Birna Dröfn Jónasdóttir
Laugardagur 5. febrúar 2022
07.00 GMT

Í upphafi þessa árs sagði Vítalía Lazareva sögu sína í hlaðvarpinu Eigin Konur. Þar sagði hún frá sambandi sínu við giftan mann og ofbeldi sem hún varð fyrir. Í kjölfarið á útgáfu þáttarins varð Vítalía þekkt á einni nóttu og samfélagið brást við sögu hennar á annan hátt en margir bjuggust við.

Vítalía nafngreindi ekki mennina sem koma fyrir í sögu hennar en ekki leið á löngu þar til nöfn þeirra komu upp á yfirborðið og afleiðingarnar urðu ólíkar því sem tíðkast hefur í íslensku samfélagi. Mennirnir fimm sem nafngreindir voru fóru í leyfi eða hættu í störfum sínum og Vítalía hlaut stuðning úr hinum ýmsu áttum og upplifði það að fólk trúði sögu hennar.

Í október á síðasta ári greindi Vítalía lauslega frá sögu sinni á Instagram og segir hún að þá hafi hana langað til að segja ítarlegar frá, en að hún hafi ekki haft kjark til þess.

„Svo allt í einu var ég tilbúin til þess að tala um þetta, Ég vissi að ef ég gerði það ekki myndi ég ekkert endilega vera tilbúin til þess síðar,“ segir Vítalía. „Ég hafði fengið mig fullsadda af öllu því sem hafði gerst og líka af sjálfri mér og því að ég væri í þessu ástandi,“ bætir hún við.

Hún segist hafa verið tilbúin að standa með sjálfri sér, eitthvað hafi breyst innra með henni og hún vildi segja sína sögu.

„Þarna var ég ekki að hlusta á einhvern utanaðkomandi sem sagði mér að ég ætti ekki að segja frá, heldur stóð ég með og var trú sjálfri mér.“

Vítalía segist hafa fengið sig fullsadda af öllu því sem hafði gerst en líka af sjálfri sér og því ástandi sem hún var í. Þess vegna ákvað hún að stíga fram og segja sögu sína.
Fréttablaðið/Anton Brink

Sagði frá á sínum forsendum

Vítalía segist hafa verið mjög stressuð fyrir viðtalið við Eddu Falak, umsjónarkonu Eigin Kvenna. Hún hafi þó verið ákveðin í að segja sína sögu af einlægni og á sínum forsendum.

„Ég vissi ekki beint hvað eða hvernig ég ætlaði að segja frá, en þegar ég byrjaði að tala þá bara kom þetta. Þetta er bara mín saga og mín lífsreynsla, maður þarf ekkert að æfa sig í því að segja frá henni,“ segir Vítalía.

Eftir að viðtalið við Vítalíu birtist, brást íslenskt samfélag, líkt og áður hefur verð sagt, við á ólíkan hátt miðað við oft áður, þegar konur hafa greint frá ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir.

Vítalía var bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum sögð þjóðhetja, að saga hennar hefði breytt samfélaginu og að nafn hennar yrði ritað í sögubækurnar. Hún sjálf segist ekki hafa geta gert sér í hugarlund hver viðbrögðin við sögu hennar yrðu.

„Þegar ég hugsa um þetta fæ ég gæsahúð, en ég veit að þessi viðbrögð urðu ekki vegna þess að það var ég sem sagði mína sögu eða að hún hafi verið áhrifameiri en sögur annarra, ég held að þetta snúist um það hvenær ég sagði hana,“ segir Vítalía.

„Þetta virðist hafa verið tímapunkturinn þar sem samfélagið var tilbúið og fólkið í samfélaginu var búið að fá nóg.“


„Ég veit að þessi viðbrögð urðu ekki vegna þess að það var ég sem sagði mína sögu eða að hún hafi verið áhrifameiri en sögur annarra, ég held að þetta snúist um það hvenær ég sagði hana.“


Vítalía sjálf hefur hvorki hlustað né horft á viðtalið við sig og segist ekki tilbúin til þess. Hún muni þó vel hvað hún sagði og segir að það að hún hafi sagt sannleikann og ekki falið neitt, hafi líklega ýtt enn frekar undir þau viðbrögð sem frásögnin vakti.

