Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra og stjórnandi Almannavarna hefur áhyggjur af því að kórónuveiran nái sér mögulega hratt á strik aftur og að seinni bylgja faraldursins sé nú væntnaleg. Hann segir að við séum í annarri stöðu í dag en fyrir viku síðan og almannavarnir muni ekki hika við að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.

„Já, ég hef áhyggjur og við öll. Það er raunveruleg hætta á að úti séu samfélagsleg smit sem náum ekki utan um. Því fleiri sem koma saman því hraðari getur útbreiðslan orðið. Smitrakningin og sóttkvíin verða þá sömuleiðis enn umfangsmeiri." segir Víðir í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Tvö ný smit kórónuveirunnar greindust hér á landi í gær, þar af eitt nýtt innanlandssmit. Alls hafa fimm innanlandssmit greinst frá því að landamæri voru opnuð þann 15. júní síðastliðinn. Víðir sagði ljóst að smitið sem greindist í gær tengdist hinum innanlandssmitunum og má rekja það til knattspyrnuhreyfingarinnar.

Hann segir jafnframt að stærsti viðburðurinn sem innanlandssmitin tengist er rétt um 100 manns en nú eru tæplega 500 manns í sóttkví. Hann bendir á að ef hópsmit kæmi upp á viðburðum með 500 manns er ljóst að afleiðingarnar yrðu alvarlegar.

„Það sýndi sig að það að taka málin föstum tökum virkar og við munum ekki hika við að herða aðgerðir og samkomutakmarkanir á ný," segir Víðir Reynisson.