Strætóbílstjóri segir að nú ríki einskonar hættuástand vegna ónægs snjómoksturs í Reykjavík. Vegna hans hafi margvísleg vandamál komið upp. Til að mynda eigi fólk erfitt með að komast í og úr Strætó og þá valdi snjór og klaki einnig umtalsverðum skemmdum á vögnunum.

Bílstjórinn segir í samtali við Fréttablaðið að eldra fólk, og aðrir sem ekki eru í góðu ásigkomulagi, eigi oft erfitt með að fara um borð í Strætó þegar stórir skaflar hafi myndast. Fólk þurfi oft að klifra upp skaflinn og síðan niður í strætisvagninn, sem geti verið erfitt. Staðann sé síðan enn verri fyrir fólk með barnavagna.

„Það er algjörlega borinn von. Fólk sem er með barnavagna það getur ekki notað Strætó þessa dagana.“ segir strætóbílstjórinn.

„Þetta er orðið svo hættulegt“

Hann segist hafa lent í því um daginn að ung kona hafi skrikað fæti og runnið og fótur hennar endað undir vagninum. Það hafi gerst í þann mund sem hann var að taka af stað, en náð að hætta við á síðustu stundu.

„Hefði ég keyrt af stað hefði ég farið yfir hana. Þetta er orðið svo hættulegt,“ segir hann og bendir á að þegar það rigni ofan á snjóinn og frysti síðan þá myndist klaki sem verði til þess að fleiri lendi í því sama.

Segir helming flotans hafa orðið fyrir skemmdum

Strætóbílstjórinn nefnir fleiri dæmi um hættur sem myndast vegna ónægs snjómoksturs, sem hann telur að sé ástæðan fyrir þessum vandræðum. Hann sendir Fréttablaðinu myndir þessu til stuðnings.

Á stórum stoppustöðvum sé til að mynda oft ekki búið að ryðja snjóinn nægilega mikið. Það verði til þess að sums staðar sé einungis pláss fyrir einn Strætisvagn þar sem jafnvel fjórir ættu að geta komið sér fyrir.

Þar að auki segir bílstjórinn að strætisvagnar séu að skemmast í miklu magni í þessu ástandi. Og telur að um helmingur Strætóflotans á höfuðborgarsvæðinu hafi orðið fyrir skemmdum.

Strætóbílstjórinn segir að Hverfisgata sé gríðarlega hættuleg aksturs, sérstaklega fyrir Strætó.
Fréttablaðið/Aðsend
Hér sést stór skafl sem gerir farþegum erfitt fyrir.
Fréttablaðið/Aðsend

Farþegar þreyttir á innantómum orðum

Trausti Breiðfjörð Magnússon, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, tekur í svipaðann streng á Facebook-síðu sinni.

„Fleiri myndu taka Strætó ef það væru einhverjir hvatar til þess en ekki bara yfirlýsingar. Þjónustuna þarf að efla, gjöld að lækka eða afnema og inniaðstaða farþega ætti að vera opin á kvöldin. Svo er það algjört lágmark að snjó sé mokað frá skýlunum. Það er ekki einu sinni gert. Farþegar eru orðnir þreyttir á innantómum orðum um hvað borgin standi sig vel í málum almenningssamgangna þegar þjónustan er lítil sem engin.“ segir hann.