Ali Alameri kemur frá Írak. Undanfarna mánuði hefur hann dvalið á Íslandi þar sem hann býður nú úrlausnar umsóknar sinnar um hæli hér á landi. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ali sækir um hæli hér á landi en hann var sendur úr landi í júní 2019 en kom aftur Ali starfaði með Bandaríkjaher í Írak og segist óttast ofbeldi málaliða á vegum Íransstjórnar í landinu sínu vegna aðstoðar sinnar við Bandaríkjamenn.
Ali dvelur í húsnæði Útlendingastofnunar á Grensásvegi og hefur undanfarnar vikur haft stórfelldar áhyggjur af sóttvarnarmálum í byggingunni þar sem rúmlega fjörutíu manns hafast nú við. Hann er sjálfur með sykursýki og óttast mjög afleiðingar þess smitist hann af COVID-19.
Í samtali við Fréttablaðið segir Ali að í kjölfar umfjöllunar Fréttablaðsins af sóttvörnum í húsnæðinu hafi Útlendingastofnun gert þar úrbætur. Hann dvelur nú einungis með einum öðrum manni í herbergi og íbúar hafa fengið sápustykki og grímur og annan sótthreinsibúnað. Ali segist vonlítill um að umsókn hans um hæli hér á landi verði á endanum samþykkt.
„Þau hafa sagt okkur það að deilum við fleiri upplýsingum með fjölmiðlum, verði viðkomandi rekinn úr húsinu. Ég er ekki hræddur við neitt. Ég hef upplifað margt og ef þeir reka mig þaðan út þá mun ég lifa á götunni og það er ekkert nýtt fyrir mér, ég hef gert það áður,“ segir Ali um stöðu sína gagnvart Útlendingastofnun.
Barðist með hinum viljugu þjóðum
Ali er fæddur árið 1987 og bjó hann í Babýlon í Írak til ársins 2015 þegar hann flúði land sitt. Hann hóf störf fyrir Bandaríkjaher sem þýðandi árið 2005 og vann síðar meir fyrir bandarískt olíufyrirtæki.
Hann segir að vegna starfa sinna fyrir Bandaríkin og sameiginlegan herafla hinna viljugu þjóða hafi staða hans orðið hættuleg í landinu eftir að málaliðar studdir af Íransstjórn hafi tekið völdin í heimaborg hans.
„Vegna þessa varð ég að velja; dauða eða að yfirgefa landið mitt,“ segir Ali. „Þeir fengu aðgang að upplýsingum yfir alla þá sem starfað höfðu með Bandaríkjaher, nöfn þeirra, upplýsingar og allt saman. Vegna þessa varð það hættulegt fyrir mig og yfirgaf ég Írak.“

Taldi sig geta leitað skjóls á Norðurlöndum
Hann segir frá því að sér hafi verið bent á að hann gæti fengið vegabréfsáritun til Bandaríkjanna, hafandi unnið með Bandaríkjamönnum. Hann hafi sótt um slíkt árið 2010 en nú árið 2021 hafi hann engin svör fengið.
Ali lýsir því hvernig hann yfirgaf heimaland sitt í kjölfarið og hélt yfir til Tyrklands. Þar hafi hann reynt að verða sér úti um vinnu án árangurs. „Vandamálið er að ég er veikur, ég er með sykursýki eitt og þarf því að sprauta mig með insúlíni og get því ekki lifað peningalítill,“ útskýrir Ali.
„Þess vegna tók ég áhættu og fór í bát yfir til Grikklands. Í Grikklandi kom ég mér yfir Evrópu þar sem ég kom að lokum til Noregs. Ég fór til Noregs því það er Skandinavíuland. Norðmenn tóku þátt í aðgerðum Bandaríkjanna og vegna sambands Norðmanna við Bandaríkin sótti ég um hæli þar.“

Dauðadómur að vera sendur heim
Ali lýsir því hvernig honum var neitað um hæli í Noregi árið 2018. Ástæðan sú að Írakar sem starfað höfðu með Bandaríkjaher voru ekki taldir í sérstakri hættu fyrir heima fyrir, þrátt fyrir að Bandaríkjaher hefði yfirgefið landið.
„Ég benti þeim á að þetta þýddi ekki að málaliðarnir myndu ekki drepa mig þrátt fyrir þetta. Ef þú gúgglar ástandið í Írak geturðu lesið þér til um það hvernig málaliðarnir drepa ótalmarga á götum úti ef þeir aðhyllast ekki Íslam, eins og ég.“
Ali kom því næst til Íslands, til þess að forðast það að vera sendur aftur í dauðann í heimalandi sínu. Íslensk yfirvöld hafi sagt honum að á grundvelli Dyflinnarreglunnar bæri þeim að senda hann til baka til Noregs.

