Leit að þeim þremur mann­eskjum sem enn er saknað eftir að land rann undan bænum Ask í Noregi í mikilli skriðu þann 30. desember síðast­liðinn hófst á ný í morgun.
Tæpar tvær vikur eru síðan leitar­að­gerðum var hætt. Eftir jarð­fallið var tíu manns saknað, sjö fundust látnir nokkrum dögum síðar en þrír eru taldir af en hafa ekki enn fundist.

Leitin verið erfið

Síðustu tvær vikurnar hefur lög­reglan í Gjer­drum unnið að því að hefja skipu­lagða leit aftur á svæðinu en að­stæður eru afar erfiðar. Leitin í dag hefur ekki gengið eins vel og vonast var til vegna veðurs en þoka hefur verið mikil á­skorun fyrir björgunar­aðila. Það sem af er degi hefur að­eins verið hægt að leita á skriðu­svæðinu sjálfu í stuttan tíma en nú er einungis notast við dróna við leitina.

Að­stand­endur þeirra sem enn er leitað hafa beðið í ör­væntingu síðan leitin hætti en ó­víst var hve­nær leit gæti hafist á ný. Anders Østen­sen, bæjar­stjóri í Gjer­drum sagði í sam­tali við norska ríkis­út­varpið í síðustu viku að hann vonaðist til að leit að þeim sem enn væri saknað gæti hafist sem fyrst svo að að­stand­endur gætu jarðað ást­vini sína og kvatt al­menni­lega.

Yfir þúsund þurftu að yfir­gefa heimili sín eftir að jörðin gaf sig undan bænum Ask og fjöldi fólks missti allt sitt í ham­förunum.