Félagið Sannir landvættir er að hefja gjaldtöku við Hverarönd austan Námafjalls í Mývatnssveit. Mismunandi bílastæðagjald verður rukkað eftir stærð ökutækja.

Aðgangur hefur verið ókeypis að náttúruperlunni þess utan að fyrir átta árum reyndu landeigendur gjaldtölu á sömu slóðum. Henni var hrundið með lögbanni og var óeining meðal landeigenda um framtakið.

Að sögn Guðrúnar Maríu Valgeirsdóttur, landeiganda í Reykjahlíð, eiga eigendur hlut í félaginu sem stendur að gjaldtökunni. Bróðurpart eiga Sannir landvættir. Guðrún María segir að síðustu daga hafi planið við Hverarönd verið sléttað og rafmagn lagt. Ekki verði að sinni boðið upp á salernis­aðstöðu.

Guðrún María segir að ein ástæða gjaldtökunnar sé að umgengni um svæðið hafi ekki verið til sóma. Byggja þurfi upp betri aðstöðu í verndarskyni. Landeigendum hafi sem dæmi sviðið að Umhverfisstofnun hafi ekki beitt skyndilokun vegna umferðar og ágangs í þau skipti sem eigendur hafi farið fram á lokun.

Að sögn hennar tók það Umhverfisstofnun tvo mánuði að hafna ósk um tveggja vikna skyndilokun en með gjaldtöku nú verði hægt að viðhalda svæðinu betur.

„Við skulum ekki gleyma að stór hluti af náttúruperlum er í einkaeigu. Svo erum við gagnrýnd fyrir að byggja upp svæði til að geta tekið almennilega á móti fólki,“ segir Guðrún og bætir við að landeigendur í Reykjahlíð hafi borið töluverðan kostnað af því að viðhalda náttúruperlum í sinni eigu.

Fréttablaðið bar hina fyrirhuguðu gjaldtöku undir Umhverfisstofnun. Í svörum segir að almennt telji Umhverfisstofnun að gjaldtaka sé ólögmæt ef hún feli í sér hindrun á aðgangi að landi þar sem annars gildi ákvæði laga um frjálsa för fólks, nema í þeim tilfellum þar sem lagaheimild til slíkrar gjaldtöku er fyrir hendi.

Um gagnrýni á störf Umhverfisstofnunar segir í svari stofnunarinnar að Námafjall, Hverir og Kröflusvæðið sé nú utan þess svæðis sem landverðir sinntu áður. Dimmuborgir, Hverfjall, Seljahjallagil, Bláhvammur og Þrengslaborgir hafi hlotið friðlýsingu en ekki hafi verið vilji meðal landeigenda til að friðlýsa önnur svæði, þar á meðal séu Hverir.

Beiðni um lokun hafi komið frá landeigendum árið 2017 en þá hafi Umhverfisstofnun ekki talið þörf á tafarlausum aðgerðum. Umhverfisstofnun hafi komið að landvörslu og eftirliti við Hverarönd, síðast árið 2019 þegar settar voru takmarkanir á umferð.

„Umhverfisstofnun er ekki kunnugt um að komið hafi fram forsendur þess að landeigendur telji Umhverfisstofnun eða undirstofnanir ríkisins ekki treystandi til að gæta svæðisins,“ segir í svari stofnunarinnar