„Ég var alveg ákveðin í því að ef ég ætlaði að koma fram með mína sögu myndi ég segja alla söguna og segja frá því sem ég upplifði. Það þýðir ekkert að mála sig saklausan og ég hef allan tímann tekið ábyrgð á mínum þætti, um leið og maður fer að ljúga flækjast málin og lygin kemst á endanum upp,“ segir hún.

„Ég skrifa suma hluti á mig og það hef ég gert allan tímann, en sumum hlutum get ég ekki tekið ábyrgð á,“ segir Vítalía. „Allir sem um ræðir í minni frásögn eru fullorðnir einstaklingar og fullorðnir einstaklingar verða að taka ábyrgð á sér. Fólk þarf að átta sig á því að það hafi gert eitthvað rangt og að það sem gerðist og ég sagði frá, sé ekki í lagi,“ bætir hún við.

Vítalía, sem hélt að enginn myndi skilja sig, hefur aftur á móti fengið tugi skilaboða frá fólki sem deilir með henni eigin reynslu sem svipar til hennar.
Fréttablaðið/Anton Brink

Skilur að fólk spyrji spurninga

Vítalía segist hafa orðið vör við alls konar samfélagslega umræðu sem snúi að henni og hennar frásögn. Hún segist skilja að fólk spyrji spurninga og að hún sé berskjölduð.

„Ég sagði frá þessu og opnaði þannig á það að ég væri ekki lengur með allt mitt prívat, en sumum spurningum er erfitt að svara og þó að ég hafi sagt frá er líf mitt ekki raunveruleikaþáttur þar sem allt er uppi á borðum,“ útskýrir hún.

Í samfélaginu hefur spunnist mikil umræða um það hvort að mennirnir sem Vítalía segir hafa beitt sig ofbeldi beri allir jafna ábyrgð og hvort að þeir eigi allir skilið sömu örlög. Spurð að því hvaða áhrif spurningar sem þessar hafi á manneskju í hennar stöðu, segir Vítalía þær truflandi og að þær geti dregið úr trúverðugleika þolenda.

„Ég get sagt það að það er enginn jafn sekur og hinn, allir gerðu sitt og allir eiga sinn þátt í því sem gerðist, það er bara þannig,“ segir Vítalía og bendir á að því fylgi líka ábyrgð að vera á staðnum sem áhorfandi þegar fólk er beitt ofbeldi.


„Ég get sagt það að það er enginn jafn sekur og hinn, allir gerðu sitt og allir eiga sinn þátt í því sem gerðist, það er bara þannig.“


Vítalía hefur fengið fjölda skilaboða úr hinum ýmsu áttum, fólk stoppar hana úti á götu, hrósar henni fyrir hugrekkið og þakkar henni fyrir. Hún segist ekki hafa haft neinar væntingar um áhrif frásagnar sinnar, en finni mikla hlýju víðs vegar að.

„Ég bjóst ekki við hatri og ég bjóst ekki við stuðningi. Ég var ekki búin að hugsa um hvað myndi gerast á morgun eða eftir viku og hafði ekki gert neinar ráðstafanir,“ segir Vítalía.

„Núna er það þannig, þegar ég fer út að borða eða í ræktina, þá horfir fólk mikið og margir brosa til mín. Aðrir koma upp að mér og segja mér að þeim finnist ég hugrökk og fólk hefur jafnvel kallað mig hetju,“ segir hún.

„Það sem kom mér mest á óvart voru allar sögurnar um ofbeldi sem ég fékk sendar og fólk treysti mér fyrir,“ segir Vítalía og bætir við að mæður ungra stúlkna hafi til að mynda sent henni skilaboð og tjáð henni að frásögn hennar hafi hvatt dætur þeirra til að segja sjálfar frá.

„Það að lesa allar þessar sögur sem ég hef fengið sendar hefur verið erfitt og haft mikil áhrif á mig, en það hefur líka hjálpað mér mikið,“ segir Vítalía. Á meðan á sambandi hennar við giftan mann, sem hún fjallar um í hlaðvarpinu, stóð og í kjölfar ofbeldisins, upplifði Vítalía sig eina.

„Mér leið eins og það skildi mig enginn og að það vissi enginn hvað ég væri að tala um. Mér leið eins og það héldu bara allir að það væri eitthvað að mér, en það var svo bara alls ekki raunin.“

Vítalía fékk tugi skilaboða þar sem fólk deildi með henni upplifunum sem svipaði til hennar eigin. „Fólk var að segja mér frá hlutum sem ég þekkti vel frá þessu tímabili í mínu lífi og allt í einu fattaði ég að ég væri ekki ein. Og við erum ekki tíu og við erum ekki tuttugu – við erum óteljandi,“ segir hún.

