Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir ákvarðanir ríkisstjórnarinnar varðandi breytingar á sóttvarnaaðgerðum sem kynntar voru í dag sýna að ríkisstjórnin fari varlega af stað.

„Ég hefði viljað sjá afléttingar sem eru meira í samræmi við það sem við erum sjá í löndunum í kringum okkur. En ég skil þetta mjög vel og það er erfitt að búa til hvassa gagnrýni á þetta,“ segir Kári í samtali við Fréttablaðið spurður hvað hann hefði viljað sjá ríkisstjórnina gera í dag.

Ríkisstjórnin kynnti breyttar reglur á sóttkví eftir ríkisstjórnarfundinn í morgun, þær taka í gildi á miðnætti í kvöld.

Samkvæmt þeim reglum þurfa einstaklingar sem útsettir eru fyrir smiti utan heimilis síns einungis að fara í smitgát en börn og unglingar verða undanþegin smitgát.

Sóttkví mun áfram eiga við hjá þeim sem hafa verið útsettir fyrir smiti innan heimilis eða dvalarstaðar en þríbólusettir sem útsettir eru á heimili geta verið í smitgát sem lýkur með sýnatöku.

Kári segir í samtali við Fréttablaðið að hægt sé að fara í afléttingar á marga vegu og að engin ein leið sé sú rétta.

„Bæði sóttvarnalæknir og ríkisstjórn hafa verið mjög varkár frá byrjun þessa faraldurs og ég yrði hissa ef þau héldu því ekki áfram,“ segir Kári og bætir við að þetta sé erfið staða til að vera í, sóttvarnalæknir og ríkisstjórnin þurfi að taka ákvarðanir sem hafi áhrif á líf fólks og kunni jafnvel að hafa áhrif á heilsu fólks.

„Og ég skil mjög vel að þau skuli vera kvíðnari en ég sem ber ekki ábyrgð á neinu,“ segir Kári.