„Ríkisstjórnin mun setja af stað vinnu sérfræðinga um ákvæði stjórnarskrár um Alþingi, kosningar og kjördæmaskipan, dómstóla og eftir atvikum önnur ákvæði, svo sem mannréttindaákvæði,“ segir í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Fram kemur að efna eigi til samstarfs við fræðasamfélagið um umræðu og umfjöllun um stjórnarskrárbreytingar og framhald vinnu við stjórnarskrárbreytingar verði metið í framhaldinu.

Alþingi skuldi þjóðinni mikilvægar breytingar

„Það er alveg á hreinu að þessir atburðir í Norðvesturkjördæmi brýna allavega mig og vonandi okkur öll í því að gera umbætur á kosningalöggjöfinni og líka að horfa á stjórnarskrána í því samhengi,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um málið.

Aðspurð um það sem á undan hefur gengið í þessu máli segir Katrín: „Ég lagði upp ákveðið plan fyrir fjórum árum og mun halda áfram að vinna samkvæmt því. En á einhverjum tímapunkti þarf ég að ræða það við kollega mína í þinginu því það var alveg ljóst að það voru alls ekki allir ánægðir með það plan. „Ég er enn þá þeirrar skorðunar að Alþingi skuldi þjóðinni mjög mikilvægar breytingar á stjórnarskrá.“ 

„Ég er enn þá þeirrar skorðunar að Alþingi skuldi þjóðinni mjög mikilvægar breytingar á stjórnarskrá.“ 

Á síðasta kjörtímabili var unnið að ákvæðum um auðlindir, umhverfismál og breytingum á ákvæðum um forseta Íslands. Frumvörpin voru lögð fram en umræða um þau var ekki kláruð.

Þá kemur fram að haldið verði áfram endurskoðun kosningalöggjafarinnar samhliða innleiðingu á þeim breytingum á löggjöfinni sem samþykktar voru á síðasta kjörtímabili.

Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins.

„Þau eru að bregðast íslenskri þjóð,“ segir Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins, aðspurð um kafla stjórnarsáttmálans um stjórnarskrármál.

„Þetta er enn ein staðfesting þess hvað það er mikið vilja- og getuleysi hjá Alþingi og sér í lagi hjá þessari ríkisstjórn, varðandi það að virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 og hlusta á vilja þjóðarinnar í þessu risavaxna máli sem stjórnarskrármálið er,“ segir hún.

Ekkert samráð við almenning

„Mér finnst líka mjög áhugavert hvað það er skýrt að það er engin ætlun að viðhafa nokkuð samráð við almenning í þessu kasti. Það var Þó að minnsta kosti yfirlýstur vilji þeirra síðast. Nú eru það sérfræðingarnir sem eiga að fá að tala.“ Segir Katrín og bætir við: „Þetta virðist benda til þess að þau skilji hreinlega ekki þá undirstöðu stjórnskipunarinnar að þjóðin sé stjórnarskrárgjafinn.“