„Það var búið að segja mér að ég væri rugluð og að ég væri að gera úlfalda úr mýflugu, að ég væri að misskilja og hlutirnir væru svona en ekki hinsegin. En um leið og ég bakkaði aðeins áttaði ég mig á því að ég er ekkert rugluð og að það er fullt af fólki sem hefur upplifað það sama og ég.“

„Ég bjóst ekki við hatri og ég bjóst ekki við stuðningi,“ segir Vítalía en hún segir ofbeldissögurnar sem hún hafi fengið sendar hafa komið á óvart.
Fréttablaðið/Anton Brink

Sá hlutina ekki skýrt

Vítalía segir að með tímanum sjái hún betur og betur hversu erfiðum aðstæðum hún hafi verið í. Hún hafi verið með giftum manni og ekki borið mikla virðingu fyrir sér og sínum tilfinningum.

„Á tímabili fannst mér ég svo heppin að eiga hann að og svo heppin að ég fengi að koma með á æfingu eða í einhverja sumarbústaðarferð. Þarna sá ég ekki hlutina skýrt og áttaði mig ekki á því að ég gæti bara gert það sem ég vil, með þeim sem ég vil, og að það væri til fullt af fólki sem vildi vera með mér án þess að lítillækka mig,“ útskýrir Vítalía.

„En svo er maður fastur í einhverjum aðstæðum og bara kemst ekki úr þeim. Það er auðvelt að standa fyrir utan boxið og spá í hvað annað fólk er að gera, en þegar maður er inni í boxinu getur maður orðið blindur á aðstæður.“

Vítalía segist sjá það nú að á tímabilinu sem hún ræðir um í viðtalinu umrædda, hafi hún ekki verið sú sem hún vill helst vera. „Ég var blind og dofin og var í þessum aðstæðum án þess að vera þarna. Hausinn var ekki til staðar.“

Margt hefur breyst í lífi Vítalíu frá upphafi árs. Fyrstu dagana á eftir upplifði hún vonleysi og sá ekki fyrir sér að hún myndi aftur eiga glaðan dag, sú varð ekki raunin.

„Um tíma lá ég bara á jörðinni og sá ekki fyrir mér að ég myndi standa aftur upp. Ég hugsaði með mér að þetta yrðu endalokin fyrir mig og að ég yrði aldrei aftur sú sama,“ útskýrir hún.


„Um tíma lá ég bara á jörðinni og sá ekki fyrir mér að ég myndi standa aftur upp. Ég hugsaði með mér að þetta yrðu endalokin fyrir mig og að ég yrði aldrei aftur sú sama.“


Þrátt fyrir tilfinningarnar sem hún upplifði og lýsir hér, hélt Vítalía að hún gæti tekist á við allt sem var að gerast í hennar lífi sjálf. „Það var svo auðvitað ekki þannig,“ segir hún og brosir.

„Ég vildi alls ekki fara til sálfræðings, var í einhvers konar afneitun. Ég var heldur ekki viss um að ég vildi og gæti treyst einhverjum fyrir öllu sem væri í gangi. En ég lofaði svo foreldrum mínum að prófa og ég get sagt að nú gengur allt betur,“ segir Vítalía.

„Ég er ótrúlega þakklát því að hafa fengið þessa hjálp og einnig mjög þakklát mörgum öðrum sem hafa stutt mig í þessu öllu,“ bætir hún við og nefnir sérstaklega Eddu Falak og Ólöfu Töru Harðardóttur, meðlim Öfga. Þær segir hún hafa staðið með sér og rétt sér hjálparhönd, jafnvel þegar hún vissi ekki að hún þyrfti á henni að halda.

„Ég er mjög meðvituð um það að þó að mér sé farið að líða betur þá munu þessir atburðir alltaf vera hluti af mér og ég þarf að lifa með þessu öllu,“ segir Vítalía.

„Það verða alltaf augnablik og aðstæður þar sem ég þarf að læra að halda ró minni og kljást við erfiðar tilfinningar. Á tímabili þorði ég ekki út úr húsi og ég þorði ekki að tala við neinn, af því að ég vissi ekki hverjum ég gat treyst og ég veit það ekki enn þann dag í dag.“

Vítalía er einnig þakklát foreldrum sínum og fjölskyldu sem hún segir hafa staðið með sér frá því að viðtalið birtist.