„Ég er heppinn með lögmann sem gat svo komið í veg fyrir það að ég yrði sendur aftur til Írak þegar ég var kominn aftur til Noregs. Þar var mál mitt opnað og mér boðið pláss í flóttamannabúðum. Eftir fjögurra mánaða bið var umsókn minni þar hinsvegar hafnað aftur.“
Ali segir að hann hafi látið sig hverfa úr húsnæði yfirvalda í Noregi að morgni dagsins sem lögreglumenn áttu að fylgja honum út á flugvöll, þaðan sem senda átti hann til Írak. Ali áréttar að hann geti undir engum kringumstæðum snúið aftur til síns heima, þar sem bíði hans ekkert nema dauði.
„Og að því frátöldu þá eru aðstæður í Írak þannig að það er ekki einfalt mál að verða sér úti um insúlín þar,“ segir Ali. „Ég frétti af flóttamanni sem Bandaríkjamenn sendu til baka til Írak sem gat ekki útvegað sér insúlín og eftir tvær vikur lét hann hreinlega lífið.“
Handlangaður af „lögreglumanni“
Ali útskýrir að hann hafi auk þess lýst opinskátt skoðunum sínum og andstöðu við stjórnarfar í Írak. Hann hafi í kjölfarið metið sem svo að líf hans væri í hættu í heimalandinu.
Hann segist þó binda litlar vonir við að umsókn sín um dvalarleyfi verði samþykkt á Íslandi nú og óttast að hann verði sendur til baka til Noregs, í annað skiptið.
„Ég var heimskur og átti í útistöðum við íslenska stjórnmálamenn, en Ísland er eina landið í Evrópu þar sem er ekki írakskt sendiráð og því tel ég mig öruggan hér,“ segir hann.
Útistöðurnar sem Ali vísar til er opinn fundur Sjálfstæðisflokksins um þriðja orkupakkann sem hann sótti í apríl árið 2019. Fundinn sátu Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, þáverandi dómsmálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarsson, utanríkisráðherra.
Líkt og Fréttablaðið greindi frá á sínum tíma mættu hælisleitendur á fundinn til að krefja ráðherra svara eftir að ráðherra hafði ítrekað hundsað beiðni þeirra um að funda með þeim.
Fjallað var ítarlega um atvikið þegar það átti sér stað en það náðist á myndskeið og Vilhjálmur Þorsteinsson, hugbúnaðarhönnuður, sem tók myndbandið, birti það á Facebook síðu sinni.
Í myndbandinu má sjá hvar mennirnir eru beðnir um að fara eftir reglum fundarins og beðnir um að yfirgefa salinn.
„Við munum ekki hringja í lögregluna vegna þess að þessir herramenn þarna eru lögreglan,“ sagði Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs og fundarstjóri meðal annars um menn sem ekki voru lögreglumenn.
Tveimur mánuðum síðar, í júní 2019, var Ali vísað úr landi. Mótmæltu Samtökin Ekki fleiri brottvísanir því harðlega en Ali kærði mann sem veittist að honum á fundinum.
Bentu samtökin á að mál Ali væri inni á borði héraðssaksóknara en að engar skýrslutökur hefðu átt sér stað. Ali segir að hann hafi ekki heyrt neitt vegna málsins, rúmlega einu og hálfu ári síðar. Hann ætlar sér að kanna hvort hægt sé að reka málið fyrir norskum dómstólum í staðinn.
„Ég hyggst svo funda með lögfræðingum mínum og færa málaferlin héðan yfir til Noregs því að ég tel að ekkert verði gert í þessu hér,“ segir Ali.
Hann segist rekja það til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tögl og haldir í lögreglunni og íslenska réttarkerfinu.
„Hér óttast lögreglan opna rannsókn á þessu máli vegna þess að þetta er Sjálfstæðisflokkurinn og flokkurinn á dómsmálaráðherra. Svo ég mun sækjast eftir því að færa málið til Noregs. Því að Noregur er lýðræðisríki. Noregur er frjálst ríki og þar ber fólk virðingu fyrir lögunum,“ segir hann.
„Hér hélt ég að staðan væri sú sama. Að hér væri réttlæti. En það er ekkert réttlæti hér. Og ég er ekki hræddur við að segja það. Ég hef hitt marga Íslendinga og þeir segja nákvæmlega það sama. Þeir vita að það er spillingu að finna meðal allra stjórnmálamanna hér á Íslandi.
Meira að segja fólk sem þolir ekki innflytjendur, þau sem eru rasistar. Jafnvel þau segja að það sé spillingu að finna hjá yfirvöldum.“
Ísland minni á ríki í Miðausturlöndum
Ali segir að verði sér vísað til baka frá Íslandi nú og aftur til Noregs, muni hann ekki sækja um hæli hér að nýju.
„Jafnvel þó ég yfirgefi landið fyrir hættulegri stað, mun ég ekki koma aftur,“ segir hann.
„Ísland er eins og land í Miðausturlöndum. Mér líður eins og ég sé í Írak. Þar þýðir það að eiga vin meðal yfirvalda að þú munir hafa það gott, en ef þú átt ekki vin muntu verða fátækur. Þetta er raunveruleikinn. Ég hef félagsfærni, ég þekki fólk í kirkjunni hér og þekki fólk víðsvegar að úr samfélaginu og þau segja öll það sama,“ segir hann.

