Auður Guðbjörnsdóttir, bóndi á Búlandi í Skaftárhreppi, segir fullt tilefni til að hafa áhyggjur af vatnsmagninu sem kemur til með að flæða niður frá jöklinum eftir að hlaup hófst í morgun í eystri Skaftárkatli.

„Þetta er ekki gæfuleg staða eins og þetta lítur út núna. Það er enn svo mikið vatn í ánni eftir hlaupið í vikunni og það verður ekki glæsilegt að fá þetta vatn til viðbótar,“ segir Auður en eystri ketillinn er stærri en sá vestari og því má búast við talsverðu vatnsmagni á morgun þegar vatnið á að fara að flæða niður.

„Þegar hann hleypur í kjölfarið á vestari katlinum þá hefur áin sjatnað svo lítið. Það er enn rúmlega 300 rúmmetrar á sekúndu við Sveinstind sem er ansi mikið vatn. Ef þetta kemur ofan í það erum við að horfa á að þetta flæði mjög fljótt upp á vegi og yfir tún,“ segir Auður.

Hún segir að auk þess hafi þau nokkrar áhyggjur af þremur brúm sem eru staðsettar inni í Skaftárdal.

„Maður er hræddur um að þær þoli þetta ekki, ef vatnið verður mikið.“

Enn talsvert af búfénaði á svæðinu

Auður segir að á svæðinu hafi verið áætlað að fara í smalamennsku eftir rúma viku og þess vegna sé búfénaður enn á gangi á svæðinu. Hún segir að bændur á svæðinu hafi farið af stað í dag til að smala á svæðum sem gæti flætt yfir.

„Svo þarf að fylgjast með því og það er eins niðri í sveitum og hjá okkur að það er sauðfé út um allt í úthaga sem þarf að fylgjast með,“ segir Auður.

Hún segir að þeim hafi verið tilkynnt í morgun að ketilinn væri farinn að síga og það taki yfirleitt vatnið um tuttugu klukkustundir að komast frá katli og niður að jökulrótum.

„Það er enn ekkert að sjá að þetta sé komið undan jökli þannig við erum róleg enn þá,“ segir Auður en því hefur verið spáð að vatnið nái að þjóðveginum seint á morgun.

Hætta á að þjóðvegurinn lokist

Enginn sérstakur viðbúnaður er á svæðinu eins og stendur en að sögn Auðar hafa björgunarsveitir við þessar aðstæður verið kallaðar út upp á hálendi.

„Hálendisgæslan hefur verið fengin til að rýma svæði næst ánni, upp á Fjallabaki og frá Sveinstindi og niður undir Hólaskjól. Þar er gönguleið sem þarf að fylgjast með, en aðallega út af brennisteinsmengun,“ segir Auður og bætir við að hjá Búlandi og nærri annarri byggð sé ekki gripið til neinna ráðstafanna fyrr en vatnið kemur niður og þau sjá hversu mikið magnið er.

„Það er auðvitað alltaf hætta á því að þjóðvegurinn lokist. Það er ekkert vitað fyrr en á morgun,“ segir Auður.

Hún segir að það sé lítið annað hægt að gera en að bíða og sjá.

„Maður verður bara að fara að sofa og sjá hver staðan er þegar maður vaknar. Ef maður hefði fengið einhverju ráðið hefði maður beðið móðir náttúru að bíða aðeins með þetta. Það hefði verið fínt að fá þetta eftir smalamennskuna,“ segir Auður að lokum.