Mikið mildi þykir að ekki fór verr fyrir brotaþoli í lífshættulegri stunguárás á Sushi Social í fyrra.
Þrítugur karlmaður var á dögunum dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi fyrir sérstaklega hættulega hnífaárás á veitingastaðnum.
Árásin gerðist 6. apríl 2021 en þar veittist maðurinn að öðrum manni inni á staðnum og stakk hann ítrekað með hnífi. Brotaþoli hlaut fimm djúpa skurði á axlir og handleggi, tveir þeirra náðu niður í vöðva.
Myndband af árásinni fór í dreifingu um samfélagsmiðla skömmu eftir árásina þar sem árásarmaðurinn sást rjúka upp úr sæti sínu og ráðast á brotaþolann.
Læknir sagði fyrir dómi að áverkarnir hefðu verið lífshættulegir í þeim skilningi að brotaþola hefði blætt út hefði hann ekki leitað aðhlynningar.
„Brotaþoli, sem er sterkbyggður og hraustlegur, átti fullt í fangi með að halda aftur af ákærða sem hjó viðstöðulaust með hnífnum. Var því augljóslega um varnaráverka að ræða,“ segir í niðurstöðum dómsins.
Árásarmaðurinn var auk fangelsisdóms dæmdur til að greiða manninum 500 þúsund krónur í miskabætur.
Maðurinn á áratuga langan sakaferil að baki en hann komst í fréttir í fyrra þegar hann hljóp inn á kaffistofu Samhjálpar í Borgartúni og ógnaði fólki þar inni með hlaðinni skammbyssu.
Samkvæmt sakavottorði mannsins hefur hann tíu sinnum hlotið skilorðs- eða óskilorðsbundna refsingu með ýmist fangelsisdómum eða sektum.
Hann var í október í fyrra dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni, hættubrot, vopnalagabrot, fíkniefna-, lyfja-og sviptingarakstur.
Árið 2017 var hann sakfelldur fyrir fíkniefna-tollalaga-og umferðarlagabrot og honum gert að sæta fangelsi í tuttugu og tvo mánuði.
Árið 2016 var hann dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot og brot gegn valdstjórninni.
Árið 2015 var hann dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot, þjófnað og umferðarlagabrot.