„Mitt mál er fimmtán mánaða gamalt og engin rannsókn einu sinni hafin. Hvers vegna? Jú, vegna þess að því er beint gegn stjórnmálamönnum.“
Ali segir þetta athyglisvert, í ljósi þess að það hafi verið Sjálfstæðisflokkurinn sem staðið hafi að baki stuðningi Íslands við innrás hinna viljugu þjóða inn í Írak árið 2003. Það svíði því að umsókn hans um hæli sé ekki samþykkt af dómsmálaráðuneyti undir stjórn flokksins.
Segir Katrínu segja eitt en gera annað

Því næst ber talið að Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands. Ali segist hafa hitt hana tvisvar, á tveimur fjöldafundum meðal annars hjá Samtökunum '78.
„Hún er mjög góður hlustandi. En hún veit ekki hverju hún á að svara,“ segir hann.
„Á báðum fundum sagðist hún myndu reyna. En hún virðist gera hlutina þvert gegn því sem hún segir.“
„Algjörlega,“ svarar Ali aðspurður um það hvort hann telji Katrínu tala á annan hátt en raunveruleikinn sem felur í sér hegðun stjórnvalda gegn hælisleitendum ber með sér.
„Í raunveruleikanum að þá vann ég fyrir Bandaríkjamenn. Svo sé ég Katrínu funda með Mike Pence. Þau líta út eins og bestu vinir og hún segir Íslendinga opna fyrir samstarfi við Bandaríkjamenn og hafi alltaf verið það. Ég er hluti af því! Af hverju verndið þið mig ekki? Það er synd og skömm að njóta allt í einu ekki trausts.“
Ekki glæpamaður en fær samt lögreglufylgd
Ali segist upplifa mótttökurnar sem hann hafi fengið við umsókn sinni um hæli mjög ósanngjarnar.
„Í Noregi var ég á göngu um götuna og ég sá einn af leiðtogum ISIS. Hann fékk hæli í Noregi,“ segir hann. Ali segist hafa reynt að benda á að þar væri einn af forkólfum hryðjuverkasamtaka, án nokkurra afleiðinga fyrir manninn.
„Ég sá hann. En ekkert kom fyrir hann þó ég segði öllum frá því! Hann var í ISIS. Hann fékk hæli. Svo horfi ég á sjálfan mig og ég fæ ekki hæli. Hefði ég átt að vinna fyrir ISIS til að fá hæli?“

Ali viðurkennir að hann upplifi sig hér sem glæpamann sem hælisleitandi. Hann segir það eitt af því erfiðasta við það að vera flóttamaður. Hann hafi alltaf langað til að vera dómari í heimalandinu og menntað sig til að ná markmiðum sínum um að gera gott.
„En þegar manni líður eins og maður hafi ekki gert neitt af sér, ekki gert nein mistök og þrátt fyrir það fylgist lögreglan með manni....það er það erfiðasta, að upplifa þær tilfinningar.“
Hann bendir á að hann hafi gert margt fyrir bandaríska herliðið, tekið þátt í orrustum og lent í ýmsum lífshættulegum aðstæðum vegna starfa sinna í Írak.
„Hér er ég með sprengjubrot,“ segir Ali og bendir á kvið sinn. „Ég er líka með eitt slíkt í fætinum. Ég hef engan aðgang að heilbrigðisþjónustu til að láta fjarlæga þetta í Noregi.
Jafnvel hér er ég bara með heimilislækni og hef ekki aðgang að neinu öðru. Það eru frábærir læknar hér en ég þarf á sérfræðiþjónustu að halda. Vegna þess að þegar er kalt í veðri meiðir þetta mig mikið. Og ég fékk þetta í samstarfi við Bandaríkjamenn, sem Íslendingar studdu!“

