Donald Trump segist hefðu fengið betri sæti í jarðar­för Elísa­betar en Joe Biden, eftir­maður hans í em­bætti for­seta Banda­ríkjanna. Hann „myndi ekki vera um­kringdur leið­togum þriðja heims ríkja.“

Um­mælin eru ekki síst at­hyglis­verð fyrir þær sakir að Joe Biden og Jill Biden sátu rétt hjá Guðna Th. Jóhannes­syni og Elizu Reid, for­seta­hjónum Ís­lands. Svo virðist því vera sem Trump þyki ekki mikið til Ís­lands koma ef marka má um­mæli for­setans fyrr­verandi og mynd sem hann birtir með færslunni.

„Þetta er það sem hefur komið fyrir Ameríku á tveimur stuttum árum. Engin virðing! Hins­vegar góður tími fyrir for­setann okkar að kynnast leið­togum nokkurra þriðja heims ríkja,“ skrifar Trump á sam­fé­lags­miðilinn sinn.

„Ef ég væri for­seti, þá hefðu þeir ekki sett mig alla leiðina þarna aftast - og landið okkar væri mjög ó­líkt því sem það er ein­mitt núna!“

Festist í um­ferð

Ef marka má er­lenda miðla líkt og Sky News og Time Magazine þá sat banda­ríski for­setinn í fjór­tándu röð í gær af tvennum á­stæðum.

Annars vegar er hefðin sú að full­trúar er­lendra konungs­fjöl­skyldna eru í for­gangi og þar á eftir eru leið­togar ríkja sem til­heyra breska sam­veldinu, líkt og Justin Tru­deau, for­sætis­ráð­herra Kanada og Ja­cinda Ardern, for­sætis­ráð­herra Nýja- Sjá­lands.

Time Magazine segir hins­vegar að for­setinn hafi auk þess verið seinn í jarðar­förina þar sem hann hafi ferðast þangað í sér­út­búnum öryggis­bíl sem kenndur er við „dýrið“ (e. the beast).

Þjóðar­leið­togar hafi átt að mæta á milli 9:35 og 9:55 og það hafi þeir gert, enda allir skikkaðir í rútu að West­min­ster Abbey. Biden hjónin hafi hins­vegar ekki mætt fyrr en 10:07 og því labbað inn á eftir breskum her­liðum sem tóku þátt í upp­hafi at­hafnarinnar. Því hafi hjónin þurft að sætta sig við fjór­tándu röðina.