Þrjár konur í Flokki fólksins á Akureyri saka allar flokksbróður sinn, Hjör­leif Hall­gríms­son Her­berts­son, um endur­tekið og al­var­legt kyn­ferðis­of­beldi. Þetta er meðal þess sem fram kom á blaða­manna­fundi kvennanna þriggja nú fyrir skemmstu.

Mál­fríður Þórðar­dóttir, Tinna Guð­munds­dóttir og Hannesína Scheving efndu til blaða­manna­fundar í dag vegna á­sakana þeirra á hendur fram­bjóð­endum Flokks fólksins um kyn­ferðis­of­beldi og umræðunnar í kjölfar þeirra.

Þar sögðu þær meðal annars að Hjör­leifur hefði í­trekað reynt að fá eina þeirra til að verja með sér kvöld­stund ein­samalli. Þegar hún benti á að hún ætti lítið barn þá benti hann á að barnið gæti komið með, að því er fram kom á fundinum.

Þá hefði Hjör­leifur full­yrt að hann hefði aldrei lagt hönd á konur nema í rúminu.

Einnig kom fram á fundinum að Jón Hjartar­son og Brynjólfur Inga­son hefðu ekki gert neitt til að leysa málið þegar þær upp­lýstu um kyn­ferðis­lega á­reitni Hjör­leifs.

Þá hefði Brynjólfur, sem er fyrr­verandi geð­læknir, sagt þeim að starfs­leyfi þeirra kynni að vera í hættu þegar þær kvörtuðu undan Hjör­leifi. Konurnar þrjár eru allar heil­brigðis­starfs­menn.