Fjölskyldan lætur eins og hann sé ekki til
Ali segir aðspurður að hann hafi ekki gert sér grein fyrir þeim örlögum sem hann hafi skapað sjálfum sér með því að aðstoða Bandaríkjamenn. Honum hafi verið talin trú um að hann myndi njóta verndar um aldur og ævi. Staðan í dag sé hinsvegar sú að jafnvel hans nánasta fjölskylda hafi orðið að afneita honum á samfélagsmiðlum til að tryggja sitt eigið öryggi.
„Því þau vilja ekki að það sjáist að við tengjumst. Þau þurfa að vernda sig vegna mín,“ segir hann. „Jafnvel þegar ég yfirgaf Írak hugsaði ég að ég gæti bara kynnt mig sem Ali, fyrrverandi þýðanda Bandaríkjahers og fengið hæli um leið. Því ég stóð mig vel og gat sýnt fram á gögn um það að ég hefði starfað með þeim,“ segir Ali.
Hefði hann vitað þetta hefði hann gert hlutina öðruvísi. „Hefði ég vitað að þetta hefði beðið mín hefði ég valið að dveljast áfram í Írak og deyja í Írak. Sleppa því að koma til Evrópu í stað þess að koma hingað.
Því eftir að maður kemur hingað verður maður virkur á samfélagsmiðlum gegn stjórnmálamönnum og íslömsku reglunum og þá versnar staða manns. Maður getur ekki snúið til baka. Og maður getur ekki heldur dvalist hér. Svo ég er bara fastur.“

Ekki sá eini
Ali er ekki eini flóttamaðurinn sem er í þeirri aðstöðu að hafa aðstoðað Bandaríkjamenn í stríðum þeirra í Miðausturlöndum og í kjölfarið þurft að flýja heimalönd sín.
Hann er einn af þúsundum Afgana og Íraka sem eru í nákvæmlega sömu stöðu enWashington Postbirti nýverið ítarlega umfjöllun um stöðu hópsins. Í umfjöllun miðilsins kemur fram að vera Donald Trump á forsetastóli og aðgerðarleysi hans í málaflokknum hafi gert stöðu hópsins enn verri undanfarin ár.
Mikið muni mæða á Joe Biden, verðandi forseta og segir í umfjölluninni að flóttamennirnir bindi vonir við að Biden muni taka mál þeirra upp að nýju. Benda margir á að hótanir í þeirra garð og áreitni hafi einungis versnað í kjölfar ákvörðunar Trump um að draga til baka herlið Bandaríkjamanna frá stöðum þar sem það hefur verið síðastliðin tuttugu ár.

„Ég þjáðist mjög eftir að hafa verið þýðandi hjá Bandaríkjaher og fjölskylda mín líka,“ hefur miðillinn eftir Abdullah A sem starfaði í nákvæmlega sömu stöðu og Ali. Í frétt bandaríska miðilsins segir að talið sé að um 17 þúsund Afganir og 100 þúsund Írakar séu nú á vergangi vegna þeirrar hættu sem þau eru í eftir að hafa starfað með Bandaríkjamönnum.
„Jafnvel fólk sem sótti um vernd undir lok kjörtímabils Obama er enn að bíða, eða þá að vegabréfsáritun þeirra var hafnað af engri ástæðu af Trump ríkisstjórninni,“ segir Janis Shinwari, fyrrverandi túlkur bandaríska heraflans í Afganistan en hann býr nú í Bandaríkjunum.
Líkt og Ali hefur sjálfur lýst, sótti hann um vegabréfsáritun í Bandaríkjunum árið 2015, án þess að heyra nokkuð um umsókn sína. „Það gerðist ekki fyrir Trump stjórnina að vegabréfsáritunum var hafnað af engri ástæðu. Nú veit ég um hundruð dæma,“ segir Janis.

