Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir hefði viljað tveggja metra reglu en ekki eins metra reglu eins og ríkis­stjórnin setti. Þetta kom fram í kvöld­fréttum Ríkis­út­varpsins.

Þór­ólfur lagði til í minnis­blaði sínu að sett yrði á tveggja metra regla hér á landi. Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn segist eiga von á sam­bæri­legum smit­tölum næstu daga eins og í dag. 95 greindust innan­lands og voru tuttugu utan sótt­kvíar.

Eins og alþjóð veit taka nýjar samkomutakmarkanir gildi á miðnætti. Miðað verður við 200 manna samkomutakmarkanir, 75 prósent gestafjölda í sundlaugum og í líkamsræktarstöðvum auk grímuskyldu þar sem ekki er hægt að viðhalda einna metra fjarlægðartakmörkunum.

Allt stefnir í að Ís­land muni missa græna litinn á lista sótt­varnar­stofnun Evrópu sem gefið verður út næstkomandi fimmtudag. Víðir segir að miðað við tölur dagsins séum við strax orðin appel­sínu­gul og hættan sú að önnur lönd muni setja strangari reglur um komur og brott­farir til og frá Ís­landi.

„Ég hefði nú kosið að hafa hana tveggja metra,“ segir Þór­ólfur. „Við höfum notað tveggja metra regluna eigin­lega alveg í gegnum þennan far­aldur, nema einu sinni slökuðum við á og fórum niður í einn metra. Og fengum fljót­lega aukningu.“