Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra vonast til þess að hann ná einhverri lendingu með þingmönnum Framsóknarflokksins vegna frumvarps hans um fækkun sýslumanna. Frumvarpið hefur mætt andstöðu innan Framsóknarflokksins og var það meðal annars rætt á opnum fundi flokksins á Ísafirði í gær.
Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins er einn þeirra sem hefur lýsti yfir andstöðu við frumvarpi Jóns um sameiningu sýslumannsembætta landsins í eitt embætti.
Á opna fundinum í gær sagði Stefán að aðferðafræði frumvarpsins væri röng og að embættið á Vestfjörðum, sem yrði ein af fjölmörgum starfsstöðvum um landið, myndi með tímanum fjara út. Samkvæmt BB.is voru aðrir þingmenn Framsóknarflokksins á fundinum sammála gagnrýni Stefáns á frumvarp Jóns.
Jón vonar að hann geti komist að einhverri niðurstöðu með þingmönnum Framsóknarflokksins um frumvarpið.
„Já ég er í samtali við Framsóknarflokkinn sem hefur lýst ákveðnari andstöðu við þetta mikla framfaramál. Ég vona það að við náum saman um einhverja lendingu í því,“ segir Jón.
Stefán segist fagna allri umræðu sem fela í sér uppbyggingu og eflingu starfa á landsbyggðinni, sem hann telur vera grunninn á frumvarpi Jóns. Hann segir að samt sé hægt að efla sýslumannsembættin á landsbyggðinni í núverandi kerfi.
„Það þarf ekki að leggja embættin niður, heldur er hægt að færa störf til þeirra sýslumanna eins og þau eru í dag. Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að það eru embætti og stofnanir sem eru ekki með höfuðið út á landi, að þær leka fjármagni og störfum suður og á endanum verða þær ekki nánda eins öflugar og ætlunin stóð til. Ég hef áhyggjur af því að nái þetta frumvarp fram að ganga, þar sem að fjármagnið er fært á einn aðila, að með tíð og tíma muni fjara undan sýslumannsembættunum á landsbyggðinni,“ segir Stefán.
Hann segist eiga í ágætlega góðu sambandi við Jón, en hann sé ekki sammála frumvarpi Jóns eins og það er í dag.
„Við höfum ekki talað saman um frumvarpið. Ég hef fengið kynningu á því og ég hef fylgst með því í fjarska. Ég held að þessi nálgun Jóns fer ekki saman við mína nálgun á þessu verkefni eins og þetta er sett fram hjá honum. Áhyggjur mínar eru að það muni fjara undan þessum embættum ef stýringin á fjármagni er tekin af landsvæðunum og fært á einn stað,“ segir Stefán.