Hefur miðillinn eftir Deepa Alagesan, lögfræðingi hjá alþjóðahjálparsamtökum fyrir flóttafólk, að einstaklingar lendi ítrekað í því að heyra ekkert í tvö eða þrjú ár. „Það virðist fara eftir því hver fer yfir umsóknina,“ segir Megan McDonough, lögfræðingur sem aðstoðað hefur Afganska og Írakska umsækjendur.
Í umfjöllun Washington Post kemur fram að ríkisstjórn Trump hyggist taka á móti 15 þúsund flóttamönnum árið 2021, sem sé lægsta tala í sögu Bandaríkjanna. Biden hafi hinsvegar heitið því að snúa til baka áherslum Trump í málefnum bandaríska ríkisins sem snúa að mótttöku flóttafólks og Antony Blinken, væntanlegur utanríkisráðherra, lofað því að taka á móti fleirum þó óljóst sé í hverju það felst á þessum tímapunkti.
Vísað er til þess að gagnrýnin á vegabréfsáritunarkerfi Bandaríkjanna og seinagang þess sé að finna beggja vegna flokkakerfisins í Bandaríkjunum. Zia Ghafoori, afganskur þýðandi sem starfaði með Bandaríkjaher beið í sex ár eftir sinni umsókn.
„Ég veit um fullt af þýðendum sem unnu með mér sem hafa ekki enn fengið vegabréfsáritun og að sjálfsögðu er líf þeirra í hættu í hverja einustu sekúndu,“ segir hann.
Vill ekki vera flóttamaður
„Ég hef sótt tíma hjá sálfræðingi,“ segir Ali. „Ég segi aldrei nafn lands míns, ég kalla þetta bara „landið mitt.“ Ég segi ekki nafn þess. Því þegar ég leita uppi fréttir af landinu mínu þarf ég að rita nafn þess.
Þegar maður gerir það sér maður hversu margir hafa dáið, hversu margir hafa verð myrtir. Að það er ekkert rafmagn, fólk sem er ekki með störf, sem sefur á götunni, sem á ekki mat, sem er ekki með hreint vatn og fólk sem hefur ekki aðgang að lyfjum. Staðreyndir sem fylgja allar nafni lands míns.“

Er eitthvað sem þú myndir vilja segja við íslensku þjóðina að lokum?
„Já, það er góð spurning, kærar þakkir. Sumir hafa brugðist mjög vel við hjálparbeiðnum á samfélagsmiðlum. Aðrir vilja ekki hjálpa flóttafólki vegna þess að hjálpin eigi að berast Íslendingum. En hvað mig varðar, að ef ég kem hingað þá vil ég ekki bara sitja og borða. Ég kem hingað, ég er með menntun og get unnið. Þetta er það fyrsta.
Í öðru lagi vil ég ekki vera flóttamaður. Því ég átti allt til alls í mínu landi. En vegna þess að ég hjálpaði Íslandi, Noregi og Bandaríkjunum varð staða mín svona. Ég er ekki öfgamúslími. Ekki halda að allt flóttafólk sé þannig, eitthvað öfgafólk. Okkur vantar bara samastað og á sama tíma viljum við vinna fyrir landið okkar og samfélagið sem veitir okkur þessa vernd.
Ég vildi að ég gæti farið aftur til landsins míns og að það væri öruggt fyrir mig. En ég missti allt. Ég missti húsið, þeir frystu reikninginn minn svo ég missti allan peninginn minn. Ég var í meistaranámi og gat ekki klárað. Ég missti fjölskylduna mína og starfið mitt. Ég missti heilsuna því ég get ekki lifað án lyfjanna. Ég missti allt. Ég á ekkert og þegar mér er sagt að ég eigi bara að búa einhversstaðar, spyr ég hvar þegar landið ykkar var hluti af þessu.“
Finnst þér eins og Ísland beri ábyrgð á aðstæðum þínum?
„100 prósent. En ég er ekki að segja að það sé bara Ísland. Það voru önnur lönd líka. Og ef það væri leið fyrir mig til að fara til Bandaríkjanna myndi ég fara á morgun,“ segir hann.
Aðspurður segist hann myndu vilja fara bara hvert sem er. Hann bendir á að áður en hann var sendur af landi brott í júní hafi hann verið búinn að fá sér vinnu hjá verktakafyrirtæki.
„Nákvæmlega. Þegar ég segi að ég vilji leyfi til þess að fá að dveljast hér er ég ekki að segja að ég vilji að ríkið borgi allt fyrir mig. Alls ekki. Síðast þegar ég var á Íslandi fékk ég atvinnuleyfi og fékk vinnu hjá fyrirtæki í Keflavík. Ég var að bíða eftir kennitölu og átti að fá hana á þriðjudegi. Á mánudegi var ég sendur aftur til baka til Noregs.“