Lovísa Arnardóttir
lovisaa@frettabladid.is
Laugardagur 26. nóvember 2022
12.00 GMT

„Áður en þetta gerist hafði verið álag á bæði mér og í vinnunni,“ segir Garðar um nóttina sem hann fékk heila­blóð­fallið.

Hann segist hafa mætt um kvöldið á vaktina og ekki hafa fundið fyrir neinu ó­venju­legu til að byrja með.

„Ég var í símanum við skrif­stofu­stjóra Fangelsis­mála­stofnunar rétt fyrir mið­nætti og þá varð ég var við það að ég missti máttinn í vinstri hendinni,“ segir Garðar og heldur á­fram:

„Ég hélt að þetta væri bara ein­hver þreyta og þegar húsið var orðið ró­legt fór ég að leggja mig. Það var enginn með mér.“

Enn mátt­laus um morguninn

Garðar vaknaði svo um morguninn og græjaði húsið.

„Ég gerði morgun­mat og fór heim og lagði mig aftur. Þegar ég vaknaði um hálf tólf var engin breyting og ég var enn mátt­laus í annarri hendinni.“

Hann segir að sér hafi þótt það ó­venju­legt og viður­kennir að hafa gúglað að þetta gæti verið blóð­tappi en hafa aldrei órað fyrir því að þetta væri svo al­var­legt.

„Ég fór á heilsu­gæsluna og sagði við þær í mót­tökunni að ég þyrfti að hitta lækninn. En þær horfðu á mig og sögðu strax: „Eigum við ekki að hringja í sjúkra­bíl?“ Þær sáu strax að eitt­hvað var að og ég vil meina að ef ein­hver hefði verið með mér á vaktinni þá hefðu þau strax séð það sama og þær,“ segir Garðar.

Spurður hvort fangarnir hefðu getað hjálpað segir hann þá löngu komna í ró á þessum tíma og að þeir hefðu ó­lík­lega orðið þess varir ef eitt­hvað hefði verið að hjá honum.

„Ég hefði þess vegna getað dáið í sófanum og það hefði þá upp­götvast þegar fangarnir komu fram um morguninn,“ segir Garðar.

Hvað hefðu þeir getað gert?

„Ekki neitt, nema að taka símann minn og hringja. Næsti starfs­maður kemur ekki fyrr en klukkan átta og þetta er að gerast um mið­nætti,“ segir Garðar.

Mynd af Garðari sem fylgdi viðtali við hann árið 2018 eftir að hann fékk heilablóðfall einn á vaktinni.
Fréttablaðið/Jóhanna

Hættu­legt að vera einn

Fjallað var um at­vikið í fjöl­miðlum þegar það átti sér stað og þá sagði Garðar að oft hefði verið bent á hættuna sem fylgir því að að­eins einn fanga­vörður sé á vakt á Kvía­bryggju á nóttunni, bæði fyrir fanga­vörðinn og fyrir fangana.

Hann segir að allt frá þessu at­viki, og fyrir, hafi verið óskað eftir öðrum starfs­manni á vaktina en að það eina sem þeim hafi verið boðið í staðinn var að fanga­verðir á Hólms­heiði myndu fylgjast með að­stæðum í fangelsinu í mynda­véla­kerfi.

„Þeir hafa yfir­drifið nóg að gera og við sögðum nei,“ segir Garðar og því varð aldrei af því.

Hann segir að hann hafi vissu­lega orðið hræddur eftir að þetta kom fyrir en að það hafi aldrei komið til greina að hætta.

„Þetta sparkaði dá­lítið í mann og síðan þetta gerðist höfum við verið að berjast fyrir því að þetta sé lag­fært,“ segir Garðar og að það eina sem hafi breyst sé að vöktunum var breytt á þann hátt að einn starfs­maður er frá klukkan 00.30 til klukkan 07.00.