„Núna er staðan þannig að ég tek nokkur skref í einu. Ég er ekki einu sinni komin þangað að ég taki einn dag í einu. Það er bara frá morgni til hádegis, frá hádegi fram að kvöldmat og svo get ég vonandi sofnað,“ segir Vítalía, sem hefur átt afar erfitt með svefn undanfarna mánuði.

„Ég veit að mér mun líða enn betur en ég set enga pressu á sjálfa mig varðandi það. Held bara áfram að vinna í sjálfri mér og hugsa um mig.“

Vítalía fæddist í Rússlandi en hefur búið á Íslandi frá þriggja ára aldri þegar faðir hennar fór að spila handbolta hér.
Fréttablaðið/Anton Brink

Tók harmonikkuna aftur upp

Vítalía fæddist í Rússlandi en hefur búið á Íslandi frá því hún var þriggja ára. Þá fluttist fjölskylda hennar hingað til lands og pabbi hennar, sem spilað hafði handbolta með rússneska landsliðinu, hóf að spila hér.

„Upphaflega stóð ekki til að vera hérna svona lengi, en mömmu og pabba leið vel svo við erum hér enn,“ segir Vítalía.

Stórfjölskyldan býr öll í Rússlandi og hefur Vítalía í gegnum tíðina ferðast þangað einu sinni til tvisvar á ári. „Það er samt þannig að þegar maður er að heimsækja fjölskylduna sína verður ekkert frí úr ferðalögum. Rússland er svo stórt land og við reynum alltaf að hitta marga á stuttum tíma, svo við fjölskyldan höfum líka reynt að ferðast á aðra staði og elskum til dæmis Ítalíu.“

Síðasta sumar ferðaðist Vítalía um Ítalíu í þrjár vikur. Í Napólí fór hún á námskeið þar sem hún lærði að gera pitsu og tíramísu frá grunni. Móðir hennar er kokkur og hún er vön matargerð sem unnin er frá grunni, sem og því að prufa nýja hluti þegar kemur að mat. Vítalía stundar nám í matvælafræði við Háskóla Íslands og nýtur þess einnig sjálf að elda mat, eins og sjá má á Instagram-reikningi hennar.

Með kokkinum sem sá um námskeiðið og Vítalíu myndaðist vinátta og næsta sumri hyggst hún verja á Ítalíu.

„Ég vingaðist við þennan mann og mig hefur alltaf langað að vinna á veitingastað og það ætla ég að gera í sumar, vera á Ítalíu og vinna á veitingastaðnum hans,“ segir Vítalía, sem alla tíð hefur haft mikinn áhuga á mat og næringu.

Vítalía hefur alltaf haf mikinn áhuga á mat og matargerð. Hún spennt fyrir því að verja sumrinu á Ítalíu þar sem hún ætlar að vinna á veitingastað.
Fréttablaðið/Anton Brink

Spurð að því hvað sé fram undan annað en Ítalíuferðin, segist Vítalía stefna að því að keppa í fitness á árinu, en það hefur hún gert tvisvar áður og svo segir hún ekki útilokað að hún grípi í nikkuna.

„Ég lærði á harmonikku í Tónlistarskóla Reykjavíkur í tíu ár og kláraði þar grunnnám í harmónikkuleik,“ segir Vítalía.

„Ég hef ekki verið að nota þennan hæfileika minn mikið upp á síðkastið, en ég tók hana upp um daginn og það er ótrúlegt, þetta er allt í puttunum, alveg fast í vöðvaminninu, svo það er alveg möguleiki á því að ég geri eitthvað meira í þessu,“ segir Vítalía.

„Fyrir ekki svo löngu var ég viss um að ég myndi aldrei komast yfir þetta,“ segir Vítalía, þegar talið berst aftur að opinberun hennar í upphafi árs „Ég vissi að það væri tvennt í stöðunni. Annað hvort að sitja og gráta eða dusta af mér rykið og halda áfram,“ segir hún.

„Ég er fegin að ég áttaði mig á því að í rauninni væri bara eitt í stöðunni, að standa upp og halda áfram, ég er 24 ára og á eftir að gera svo margt. Vítalía er ekki það sem gerðist, heldur bara manneskja,“ segir þessi unga ákveðna kona að lokum.

Athugasemdir