Þekkingarsetur Vestmannaeyja fer fyrir ítarlegri rannsókn í sumar á mögulegum veiðum á svifi í sjónum suður af landi, en gríðarleg verðmæti gætu komið á land gangi hugmyndir eftir um stórfellda veiði á rauðátu.
Talið er að sjö milljónir tonna af svifi sé að finna að jafnaði í sjónum við Ísland sem endurnýjar sig árlega, svo það er eftir nokkru að slægjast. Svifið, öðru nafni átan, hefur ekki verið nýtt til verðmætasköpunar hér við land, en veiðar af þessu tagi eru alþekktar í Noregi.
„Þar hafa þetta reynst mjög dýrmætar afurðir,“ segir Hörður Baldvinsson hjá Þekkingarsetrinu í Eyjum, en hann segir þær afar eftirsóttar í fiskifóður í laxeldi, enda gefi rauðátan þeim fiski þá rauðu áferð sem eykur verðgildi afurðarinnar. Þá er rauðátan einnig notuð sem fæðubótarefni sakir ferskleika og ríkrar næringar.

Rannsókn Þekkingarsetursins er unnin í samvinnu við Hafrannsóknastofnun og Háskóla Íslands, svo og Ísfélagið og Vinnslustöðina í Eyjum og fer fram á Háadjúpi austur af Vestmannaeyjum, á svæði sem spannar tugi ferkílómetra við landgrunnskantinn.
„Við erum komnir með leyfi og þúsund tonna tilraunakvóta frá sjávarútvegsráðuneytinu til að fara í þessar prófanir og verðum með starfsmenn á vegum Hafrannsóknastofnunar og Háskólans um borð í rannsóknaskipinu okkar, Friðriki Jesson,“ segir Hörður, en einkum eigi að sannreyna magn og þéttleika svifsins á þessum slóðum, ásamt því að kanna hversu mikill meðafli fylgir með.
„Við höfum fengið bergmálsmæli frá Háskólanum og svokallað kassatroll frá Hafrannsóknastofnun til að hefja þessar tilraunaveiðar, en aflinn verður frystur um borð og svo fullunninn í landi,“ segir Hörður og vitnar þar til þeirra aðferða sem dugað hafa best í Noregi.
„Ef þessar veiðar ganga vel í sumar sjáum við fram á að stórveiðar hefjist strax að ári,“ segir Hörður Baldvinsson.