„En um há­nóttina erum við enn einir. Það er sex og hálf klukku­stund.“

Fangarnir sjá um að kindurnar séu hirtar og fái að borða.
Mynd/Tómas Freyr

Lítið öryggi og engin betrun

Garðar hefur í gegnum tíðina, sem trúnaðar­maður fanga­varða, talað mjög opin­skátt um þann gríðar­lega vanda sem fanga­verðir standa frammi fyrir með skertu fjár­magni til fangelsanna. Niður­skurður hjá Fangelsis­mála­stofnun sé kominn inn að beini og farinn að koma niður á rekstri í fangelsum landsins. Hann segir stjórn­mála­menn hundsa mála­flokkinn og að hvorki sé hægt að tryggja öryggi í fangelsum landsins né betrun fanga. Sem dæmi hafa á þessu ári verið gerðar þrjár líkams­á­rásir á fanga­verði, þar af tvær al­var­legar.

Garðar segir að það sé ekki út­lit fyrir að það muni nokkuð breytast á næstunni því fangelsis­mála­stjóri hafi boðað niður­skurð og að mögu­lega eigi að loka fangelsunum að Sogni eða Kvía­bryggju til að minnka kostnað, þannig sé hægt að fækka föngum og fanga­vörðum.

„Það sparast með þessu peningur og hægt að færa til störf. Það er það sem gerðist þegar fangelsinu á Akur­eyri var lokað, en sá peningur er búinn núna.“

En þýðir þetta ekki lengri bið í af­plánun?

„Jú, al­ger­lega. Ef það er fækkað um fanga á hverju ári felst sparnaður í því auð­vitað. Það eru um 340 manns á bið­lista í boðun og sá listi mun klár­lega lengjast ef vistunar­úr­ræðum verður fækkað.“

Opið fangelsi og að­gengi

Kvía­bryggja er skil­greind sem opið fangelsi og er þar hægt að vista alls 21 fanga. Í fangelsinu eru ekki rimlar fyrir gluggum né svæðið af­girt að nokkru leyti. Fangelsið er því mjög ó­líkt því sem er á Hólms­heiði og Litla-Hrauni og sam­kvæmt því er starf­semin öðru­vísi.

Á vef Fangelsis­mála­stofnunar segir að þar sé að finna rúm­góða setu­stofu, eld­hús, borð­stofu og góðan æfinga­sal. Fangar sjá um mats­eld. Auk þess þurfa þeir að vera til­búnir til að takast á við vímu­efna­vanda sinn og taka þátt í endur­hæfingar­á­ætlun og stunda vinnu eða nám.

Á Kvía­bryggju starfa níu fanga­verðir sem vinna á þrí­skiptum vöktum, tveir á morgun- og kvöld­vakt en einn frá mið­nætti til sjö á morgnana. Einnig er for­stöðu­maður og skrif­stofu­maður virka daga.

„Kvía­bryggja er öðru­vísi stofnun en önnur fangelsi. Þarna eru menn sem eru kannski í fyrsta skipti að eignast vini á lífs­leiðinni. Eftir heila­blóð­fallið fékk ég sím­töl frá nokkrum fyrr­verandi vist­mönnum sem vildu vita hvernig ég hefði það,“ segir Garðar og að fanga­verðir fái reglu­lega bréf frá fyrr­verandi föngum þar sem þeim er þakkað fyrir að gera þeim vistina bæri­lega.


Kvía­bryggja er öðru­vísi stofnun en önnur fangelsi. Þarna eru menn sem eru kannski í fyrsta skipti að eignast vini á lífs­leiðinni.


Stofnað sem vinnu­hæli

„Þetta var upp­haf­lega rekið sem vinnu­hæli og hefur í raun haldið þannig á­fram,“ segir Garðar.

Hann segir að reglu­lega komi er­lendir fanga­verðir til að skoða það sem þeir eru að gera. Hann segir að oft sé talað um Noreg þegar leita á fyrir­mynda í fangelsis­málum en þar er endur­komu­tíðni í fangelsi lægst í Evrópu.

„Við erum búin að vinna eftir þessu sama kerfi og í Noregi síðan ’54 og vorum lengi vel litnir horn­auga af öðrum deildum innan fangelsisins. Það hefur mikið breyst síðustu ár. Má þar nefna vinnu­stofur í hinum fangelsunum sem hafa verið vel nýttar. Dyrnar að varð­stofunni eru alltaf opnar og fangarnir hafa alltaf greiðan að­gang að starfs­mönnum. Út á það gengur þessi betrunar­vist. Það er með­ferðin og sam­talið,“ segir Garðar.

