Fimleikafélag Hafnarfjarðar (FH) hefur bæst í hóp þeirra íþróttafélaga sem bjóða upp á iðkun rafíþrótta. Með þessu vill félagið mæta eftirspurn unglinga í Hafnarfirði og koma til móts við þá sem hafa ekki áhuga á hefðbundnum íþróttum en vilja samt taka þátt í starfi félagsins.

FH verður með kynningarfund um rafíþróttir í Kapplakrika á miðvikudaginn 8. maí kl. 17:00. Hallsteinn Arnarson hjá FH hvetur sem flesta tölvuleikjaspilara og foreldra til að koma á fundinn. „Á fundinum förum við yfir hvernig börn og unglingar geta æft og keppt í spilun tölvuleikja hjá félaginu á ábyrgan, heilsusamlegan, markvissan og skipulagðan hátt.“ Félagið vill brúa bilið milli hefðbundinna íþrótta og rafíþrótta og leggur þannig mikla áherslu á að matarræði, svefn og aðrir heilsusamlegir þættir spili stórt hlutverk í að ná langt í greininni.

Hallsteinn segir það mikilvægt fyrir félög að vera opin fyrir nýjungum og að vera tilbúin að aðlagast breyttum tímum. „Við sendum okkar fyrsta rafíþróttalið til leiks í undankeppni Lenovo Deildarinnar í tölvuleiknum Counter-Strike: Global Offensive, sem fór fram um helgina 12.-14. apríl. Liðið okkar náði góðum árangri og var mjög nálægt því að komast í fjögurra liða aðalkeppnina.“

Í byrjun ættlar FH að einbeita sér að rafíþróttastarfi fyrir unglinga á aldursbilinu 11-16 ára en mun skoða að bjóða yngri spilurum upp á rafíþróttir sé áhugi fyrir hendi. FH er strax farið að huga að mögulegum keppnum við rafíþróttadeildir erlendra íþróttafélaga. „Við erum stórhuga í þessu og viljum vera leiðandi og gera vel því mörg innlend íþróttafélög horfa til starfsins hjá FH,“ segir Hallsteinn. „Það eru spennandi tímar framundan í rafíþróttunum hjá okkur í FH.“