Krabbameinsfélag Íslands hefur áhyggjur af því að fyrirhuguð tilfærsla skimana fyrir krabbameinum frá félaginu til Heilsugæslunnar, Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri, geti aukið biðtíma og hefði viljað sjá starfsemina áfram í einni einingu en ekki klippta í sundur. Framkvæmdastjóri félagsins segir opinberar stofnanir nú verða að sýna fram á að þær geti tryggt aðgengi að skimunum sem stenst alþjóðaviðmið.

Sérstaða Leitarstöðvarinnar

Eins og greint var frá í vikunni rennur samningur heilbrigðisyfirvalda við Krabbameinsfélagið um skimun fyrir krabbameini út í árslok 2020. Skimun fyrir krabbameini í brjóstum mun þá færast yfir til Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri en heilsugæslustöðvarnar munu taka yfir skimun fyrir leghálskrabbameini.

„Við höfum talað fyrir því að starfsemin verði ekki klippt í sundur eins og þarna er gert ráð fyrir heldur rekin áfram í einni einingu, sem skapar mikla þekkingarlega samlegð, er hagkvæm rekstrarlega og að auki eingöngu með fókus á skimanir,“ segir Halla Þorvaldsdóttir í samtali við Fréttablaðið. Leitarstöð félagsins hafi vissa sérstöðu því þar sé aðeins sinnt skimunum og þangað leiti konur af öllu landinu.

Frá upphafi hefur félagið séð um skimanir fyrir brjósta- og leghálskrabbameini og haft með alla framkvæmd að gera, allt frá boðum í skimanir til uppgjörs og árangursmats og framhaldsskoðana. Þjónustusamningar Sjúkratrygginga og Krabbameinsfélagsins hafa þó ekki staðið undir kostnaði við skimanirnar og félagið hefur því þurft að leggja til tugi milljóna til verkefnisins.

Samningarnir hafa verið skammtímasamningar sem hefur að sögn Höllu valdið erfiðleikum í rekstri og bundið hendur félagsins varðandi ákveðna þætti og framkvæmdir. Vorið 2017 var félaginu tilkynnt um að velferðarráðuneytið hygðist gera samninga til lengri tíma en áður en af því varð ekki og ári síðar voru komin áform um að færa verkefnið til opinberra stofnana. Sú umræða hefur einnig skapað óvissu og valdið starfsfólki miklu álagi segir Halla.

Biðtími á spítalanum langt yfir alþjóðlegum viðmiðum

Hún bendir þá á að í lögum um heilbrigðisþjónustu kemur fram að hlutverk Landspítalans sé að sinna sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu en ekki forvörnum. Skimanir séu stórt forvarnarverkefni og tilfærsla skimana á brjóstakrabbameinum til Landspítalans hafi ekki verið inni í tillögum skimunarráðs heldur virðist sú ákvörðun koma frá heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur. „Ég myndi sannarlega vilja sjá að kraftar Landspítalans færu frekar í að sinna einmitt sérhæfðari þjónustu við krabbameinssjúklinga en skimun á heilbrigðum konum,“ útskýrir Halla.

Hún segir Landspítalann nú þegar sinna skoðunum á brjóstum, í framhaldi af skimun ef grunur vaknar um að eitthvað sé að. „Spítalinn hefur haft það verkefni með höndum í næstum þrjú ár og á þeim tíma hefur hlaðist upp biðlisti sem spítalinn hefur ekki náð að vinna á,“ heldur hún áfram. Biðtími eftir slíkri skoðun hefur þannig verið sjö sinnum lengri að meðaltali á þessu ári en alþjóðleg viðmið segja til um; 35 dagar en ekki 5.

Halla segir þá gríðarlega jákvætt að Heilsugæslan ætli að gera skimanirnar ókeypis enda hafi það sýnt sig í tilraunaverkefni félagsins á þessu ári að konur eru mun líklegri til að fara í skimun ef hún er í boði gjaldfrjálst. Krabbameinsfélagið leggst ekki gegn því að starfsemin verði flutt inn á opinberar stofnanir. „En það er mikilvægt við þessar breytingar að markmið um ávinning af breytingum liggi fyrir og stofnanir sýni fram á að þær geti tryggt aðgengi að skimun sem stenst alþjóðaviðmið,“ segir Halla að lokum.