Ég reyndi nú að mestu að fela mig bak við grímu þegar ég var meðal almennings. Bæði var ég pínu feiminn og svo er ég mjög útsettur fyrir smiti vegna ónæmisbælingar og þurfti að fara varlega. Ef ekki væri fyrir Covid hefði ég verið knúsandi allt og alla,“ segir Guðmundur Felix Grétarsson, sem heldur af landi brott á morgun eftir annasama Íslandsheimsókn.
Margt hefur drifið á daga Guðmundar síðan hann kom til landsins um miðjan desember. Bókaútgáfa, fjölmörg viðtöl við fjölmiðla, hugvekja í Vídalínskirkju, forsetaheimsókn og heimsókn til sjúkraliða í Háskólanum, svo fátt eitt sé nefnt.
„Þetta er búin að vera mjög ánæguleg heimsókn. Fyrsta vikan var nokkuð strembin. Bæði vegna þess að France 3 var á staðnum og svo mikillar dagskrár,“ segir Guðmundur, sem hefur verið þjóðareign landsmanna í rúma tvo áratugi, en margir hafa aðstoðað kappann undanfarin ár við að láta draum sinn rætast, aðgerð sem talin er marka tímamót í læknavísindum.

11 mánuðir á sjúkrahúsi


„Ég hafði verið í 11 mánuði á sjúkrahúsi og svo bara heima hjá mér. Ég var því bæði spenntur og aðeins kvíðinn vikuna áður en ég kom. Svaf illa og dembdist svo hingað í brjálæðislega athygli.
Ég vissi svo sem vel að ég væri orðinn þjóðareign enda var það íslenska þjóðin sem gerði mér það kleift að elta þennan draum,“ segir Guðmundur, fullur þakklætis.
Þetta var í fyrsta sinn í sjö ár sem Guðmundur ver jólum hér á landi og heldur hann aftur til Frakklands á morgun, en stefnir að því að koma aftur á sumarmánuðum.

„Ég get ekki lýst því með orðum hvernig það var að knúsa dætur mínar og barnabörn,“ segir Guðmundur.