Þekkingar­setur Vest­manna­eyja fer fyrir ítar­legri rann­sókn í sumar á mögu­legum veiðum á svifi í sjónum suður af landi, en gríðar­leg verð­mæti gætu komið á land gangi hug­myndir eftir um stór­fellda veiði á rauð­átu.

Talið er að sjö milljónir tonna af svifi sé að finna að jafnaði í sjónum við Ís­land sem endur­nýjar sig ár­lega, svo það er eftir nokkru að slægjast. Svifið, öðru nafni átan, hefur ekki verið nýtt til verð­mæta­sköpunar hér við land, en veiðar af þessu tagi eru al­þekktar í Noregi.

„Þar hafa þetta reynst mjög dýr­mætar af­urðir,“ segir Hörður Bald­vins­son hjá Þekkingar­setrinu í Eyjum, en hann segir þær afar eftir­sóttar í fiski­fóður í lax­eldi, enda gefi rauð­átan þeim fiski þá rauðu á­ferð sem eykur verð­gildi af­urðarinnar. Þá er rauð­átan einnig notuð sem fæðu­bótar­efni sakir fersk­leika og ríkrar næringar.

Hörður Baldvinsson hjá Þekkingarsetri Vestmannaeyja.
Mynd/Aðsend

Rann­sókn Þekkingar­setursins er unnin í sam­vinnu við Haf­rann­sókna­stofnun og Há­skóla Ís­lands, svo og Ís­fé­lagið og Vinnslu­stöðina í Eyjum og fer fram á Háa­djúpi austur af Vest­manna­eyjum, á svæði sem spannar tugi fer­kíló­metra við land­grunnskantinn.

„Við erum komnir með leyfi og þúsund tonna til­rauna­kvóta frá sjávar­út­vegs­ráðu­neytinu til að fara í þessar prófanir og verðum með starfs­menn á vegum Haf­rann­sókna­stofnunar og Há­skólans um borð í rann­sókna­skipinu okkar, Frið­riki Jes­son,“ segir Hörður, en einkum eigi að sann­reyna magn og þétt­leika svifsins á þessum slóðum, á­samt því að kanna hversu mikill meða­fli fylgir með.

„Við höfum fengið berg­máls­mæli frá Há­skólanum og svo­kallað kassa­­troll frá Haf­rann­sókna­stofnun til að hefja þessar til­rauna­veiðar, en aflinn verður frystur um borð og svo full­unninn í landi,“ segir Hörður og vitnar þar til þeirra að­ferða sem dugað hafa best í Noregi.

„Ef þessar veiðar ganga vel í sumar sjáum við fram á að stór­veiðar hefjist strax að ári,“ segir Hörður Bald­vins­son.