Það verða 90.000 skammtar af bóluefni gegn árlegri inflúensu tilbúnir til afhendingar frá og með 13. september næstkomandi. Bóluefnið verður notað í bólusetningum veturinn 2022 og 2023 samkvæmt tilkynningu frá Embætti landlæknis.
Í ár var pantað minna bóluefni en áður þar sem ónotuðum skömmtum var fargað í vor.
Búist er við að bólusetningar hefjist 15. september næstkomandi og verður dreifingu forgangsraðað til heilbrigðisstofnana og hjúkrunarheimila. Aðrir sem fá úthlutað bóluefni, meðal annars þeir sem sinna vinnustaðabólusetningum fá það í október.
Sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningar:
• Allir einstaklingar 60 ára og eldri.
• Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
• Barnshafandi konur.
• Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.