Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra vonast til þess að hann ná einhverri lendingu með þingmönnum Framsóknarflokksins vegna frumvarps hans um fækkun sýslumanna. Frumvarpið hefur mætt andstöðu innan Framsóknarflokksins og var það meðal annars rætt á opnum fundi flokksins á Ísafirði í gær.

Stefán Vagn Stefáns­son, þing­maður Fram­sóknar­flokksins er einn þeirra sem hefur lýsti yfir and­stöðu við frum­varpi Jóns um sam­einingu sýslu­manns­em­bætta landsins í eitt em­bætti.

Á opna fundinum í gær sagði Stefán að að­ferða­fræði frum­varpsins væri röng og að em­bættið á Vest­fjörðum, sem yrði ein af fjöl­mörgum starfs­stöðvum um landið, myndi með tímanum fjara út. Sam­kvæmt BB.is voru aðrir þing­menn Fram­sóknar­flokksins á fundinum sam­mála gagn­rýni Stefáns á frum­varp Jóns.

Jón vonar að hann geti komist að ein­hverri niður­stöðu með þing­mönnum Fram­sóknar­flokksins um frum­varpið.

„Já ég er í sam­tali við Fram­sóknar­flokkinn sem hefur lýst á­kveðnari and­stöðu við þetta mikla fram­fara­mál. Ég vona það að við náum saman um ein­hverja lendingu í því,“ segir Jón.

Stefán segist fagna allri um­ræðu sem fela í sér upp­byggingu og eflingu starfa á lands­byggðinni, sem hann telur vera grunninn á frum­varpi Jóns. Hann segir að samt sé hægt að efla sýslu­manns­em­bættin á lands­byggðinni í nú­verandi kerfi.

„Það þarf ekki að leggja em­bættin niður, heldur er hægt að færa störf til þeirra sýslu­manna eins og þau eru í dag. Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að það eru em­bætti og stofnanir sem eru ekki með höfuðið út á landi, að þær leka fjár­magni og störfum suður og á endanum verða þær ekki nánda eins öflugar og ætlunin stóð til. Ég hef á­hyggjur af því að nái þetta frum­varp fram að ganga, þar sem að fjár­magnið er fært á einn aðila, að með tíð og tíma muni fjara undan sýslu­manns­em­bættunum á lands­byggðinni,“ segir Stefán.

Hann segist eiga í á­gæt­lega góðu sam­bandi við Jón, en hann sé ekki sam­mála frum­varpi Jóns eins og það er í dag.

„Við höfum ekki talað saman um frum­varpið. Ég hef fengið kynningu á því og ég hef fylgst með því í fjarska. Ég held að þessi nálgun Jóns fer ekki saman við mína nálgun á þessu verk­efni eins og þetta er sett fram hjá honum. Á­hyggjur mínar eru að það muni fjara undan þessum em­bættum ef stýringin á fjár­magni er tekin af land­svæðunum og fært á einn stað,“ segir Stefán.