„Okkur finnst mjög gleði­legt hvað við erum víða að fá já­kvæð við­brögð við þessum að­gerðum,“ segir Ingi­björg Ei­ríks­dóttir, annar for­vígis­manna fé­lagsins Fjallbata sem fæst við að hefta út­breiðslu lúpínu á mið­há­lendinu og víðar.

Ingi­björg á­samt Geir­mundi Klein sendi ný­verið fyrir hönd Fjall­bata bréf til Rang­ár­þings eystra þar sem verk­efni fé­lagsins eru kynnt. Þar segir að þau hafi, á­samt fleirum, að eigin frum­kvæði unnið að heftingu út­breiðslu lúpínu að Fjalla­baki, á Sprengi­sandi, á Tungna­ár­ör­æfum og á Kili og einnig á Heklu­svæðinu.

Þau segjast vinna að því hefta út­breiðsluna á Emstrum að Fjalla­baki syðra og víðar og hafi í sumar fengið styrki frá Land­græðslunni, Lands­virkjun og Náttúru­verndar­sam­tökum Suður­lands.

Mark­miðið segir Ingi­björg vera að hefta frekari út­breiðslu lúpínunnar á há­lendinu til lengri tíma litið.

„Af góðum hug var hvatt til dreifingar plöntunnar á sínum tíma, en reynslan hefur sýnt að þessi annars dug­lega land­græðslu­jurt á ekki alls staðar við og hopar seint eða jafn­vel ekki í gljúpum eld­fjalla­jarð­veginum hér­lendis,“ segir í bréfinu til Rang­ár­þings eystra.

„Alaskalúpína er á­geng, framandi tegund sem veldur, eða lík­legt er að valdi, rýrnun líf­fræði­legrar fjöl­breytni. Með hækkandi loft­hita hefur hún í auknum mæli náð að sá sér á há­lendinu á undan­förnum árum, sem er al­var­legt mál með til­liti til þess að hún hörfar al­mennt ekki fyrr en vist­kerfinu hefur verð breytt,“ segir í bréfi Fjall­bata.

Á há­lendinu hafi tekist að halda aftur af frekari dreifingu lúpínu með mark­vissum að­gerðum á um tuttugu smærri reitum. Í Hatta­fells­gili og Mosum á Emstrum séu breiðurnar þó nokkuð um­fangs­miklar.

Benda þau Geir­mundur og Ingi­björg á að sam­kvæmt náttúru­verndar­lögum sé bannað að dreifa lúpínu á frið­lýstum svæðum, í lands­lags­gerðum sem njóti sér­stakrar verndar og ofan 400 metra yfir sjávar­máli.

„Reynsla sumarsins 2022 verður notuð til skýrari mótunar á­ætlunar til lengri tíma, sem lögð verður til grund­vallar á­fram­haldandi vinnu komandi ára. Við höfum þegar hafið slátt með fram læknum í Hatta­fells­gilinu, en for­gangs­at­riði er að hreinsa lúpínuna frá straum­vatni,“ segir Fjall­bati í bréfinu. Ætlunin sé að reyna að meta árangur af mis­munandi að­ferðum við eyðinguna. Mikill á­hugi sé á að reyna beit í af­mörkuðum reitum.

Ingi­björg leggur á­herslu á það í sam­tali við Frétta­blaðið að lúpína geti sannar­lega víða gert gagn á sumum stöðum sem land­græðslu­jurt. „En það er á­ríðandi að hugsa til enda að hún verður ekki svo auð­veld­lega heft. Á­standið í Hatta­fells­gili á Emstrum var orðið mjög krítískt. Þetta er svæði á náttúru­minja­skrá,“ bendir hún á.