Hann segir að fangarnir í raun sjái um allt fangelsið. Eldi mat, þrífi og hugsi um kindurnar. Það sé að­eins sauð­fjár­girðing sem er meira ætlað að halda kindunum úti.

„Þeir vita alveg að þeir mega ekki fara út fyrir girðinguna. Það er betrunin. Þeir fá til­gang, traust og hlut­verk.“

Garðar segir starfið, þótt krefjandi sé, afar skemmti­legt og að hann njóti þess sér­stak­lega að sjá þegar betrunar­vistin hefur virkað.

Kirkjufellið gnæfir yfir fangelsinu.
Mynd/Tómas Freyr

Fanga­verðir eins og for­eldrar

„Ég segi alltaf að okkar hlut­verk sem fanga­verðir sé í raun að vera for­eldri. Það er okkar hlut­verk að sjá til þess að þeir taki lyfin sín, þrífi sig og tann­bursti og að þeir fari til læknis. Við metum líðan þeirra og eigum að grípa inn í þegar eitt­hvað er í gangi. Okkar hlut­verk er að vera for­eldri og þú gerir það ekki með lokaðar dyr. Þú þarft að vera í tengslum og þess vegna borðum við með þeim, drekkum kaffi og reykjum.“
Hann segir að­stöðuna þó alls ekki full­komna á Kvía­bryggju og nefnir sem dæmi heim­sóknar­að­stöðuna sem er engin.

„Við erum með mat­sal og setu­stofu og það er sam­eigin­legt rými fyrir alla. Menn eru að fá börnin sín í heim­sókn og á meðan er kannski ein­hver annar að horfa á fót­bolta. Þú getur ekki neins staðar verið einn með þínum gestum,“ segir Garðar.

Undan­farið hefur verið afar erfið staða í fangelsunum. Fyrr í vikunni sátu 62 í gæslu­varð­haldi vegna stungu­á­rásarinnar á Banka­stræti Club og annarra mála og greint var frá því í októ­ber að fresta þyrfti af­plánun fanga vegna mikils fjölda sem sat í varð­haldi, sem var þá 47.

„Það er í rauninni mjög slæmt þegar það þarf að fresta. Fólk er að koma jafn­vel þremur eða fjórum árum eftir að dómur fellur og margir eru á allt öðrum stað. Það er mjög slæmt fyrir bæði þá og fjöl­skyldur þeirra,“ segir hann.


Ég hef verið spurður hvort hægt sé að koma á ein­hverju um­bunar­kerfi en ég lít frekar á það þannig að fangarnir komi inn með hundrað prósent traust og það er þeirra að halda því trausti.


Fríðindi sem ekki allir skilja

Fangarnir sem af­plána á Kvía­bryggju eru alls konar og hafa brotið af sér með ýmsum hætti.

„Þeir fá fangelsis­dóma og það er hluti betrunar að fá að koma. Þeir eru til að byrja með í lokuðu úr­ræði, svo í opnu úr­ræði og svo á Vernd og svo í raf­rænu eftir­liti.“

Á Kvía­bryggju má vera með tölvu og far­síma og menn fá tæki­færi til að ná tengslum aftur við sam­fé­lagið.

Garðar segist hafa skilning á því að fólk, og sér­stak­lega þol­endur, hafi kannski ekki skilning á því að fangar hafi slíkan að­gang og frelsi en tekur fram að það sé mjög strangt á því tekið ef fangar mis­nota þetta. Í flestum til­fellum missa þeir tækin en í al­var­legustu til­fellunum eru menn sendir aftur í lokað úr­ræði.

„Það er tekið af þeim um leið og það er til­kynnt. Þeim þykja al­mennt þessi fríðindi mjög al­menni­leg og vilja ekki missa þau. Ég hef verið spurður hvort hægt sé að koma á ein­hverju um­bunar­kerfi en ég lít frekar á það þannig að fangarnir komi inn með hundrað prósent traust og það er þeirra að halda því trausti.“

Athugasemdir