet á­kærður fyrir 16 brot

Bandaríkin

Manning dæmd í varðhald fyrir að neita að bera vitni

Bandaríkin

Hillary Clin­ton ætlar ekki að gefa kost á sér

Auglýsing

Nýjast

Tveir teknir með fölsuð skilríki í Norrænu

Al­menningur ekki varinn með inn­flutnings­banni

Klám­mynda­leik­kona vill verða ríkis­stjóri

„Plebba­skapur ein­stakra þing­manna“ þekki engin tak­mörk

For­dæma mútur skóla­stjórn­enda með pizzum

Bein út­sending: Aðal­fundur Isavia

Auglýsing